Sögur til næsta bæjar: Rakkar

Rakkar

Eftir Hákon Orra Gunnarsson

Þeir gengu aftur á bak upp húsasundið aftan við kirkjuna í hundslappadrífu, með skeifur á andlitunum, lyktandi eins og gömul afdalahjón. Annar var eldri en þeir báru það ekki með sér, svipaðir á hæð og alveg jafn unglegir; fíngerðir andlitsdrættir, slánalegir og skegglausir. Þeir drógu dauða hunda upp úr vatnsfylltum olíutunnum og gæddu þá lífi en hundarnir brutust um og bitu í hendur þeirra, sem voru þó varðar með bútum úr þykkum dýnum. Dýnurnar hentuðu vel til verks, áður höfðu þeir reynt að vefja gömlum dagblöðum um framhandleggina en þegar blöðin tóku að blotna veittu þau ekki eins mikla vörn. Þeir gengu um garða og götur með rakkana í eftirdragi og slepptu þeim einum af öðrum. Fegnir voru þeir frelsinu, Canis Familiaris, besti vinur mannsins en eiginlegur óvinur drengjanna.

Þeir ræddu málin, hundblautir. Sá yngri kinkaði kolli og brosti örlítið. Veðrið hafði alveg frá fyrstu skímu dags verið þrándur í götu þeirra drengja en það er fátt verra en blaut hundalykt, eins og blautt ryk eða uppþornaður sviti bleyttur á ný, þar að auki er mun auðveldara fyrir hundana að renna úr höndum þeirra með blautan feldinn. Einhvern veginn verður allt verra í bleytu.

„Auðveldasta leiðin til þess að góma þá er að ganga upp að þeim, sakleysislega, og klappa þeim eins og þú hafir alltaf þekkt þá, treystu mér,“ sagði eldri drengurinn.

„Það er ekki eins og við löbbum bara upp að þeim og grípum þá, þeir munu tæta okkur í sig. Ég veit að dýnurnar verja okkur en mig langar bara ekki neitt að vera bitinn.“ muldraði yngri drengurinn.

„Það mun ekkert slæmt henda þig, ég mun passa upp á það,“ sagði sá eldri vinalega.

„ókei en HVAÐ geri ég samt skiluru?“ sagði yngri óþolinmóður.

„Stundum, þá skil ég ekki hvað þú átt við þegar við ræðum saman. Við tölum í hringi og náum aldrei fyllilega að skilja hvorn annan,“ sagði eldri drengurinn, þreyttur á samtalinu en  hélt því gangandi af nauðsyn.

„Þetta er hið einfaldasta verk og við munum inna það af hendi á skjótan máta.“ bætti hann við.

„Þú skalt draga djúpt andann og horfast í augu við óttann,“  hvíslaði eldri.

„Ég skil bara ekki hvernig við erum bara fara—fara ná þeim og svo halda þeim öllum saman, erum við bara fara draga þá áfram í ólunum?“ sagði sá yngri.

„Sjáðu nú til, motturnar munu verja hendurnar að mestu, en það sem skiptir helstu máli er að halda ró sinni.“ sagði hann eins blíðlega og hann gat.

„Ókei, ertu með eitthvað plan til þess að gera þetta?“ sagði yngri drengurinn lágt og dæsti.

Þeir gengu að steinsteyptu þriggja hæða húsi með hendur í vösum og votir um augun en himininn bar sömu tilfinningar og þeir. Verk þeirra var hundleiðinlegt og beinlínis hræðilegt en sá eldri vissi að eftir á að hyggja þá myndi hann vilja deyja sjálfur, hann vildi samt deyja þurr. Sá yngri reyndi að hugsa sem minnst en það sem barðist um í honum var að hann vildi ekki bregðast neinum.

Í húsinu var varla líft vegna reykelsis sem brann stöðugt, einhver óskrifuð regla virtist vera í gildi um það að ekki skyldu gluggar vera opnir undir neinum kringumstæðum. Drengirnir tveir gengu um ganga sem minntu á jakkaföt, dökkir og gráteinóttir. Þeir staðnæmdust við bogadyr að sal þar sem gamall maður gekk í hringi. Salurinn var allur úr dökku gleri og bergmálaði hvert hljóð sem gefið var frá sér. Því var stöðugur kliður í salnum og sérstaklega núna meðan maðurinn gekk um gólf.  Salurinn virtist tómur annars, engin borð né stólar, og einungis glerið og gamli maðurinn.

„rað re rev?“ sagði gamli maðurinn með ýktum grettum.

Drengirnir heyrðu ekki hvað maðurinn sagði og gengu nær honum til þess að ná að heyra betur.

„Afsakið en ég náði ekki því sem þú sagðir kæri herra, gætir þú endurtekið orð þín svo við skiljum þig betur?“ sagði eldri með auðmjúkum og undirgefnum tón.

Gamli maðurinn endurtók sig, drengirnir hlustuðu á það sem hann sagði og virtust skilja því upphófst samtal sem lauk jafn fljótt og það byrjaði.

Drengirnir gengu á brott úr húsinu, stoppuðu og ræddu málin og fóru yfir áætlanir um hvernig best væri að handsama hunda. Síðan gengur þeir um garða og götur og söfnuðu hundum að sér með því að klappa þeim eins og þeir væru vinir þeirra. Síðan drógu þeir þá í húsasundið aftan við kirkjuna meðan þeir glefsuðu og bitu frá sér, þeim var síðan öllum drekkt í olíutunnunum hver á fætur öðrum. Hundarnir flutu um, lyktarlausir og kolsvartir og drengirnir brostu með sjálfum sér á meðan þeir gengu niður húsasundið og áfram út í úrkomuna.

————————————————————————————————————–

Himininn rignir eða snjóar til skiptist en það skiptir ekki máli því heimurinn og það sem í honum er blotnar. Lyktin af rigningu og snjó er engin en það sem blotnar annað hvort vaknar til lífsins eða grotnar og meðfylgjandi lykt fylgir hvorum farveg fyrir sig. Lykt og snerting eru skilningarvit sem vinna bak við tjöldin á meðan sjón og heyrn standa í sviðsljósinu. Það hefur enginn hundsvit á neinu sem liggur í augum uppi.

Hákon Orri Gunnarsson er léttlyndur ungur maður sem skrifar sér til skemmtunar, og vonandi öðrum. Hann er með BSc í líffræði og er að leggja lokahönd á BA gráðu í bókmenntafræði, með ritlist sem aukagrein. Starfar hann hjá Kaffid.is við ýmis störf tengd skrifum, framleiðslu og efnisgerð,  ásamt því að búa til list með félaga sínum undir nafninu Krasstófer og Ormur.

Sögur til næsta bæjar er safn smásagna eftir nemendur í samnefndri smiðju í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar birtast í samstarfi við Lestrarklefann í fjórar vikur í apríl og maí 2024. Umsjónarmaður verkefnsins er kennari námskeiðsins, Rebekka Sif Stefánsdóttir.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...