Sögur til næsta bæjar: Orðlaus

Orðlaus

Eftir Rögnvald Brynjar Rúnarsson

Regndropar skýjanna að himnum ofan dynja á rúður bílsins, jafnvel þrátt fyrir dapurlegt veður þá var Friðrik í góðu skapi. Þegar hann byrjaði starf sitt hjá Húsasmiðjunni átti þetta bara að vera hlutastarf, nú var verið að bjóða honum starf verslunarstjóra. Hann gat ekki beðið eftir að segja Selmu góðu fréttirnar, þau gætu flutt í stærra hús þar sem draumar þeirra eru líklegri til að rætast.

Í útvarpinu kynntu þáttastjórnendurnir næsta lag, tónar Creedence Clearwater Revival laginu Have You Ever Seen The Rain ómuðu í útvarpinu. Friðrik skipti um stöð, hann var meira í glaðlegu stuði, hefði miklu frekar vilja heyra eitthvað glaðlegra eins og mér finnst rigningin góð lagið, sem hann man aldrei hvað hét samt. Breyting á tónlist var ekki þess virði að taka einbeitingu af því að keyra, þegar hann væri á miðri Suðurlandsbrautinni í grenjandi rigningu, bara af því lagið var ekki rétt vibe er ekki ástæða til að stefna honum og öðrum þátttakendum Reykjavíkurumferðarinnar í hættu.

Bíllinn hennar Selmu lá við innkeyrsluna þegar hann kom heim, Friðrik hlakkaði mikið til að segja frá góðu fréttunum hann vissi samt ekki alveg hvernig hann ætlaði að segja henni frá fréttunum. Kannski myndi hann geyma það í nokkra daga til að geta byggt upp dramatískt móment þar sem hann gefur fréttirnar. Hann var handviss að Selma yrði ánægð þar sem hún hafði oft sagt við hann hversu mikið hana dreymdi um að komast í hús með alvöru bílskúr. Hún hafði nú þegar ákveðið að þessi ímyndaði bílskúr myndi verða að listastúdíóinu hennar, þegar hann yrði að raunveruleika. Selma myndi þá hafa meiri tíma til að vinna í listaverkunum hennar. Mögulega gæti hún þá farið að selja fleiri verk og sennilega byrjað að vinna inn góð listamannalaun, en ekki þau lágu launum sem að flestir listamenn eru orðnir vanir fá í laun.

Selma beið bak við hurðina og ætlaði að bregða Friðriki þegar hann kæmi inn, sú tilraun tókst því miður ekki þar sem hún andar allt of hátt. Hefur alltaf gert það, alveg frá því að Friðrik steig inn heyrði hann nákvæmlega hvar Selma stóð en þóttist vera glórulaus. Selma breytir misheppnuðu prakkaratilraun sinni í knús bjóðandi hann velkominn heim. Það var búið að leggja á borð, kvöldmaturinn var í ofninum og hvítvínsflaska stóð á eldhúsbekknum.  „Hjalti kjaftaði frá þessu er það ekki? Þú veist af stöðuhækkuninni?“

„Jú hann gerði það, fyrirgefðu það bara er ekki hægt að koma mér á óvart með vinnutengda hluti þegar hann vinnur á sama stað. Reiprennandi munnur hans komst oft nálægt því að koma okkur báðum í klandur á fyrri skólaárum okkar,“ hlær Selma

 

Gott að hann gerði það hugsaði Friðrik innra með sér. Hann var orðlaus úr valkvíðanum yfir hvernig hann ætti að segja Selmu frá. Guði sé lof að lausláti kjaftur Hjalta af batt þennan hnút fyrir mig.

„Nóg um mig hvernig var dagurinn hjá þér elskan?“

„Ég er loksins að verða sátt við verkið sem ég er að vinna núna get bráðum farið að selja það.“

„Æðislegt fyrir þig.“

Ég veit! Svo kom Trausti í heimsókn, var að segja mér frá þáttunum sem hann er að gera með Sjónvarp Símans. Bauð okkur aukaleikarahlutverk.“

„Spennandi.“

„Ég mun kynna ykkur fyrir hvor öðrum einhvern tímann í vikunni. Getum boðið honum í mat um helgina að ræða málið aðeins betur.“

Friðrik leist vel á þá hugmynd, hann ætlaði að hjálpa Selmu í eldhúsinu en virtist bara vera meira fyrir heldur en hjálp á þessari stundu. Þetta var óeðlileg hegðun hjá Selmu, en mögulega vildi hún bara aðeins fá að dekra hann. Friðrik ætlaði ekki að kvarta yfir því.

„Ég heyrði eitt mjög áhugavert í dag sem ég verð að prufa einhvern tímann.“

„Nú, hvað var það?“

„Ég skal segja þér það þegar þú hefur sest við borðið, ég þarf að taka kjötið úr ofninum núna.“

Friðrik stóð við borðið og ætlaði að opna vínflöskuna.

„AH AH, nei leif mér, sest þú bara ég skal opna vínið.“

Friðrik taldi það vera fyrir bestu að hlýða henni, það átti svo sannarlega að vera að dekra við hann í kvöld. Framtíðin hafi ekki litið svona björt út í langan tíma fyrir honum og nú var allt á leið til betri tíðar. Selma leggur eldfasta mótið á borðið, svo tekur hún vínflöskuna og kveikir á krana vatninu.

„Af hverju ertu að gera þetta?“

„Æj… Ég átti bara von á þér aðeins fyrr þannig vínið er ekki eins kalt og við viljum það. Ekkert sem smá ísköld vatnsbuna lagar ekki,“ segir hún með glotti.

„Þetta er eitthvað nýtt hvítvín, sem ég fann í nýju Vínbúðinni á að vera svakalega gott sagði Hera.“

Hann var byrjaður að skera kjötið er Selma fyllti á glösin. Eftir að setjast við borðið fór hún að segja Friðriki skemmtilegu staðreyndina sem hún hafði einnig lært frá Heru sama dag.

„Hefurðu einhvern tímann borðað kóríander?“

„Nei, get ekki munað eftir að hafa gert það, ertu ekki að tala um kryddið?“

„Jú ég er nákvæmlega að tala um það, vissirðu að mörgum finnst það bragðast eins og sápa?“

„Sápa?“

„Já… Sápa. Fólk skiptist í tvo hluta, þeim sem kóríander bragðast eins og sápa og þeim sem finnast það ekki bragðast eins og sápa.“

„Ha? Vá hvað það er skrýtið.“

„Ég verð nú einhvern tímann að prófa þetta á þig litla tilraunadýrið mitt.“

Friðriki brá við þessa samsetningu orða, Selma var ekki vön að tala svona við hann.

„Líklegt að þú fáir mig til þess.“

Muldraði Friðrik er einn bútur af kjötinu út ataður í sósu hrundi út úr munni hans og skildi eftir brúnan blett á skyrtu hans.

„Kyngdu fyrst… Svo… má tala.“ Selma þoldi ekki þegar Friðrik gerði þetta

„Ef ég fæ þig ekki til þess þá þarf ég bara að lauma því í matinn einhvern tímann.“

Ógeðfelldu svipbrigði Friðriks sýna að honum langaði að spýta matnum úr sér sama hversu dónalegt það væri.

„Rólegur elskan, ég gerði það ekki í kvöld,“ sagði Selma er hún signaði sig.

Það var erfitt að kyngja munnbitanum en það tókst að lokum. Hvítvínið var dásamlegt og kjötið enn betra. Stór geispi læddist út frá vörum Friðriks. Hingað til hefði hann ekki fundið fyrir þreytu, þetta hafði verið langur og áhrifaríkur dagur svo hann gat skilið það að vera smá þreyttur. Selma var búin með sinn hluta matarins og saup á víninu er hún fylgdist með honum borða skaust upp lítið bros. Friðrik stóð upp frá borðinu

„Fyrirgefðu Selma en ég verð að fara að leggja mig Ég er farinn að verða …“

Friðrik byrjaði að verða mjög vankaður og virtist eiga erfitt með jafnvægi. Hann skildi ekki bofs í því af hverju honum liði svona. Selma sýndi engin viðbrögð við skyndilega jafnvægisleysi hans. Friðrik sast í sófann vonandi að smá blundur myndi láta honum líða betur. Selma dró fyrir gardínurnar í stofunni og eldhúsinu. Eftir að hafa myrkvað allt húsið sast hún við hlið Friðriks og strauk fingrum sínum í gegnum hár hans.

Bara smá stund í viðbót og hann myndi sofna. Enginn vitni, hún hafði passað sig sérlega vel á því. Trausti úr Crossfit hópnum hafði lofað að hjálpa Selmu að bera Friðrik út í heitapottinn, hann ætti að fara að verða fullur núna hugsaði Selma er það heyrðist lágt bank. Það var óþægilegt en á sama tíma æsandi að sjá hvað Trausti átti auðvelt með að halda á Friðrik út í heita pottinn. Selma hafði gert hann tilbúinn meðan hún beið eftir Trausta.

„Hvernig gerðirðu það?“ Spurði Trausti þegar þau komu aftur inn.

„Auðvelt, ég setti bara púður af niðurbrotinni töflu í vínglasið hans. Myndi aldrei taka eftir því með öllum búbblum vínsins …“

Trausti kyssir Selmu ástríðlega áður en hún nær að halda áfram, en sleppti loks takinu.

„… og ef það myndi ekki virka þá voru litlar beittar leifar af beinum faldar inn í kjötinu. Nóg til að kafna ef að vínið var ekki nógu sterkt.“

Sagði Selma, er hún fyllti á hvítvínsglas Friðriks án töflu í þetta skiptið, hún lagði glasið á borð sem stóð við heitapottinn. Lífi hennar Selmu með Friðrik var lokið en nýtt og spennandi líf með Trausta beið hennar. Hún hefði ekki þurft að gera þetta allt en það að hún væri ástæðan fyrir dauða Friðriks æsti hana á hátt sem einungis Trausti hefði náð hingað til. Þetta var fullkomið, Friðrik yrði fundinn í heitapottinum í fyrramálið af henni og hún myndi hringja í neyðarlínuna. Selmu hafði alltaf dreymt að vera leikkona og nú var hennar tími til að skína.

 

Rögnvaldur Brynjar Rúnarsson er rithöfundur sem hrífst mikið af hryllingsmyndum og gömlum gotneskum bókmenntum. Rögnvaldur hefur gaman af skáldskrifum almennt en finnst alltaf skemmtilegra ef sögurnar innihalda einhverskonar skrímsli, morðingja eða sögu af illverkum mannverunnar og það sem hún getur afrekað undir réttu kringumstæðunum eða hugarástandi.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...