Dani er venjuleg kona. Hún er komin níu mánuði á leið með dóttur sína Lotte, hún var að flytja aftur í heimabæ sinn með eiginmanni sínum, Clark, og stefnir á að verða heimavinnandi húsmóðir. Dóttir hennar fæðist og móðurhlutverkið er allt sem Dani gæti óskaði sér og meira til. Þangað til hún fer að verða pirruð. 

Venjulegar konur og verur sem þjást

Clark þakkar henni aldrei fyrir neitt sem hún gerir heima. Hann setur diskana aldrei í uppþvottavélina. Hann eldar hafragraut án þess að skola pottinn. Hann kvartar þegar Dani vill fara í jóga eftir að Lotte er komin í háttinn. „Hvað ef hún vaknar?“ spyr hann örvæntingarfullur, og Dani svarar því að þá muni þau augljóslega öll deyja. Barn sem vaknar með föður sínum og ekki móður? Siðleysa. Mömmuvinkonur Dani pirra hana líka. Þær eru dómharðar, með leiðinlegar skoðanir, tala illa um fólk frá Kína og finnst Dani skrítin, því Dani vill ekki tala illa um fólk frá Kína. Dani þarf samt að hitta þær svo hún einangrist ekki, en samkvæmt ráðum mömmubloggara á netinu er mikilvægt að passa sig á því, sem og að fara í gallabuxur einu sinni á dag svo hún fari ekki að sætta sig um of við þyngdaraukningu eftir meðgöngu. 

Augljóst er að eitthvað hlýtur að koma upp á sem ýtir Dani yfir brúnina. En hvert verður henni ýtt? Hún getur ekki farið frá Clark því hann vinnur inn peningana þeirra. Hún er ekki menntuð nema í heimsspeki (oj), er ekki af ríku fólki komin og þarf nú að hugsa um Lotte sína, ekki bara sjálfa sig. Og af hverju ætti hún svo sem að vilja fara frá honum? Hann er góður maður. Rétt eins og mömmuvinkonur hennar eru góðar konur. Góðar, venjulegar konur. Venjulegt fólk. 

Þriðja, fjórða og fimmta vaktin

Bókin er ótrúlega flott lýsing á allri aukavinnunni sem nútímakonur lenda í að vinna. Það að maður Dani sé í raun bara mjög góður gaur, er svo frábært, því hún er greinilega ekki ástfangin af honum, en er fangi hans. Hann áttar sig örugglega ekki á því, mömmuvinkonur hennar átta sig ekki á að þær eru í sömu stöðu gagnvart eigin mökum heldur. En Dani, hún tekur eftir þessu. Tekur eftir því að hún þarf að sjá næstum ein um dóttur þeirra og húsið, og að hann líti á vinnuna sína sem mikilvæga, alvöru ábyrgð með skyldum og álagi, hennar (að sjá um barn og heimili) sem sjálfsagðan hlut. Hversu margar konur eins og Dani eru til? Konur í gagnkynhneigðu hjónabandi sem hata ekki manninn sinn en elska hann ekkert sérstaklega mikið heldur, sem myndu fara frá honum ef þær gætu, ef þær myndu þá ekki festast í fátæktargildru einstæðra mæðra? Hversu margar konur eru að sannfæra sig um að þær séu heppnar, að þær séu nógu hamingjusamar, að þetta skipti ekki máli? Og hversu margar eru raunverulega hamingjusamar og jafnar mökum sínum? 

Það sem grefur rosalega undan sögunni í heild er endirinn, en höfundur missir algerlega sjónar á því sem hann var að reyna að gera. Ég varð fyrir svo ofsalegum vonbrigðum með endann að ég var ekki viss hvort ég geti mælt með bókinni, en, eftir að ég jafnaði mig á þessu ákvað ég að bókin sé alveg þess virði að lesa, og svo er tilvalið að taka hana í bókaklúbbi þar sem hægt er að ræða hana við fleiri.

Þessi bók er fullkomin fyrir: Stresslestur í fæðingarorlofi, eða bara kósý lestur með skemmtilegum persónum og hnyttnu máli.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...