Bónus lasange
Eftir Jönu Björg Þorvaldsdóttur
Herbergi mitt var ferkantað, veggirnir voru drapplitaðir og stungu í stúf við litríkt skrautið, bækurnar og dótið. Ég átti í hjónaherbergið svo það var risastór hvítur fataskápur sem þakti einn vegginn. Það voru High School Musical rúmföt á einbreiða Malm-rúminu og ég,14 ára, lá í því. Hvíta rúllugardínan var dregin alla leið niður, glugginn lokaður svo það kæmu ekki kettir inn yfir nóttina og svo lætin bærist síður út. Ég heyrði aldrei nákvæmlega hvað fór þeirra á milli en ég heyrði lætin. Það var lasagne í matinn. Ekki heimagert og ekki með béchemel-sósu, hvorki heimagerðri né aðkeyptri. Það var Bónus lasagne, vakúmpakkað í svörtum bakka með gulu slími ofan á sem átti víst að vera ostur. Ógeðslegur matur en þó skárri en Bónus carbonara eða pakkanúðlur. Þetta var besti partur dagsins fyrir mér, enginn heima til að skammast eða rífast, enginn til þess að gagnrýna mig þegar ég stalst til þess að setja auka ost á frosna rétt kvöldsins. Svona lifði ég.
Ég vaknaði alla morgna klukkan sjö, vakti alla á heimilinu og gerði morgunmat. Ekki fyrir mig heldur fyrir þau. Hjúkrunarfræðingurinn í Melaskóla sendi mig heim með bréf í fyrra. Vandræðalega bréfið sem maður reynir að fela í buxnastrengnum eða í peysuerminni á leiðinni aftur inn í stofu svo bekkjarfélagar manns fái ekki staðfestingu á því sem þau halda nú þegar; að maður sé feitur og þurfi að fara í megrun. Hjúkrunarfræðingurinn stakk upp á því að ég hætti að fá mér morgunmat og millimál, fengi mér kannski djúsglas á morgnanna, einn disk af hádegismat í skólanum og kvöldmat. Það var aldrei til djús heima svo ég fékk mér yfirleitt vatnsglas. Ég tók aldrei nesti með í skólann, aðallega vegna bréfsins en líka vegna þess hve tómur ísskápurinn var oft. Ég labbaði alltaf rösklega í skólann með tónlist í eyrunum og var komin að minnsta kosti tíu mínútum fyrir tíma inn í bekkinn og sest í sætið mitt, ég skaraði fram úr í flestum fögum og nýtti tímann milli kennslustunda til þess að lesa í kjörbókum. Ég var yfirleitt komin með slæman höfuðverk upp úr hádegi að sökum svengdar en lét það ekki stoppa mig, fékk mér einn disk og hélt áfram með daginn. Eftir skóla gekk ég lengri leiðina heim og minnti mig á bréfið, stundum var ég samferða stelpunum en flesta daga voru þær á leiðinni í KR á æfingu. Þegar heim var komið tók við listi af verkefnum. Það bað mig enginn um að gera þau en ég tók eftir því að ef ég sleppti þeim urðu foreldrar mínir oft fúlir. Ég tók úr og setti í uppþvottavélina, þurrkaði af í eldhúsinu, setti í þvottavélar og hengdi upp á snúrur, tók til í herberginu mínu þó það hefði verið hreint áður og settist svo niður að læra þó engin heimavinna hefði verið sett fyrir. Þegar því var öllu lokið leyfði ég mér að kveikja á sjónvarpinu, hita ofninn og taka vakúmpakkaða lasagneð úr frystinum. Naut þess að eiga örfáar mínútur með sjálfri mér fyrir aðra svefnlausa nótt.
Aðeins tíu mínútum frá húsinu okkar lá stelpa í rúminu sínu og svaf eins og engill. Hún var í tíunda bekk í öðrum skóla. Hún vaknaði ekki sjálf flesta morgna heldur var hún vakin af móður sinni og sem beið hennar svo í eldhúsinu með hafragraut, ávexti, nýpressaðan appelsínusafa og nestisbox til að taka í skólann á meðan stelpan klæddi sig í föt og burstaði tennurnar. Svona var líf hennar.
Hún borðaði í rólegheitum með þátt í gangi í spjaldtölvunni og skoðaði skilaboðin sem hún hefði fengið á meðan hún svaf. Henni var skutlað í skólann þó hann sé ekki í nema tíu mínutna göngufjarlægð og hún mætti tímanlega, nýtti tímann í að skoða símann og tala við vinkonur sínar. Í hádeginu borðaði hún ekki skólamatinn heldur nestið sem mamma hennar setti í box fyrir hana, kókómjólk og samloku. Vinkonurnar sátu saman og töluðu um hvað þær myndu gera eftir skóla og æfingar, sumar æfðu handbolta en aðrar dans. Stelpan og vinkonurnar sem æfðu handbolta löbbuðu saman á æfingu eftir skóla og spjölluðu í klefanum. Eftir æfingu fóru þær í Hagkaup að kaupa nammi eða gos, allar með debetkort með nægum pening inni á. Þegar klukkan var hálf sjö fóru þær allar heim í mat. Stelpan kom heim í vellyktandi íbúð þar sem foreldrar hennar elduðu saman. Þegar það var lasagne gerði pabbi hennar pastaplöturnar með tæki sem fest var á hrærivélina á meðan mamma hennar gerði béchemel og kjötsósu á eldavélinni, allt frá grunni, allt heimagert. Fjölskyldan sat saman að borða, þau töluðu um æfingar, vinnur, vini og framtíðina. Stelpan fór alltaf snemma að sofa og svaf vel.
Þegar ég var tuttugu og tveggja og stelpan orðin kona urðum við ástfangnar hvor að annarri. Við fórum í bíó, út að borða, horfðum á myndir, töluðum saman um allt og ekkert. Ég elskaði að koma heim til konunnar, leyfa mér að hafa ekki áhyggjur, borða góðan mat, tala um æfingar, vinnur, vini og framtíðina. Hún fór aðeins nokkrum sinnum heim til mín og gisti aldrei. Tveimur árum eftir að við fundum hvor aðra fluttum við inn saman. Konan vildi elda í fyrsta skipti í nýju íbúðinni fyrir mig. Ég fór í Krónuna og keypti hakk, tómata í dós, lauk, basilíku, hvítlauksbrauð, ferskar pastaplötur og Dolmino béchemel-sósu í krukku. Þegar ég kom heim hló konan að innkaupunum, velti því upp hver myndi eiginlega kaupa ruslið í krukkunni, skildi ekki hvers vegna ég felldi tár við viðbrögðunum.
Jana Björg stundar nám í bókmenntafræði og ritlist við Háskóla Íslands. Jana hefur skrifað ljóð og sögur frá því hún man eftir sér og byrjaði að gefa út efni, standa fyrir upplestrarkvöldum og öðrum viðburðum 16 ára gömul. Í dag skrifar Jana um það sem skiptir hana máli hvort sem það eru skáldaðir eða sannsögulegir textar.
Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.