Það er alltaf viss eftirvænting sem fylgir því að fá bók frá Hildi Knútsdóttur. Bækurnar hennar hitta alla jafnan í mark hjá mér. Í ár sendir hún frá sér tvær bækur. Nei, nú er nóg komið sem hún vinnur í samstarfi við Þórdísi Gísladóttur og er sjálfsætt framhald af Hingað og ekki lengra og svo Myrkrið á milli stjarnannaSíðarnefnda bókin er skáldsaga fyrir fullorðna, en ekki unglingabók eins og Hildur er þekkt fyrir.

Það fyrsta sem maður tekur eftir við bókina er gríðarlega falleg kápa. Kápan vekur forvitni og svolítinn ugg. Saman draga kápan og nafnið lesandann inn í textann sem svo gleypir hann og heldur honum þar til bókin er öll lesin. Maður fellur alveg á kaf og dregur vart andann á meðan á lestrinum stendur.

Áreynslulaus lestur

Bókin er stutt og segir af Iðunni sem er alltaf þreytt eftir nóttina. Þreytt í fótunum, þreytt í höndunum. Í fyrsta kafla bókarinnar er Iðunn hjá lækni að tíunda líðan sína og óska eftir úrlausn. Samskipti hennar við lækninn er eitthvað sem flestar konur ættu að kannast við. Vantrú, efi og svo sagt að fara heim og taka verkjatöflu. Hildur skapar persónu sem var auðvelt að spegla sig í, að minnsta kosti fyrir unga konu á þrítugs- og fertugsaldri. Hildur speglar nútímasamfélag og umræðu í bókinni með hugsunum Iðunnar. Hræsni okkar allra sést í Iðunni. Raunar fannst mér ég stundum vera að lesa sögu um sjálfa mig, þótt ekkert nema persóna Iðunnar sé líkt mínu lífi. Hamingjunni sé lof!

Sagan er furðusaga og henni er listilega fléttað saman við hversdaginn. Vinnustaðaáreiti, matur með mömmu og pabba, allt svo venjulegt. Og svo er allt þetta myrkur. Maður trúir því sem er að gerast af því allt er sagt tæpitungulaust og af öryggi. Texti Hildar flæðir þægilega, svo lesturinn verður áreynslulaus og alltumlykjandi.

Stutt og laggóð

Ég las alla bókina á fjórum tímum, og ég er ekki svo hraðlæs. Bókin er fullkomin til aflestrar á aðfangadagskvöld, eftir pakkaklikkunina. Þú munt ná að klára hana á einu kvöldi. Ég hefði sjálf viljað hafa bókina lengri. Ég hef trú á að sagan og efniviðurinn bjóði upp á lengri bók, án þess að hún yrði langdregin. Það hefði verið hægt að fóðra hana betur, byggja upp fleiri persónur og leyfa lesandanum að sjá meira af heimi Iðunnar. Heimur hennar var töluvert einangraður. Iðunn stendur mjög ein, sem er kannski lýsandi fyrir það sem hún er að ganga í gegnum. Síðustu atvikin í bókinni gerast aðeins of hratt fyrir minn smekk og mér finnst eins og Hildur missi takið á söguþræðinum. Það mætti svo sem færa rök fyrir því að það sama komi fyrir sögupersónuna og textinn endurspegli því hugarástand, en ég hefði viljað fá meiri stjórn og meiri upplýsingar. Því er þó ekki að neita að bókin hélt mér allan tíman, spennuuppbyggingin var til fyrirmyndar og endirinn hæfilega óræður. En ég vildi meira!

Myrkrið milli stjarnanna er hámlestrarbók, stutt en grípandi.

Lestu þetta næst

Í heimi Juliu Quinn

Í heimi Juliu Quinn

  Nú þegar þriðja serían af Bridgerton fer bráðum í loftið er kannski kominn tími til að ég...