Gáfaða dýrið er fimmta bók Sæunnar Kjartansdóttur en bókin kom út núna á vormánuðum 2024. Sæunn er hjúkrunarfræðingur og sálgreinir og hefur áður gefið út bækurnar Hvað gengur fólki til? (1999), Árin sem enginn man (2009), Fyrstu 1000 dagarnir (2015) og Óstýrláta mamma mín…og ég (2019). Teikningarnar í Gáfaða dýrinu eru eftir Rán Flygenring.
Í Gáfaða dýrinu ræðst höfundur ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en mannlega eðlið sjálft er til umræðu og hvernig frumstæðasti hluti mannsins stangast á við rökhugsunina.
Höfundur talar um það í upphafi bókar að farið sé að styttast í annan endann á starfsævi hennar sem sálgreinir og að hana hafi langað til að miðla ýmsu sem hún hafi lært í gegnum tíðina. Og það munar ekki um afraksturinn. Bókin samanstendur af 20 köflum sem allir eru í styttri kantinum enda ekki vanþörf á. Höfundur hefur tekið saman mikið magn fróðleiks þar sem hún bæði vitnar í rannsóknir og miðlar úr sínum eigin reynslubanka. Ég segi að það sé ekki vanþörf á að kaflarnir séu stuttir því ég þurfti að staldra við í lok hvers kafla, leggja bókina frá mér og virkilega melta það sem ég hafði lesið. Bókin er heill hafsjór af staðreyndum, vangaveltum, hugmyndum, skýringum og spurningum um mannlegt eðli.
Ótti og þörf fyrir aðra
Við mennirnir erum nefnilega bara það: Gáfaða dýrið. Því við erum vissulega spendýrategundin Homo Sapiens. Heili okkar er hannaður til að halda okkur á lífi. Heilastofninn er frumstæðasti hluti heilans og á það til að taka völdin af heilaberkinum, nýjasta hluta heilans, mun oftar en við kærum okkur um.
Ein tilvitnun sem mér fannst mjög lýsandi fyrir efni bókarinnar er að „Við þörfnumst annars fólks og við óttumst það.” Ég held að margir geri sér ekki grein fyrir, eða vilji ekki viðurkenna, hversu sterka eðlislæga þörf við höfum fyrir félagsskap annarra. Þó er stigsmunur á þeirri þörf. Sumum líður best í faðmi fjölskyldunnar á meðan aðrir eru partýdýr. En þegar öllu er á botninn hvolft er staðreyndin sú að við erum ólæknandi félagsverur. Við höfum öll þörf fyrir að hlustað sé á okkur af fullri athygli. Í hraða nútímans getur verið afar snúið að nálgast virka hlustun enda erum við flest ekkert sérstaklega fær í að hlusta. Það verður eiginlega að segjast eins og er. Þar er ég sjálf ekkert undanskilin.
Við þörfnumst annars fólks og við óttumst það.
Höfundur talar mikið um mikilvægi góðs uppeldis barna og það eru skiljanleg viðbrögð foreldra að fara í vörn við lestur slíkra kafla. Sæunn dregur ekkert undan og leggur mikla ábyrgð á herðar foreldra. En ég vil biðla til foreldra að taka það til sín sem þeir geta með góðu móti breytt. Annað skrifast á samfélagsgerðina og Sæunn er ekki síður að tala til ráðamanna með boðskap sínum.
Bókin hjálpar manni ekki einungis við að skilja sjálfan sig betur heldur líka annað fólk. Öll hin gáfuðu dýrin sem við þörfnumst en óttumst á sama tíma. Ég mæli með bókinni fyrir alla sem vilja skilja mannlega hegðun aðeins betur. Helst myndi ég vilja sjá barnabókar útgáfu af Gáfaða dýrinu. Höfundi tekst vel til við að koma flóknu efni frá sér á aðgengilegan máta. Teikningar Ránar voru gott uppbrot og sýndu oft kómísku hliðina á varnarviðbrögðum heilans.
Því miður verð ég að viðurkenna að ég, sem auðsæranlegt foreldri, upplifði dálítinn predikunartón í Árin sem enginn man en það sama verður ekki sagt um Gáfaða dýrið. Mér fannst höfundi takast afar vel upp í þessari bók. Kannski af því að ég skil núna betur að ég er bara dýr í lífsbaráttu. Við erum öll bara að nýta okkur aðferðir til að lifa af, þó deila megi um ágæti þeirra og gagnsemi. Meira um það í bókinni.