Háskólabíó á þriðjudagskvöldi í ágúst. Það er röð út úr dyrum. Ég sem hélt að ég væri sein og að ég þyrfti að lauma mér inn í sætaröðina mína. En hér eru allir léttir, ljúfir og kátir þó klukkan sé gengin yfir byrjunartíma sýningarinnar. Meira að segja sýningarstjórinn bíður slakur eftir að gestirnir hafi kíkt í vinalegu sjoppuna og fái sér sæti. Sýningarstjórinn er líklega bara leikstjórinn sjálfur því hér í þessu leikhúsi bregða allir sér í hin ýmsu hlutverk með ánægju. Á myrkvuðu sviðinu sitja leikararnir tilbúnir ásamt fullskipaðri hljómsveit. Það eru engin tjöld, enda sviðið ekki ætlað sem leikhús, en það hefur ekki komið að sök í þessu sumarleikhúsi Afturámóti. Ég fæ mér sæti og undirbý mig að fá að skyggnast inn í frjóan sköpunarheim Egils Andrasonar sem er allt í senn leikstjóri og höfundur sögu, texta og laga. Honum til aðstoðar er Hafsteinn Níelsson í handriti og leikstjórn og Kolbrún Óskarsdóttir er dramatúrg og meðhöfundur.

Leikgleði og hjarta

Ég er mætt á söngleikinn Vitfús Blú og vélmennin. Ljósin kvikna og þrjár verur stíga á mitt sviðið. Þetta eru örlagaskvísurnar sem segja og syngja söguna með ákveðni og stæl. Sagan fjallar um nýjan heim, árið er 3033 og vélkvendið Algríma Alheimsforseti ætlar sér að taka yfir heiminn. En samkvæmt fornum spádómi eru örlög mannkynsins í höndum hins unga Vitfúsar Blú. Hann er eins konar messías sem þarf að bjarga öllum, þrátt fyrir að vera frekar klaufskur og einfaldur. Það er augljóst að verkið og sýningin er unnin með miklu hjarta alveg frá fyrstu drögum, mikil orka streymir frá leikhópnum og leikgleði einkennir verkið. Þetta er hrátt leikhús en hér eru þó engir amatörar á ferðinni. Lagasmíðin er fullmótuð og handritið með dass af aulahúmor er fullkomið í óði sínum til klisjanna sem við elskum öll.  Lögin eru skemmtileg og grípandi og textarnir hnyttnir.

Leikhópurinn þéttur

Egill Andrason hefur fengið til liðs við sig virkilega færa leikara til að glæða sýninguna lífi. Með titilhlutverkið fer Mikael Emil Kaaber sem er þekktur fyrir hlutverk sín í kvikmyndinni Kulda, í Krakkaskaupinu og í þáttunum Svo lengi sem við lifum svo nokkur dæmi séu nefnd. Mikael er greinilega mjög fjölhæfur leikari og nær hann einfeldningshætti og viðkvæmni Vitfúsar Blú einkar vel með einlægum leik sínum. Halldór Ívar Stefánsson, Helga Salvör Jónsdóttir og Salka Gústafsdóttir harmónera þétt saman sem örlagaskvísurnar en þau bregða sér einnig í ýmis hlutverk á skemmtilegan hátt eftir að hafa rifist um það hver skuli leika hvern. Þar sýnir Egill fínlega hæfileika sína í handritagerð við að byggja brú á milli atriða, ramma þau inn og nýta sér leikarana til fulls svo úr verður mjög lifandi og gamansamt leikhús.

Molly Mitchell leikur síðan Algrímu Alheimsforseta og nær hún vélrænum hreyfingum hennar feiknavel. Liðsmaður hennar og hægri höndin hann Valentínus er síðan leikinn af Sölva Viggósyni Dýrfjörð sem er heldur enginn nýgræðingur í leikhússtörfum og muna margir líklega eftir frábærri frammistöðu hans sem Billy Elliott í Borgarleikhúsinu. Sölvi var sömuleiðis virkilega fær í að ljá vélmenninu þennan fullkomna blæ og rödd sem þurfti til. Síðast en ekki síst var Mímir Bjarki Pálmason sem lék gestinn Gest. Já, ég var ekkert að grínast með aulahúmorinn (hann var æði). Gestur verður vinur Vitfúsar og fer með honum í þá hættuför að mæta Algrímu. Mímir var með góða og vinalega útgeislun í hlutverki sínu.

Tilfærslur milli atriða voru vel smurðar og  faglega ofnar  og vel var gert með að nýta sögu og samtöl til að breyta leikmyndinni þegar til þurfti. Búningarnar í höndum Söru Lind Guðnadóttur voru vel gerðir í einhverjum tilfellum eins og í tilfellum vélmennana sem voru skotheld en stundum hefði mátt gera betur eins og sérstaklega búningar örlagaskvísanna,  þó að þar gæti hafa spilað inn í nálægt auga mitt á fremsta bekk. 

Orka, húmor og grín

Vitfús Blú er svo sannarlega orkuskot. Söngleikurinn iðar af lífi og það er mikil gleði á sviðinu. Leikarahópurinn nær vel saman og dansinn og tónlistin neyðir áhorfendur til að dilla sér. Raunar voru áhorfendur svo spenntir og heillaðir að það var hrópað og klappað við hvert tækifæri sem gafst svo gleðin smitaðist svo sannarlega út fyrir sviðið. Það var einhver hrá og rafmögnuð orka í Háskólabíó. Þetta er leikhús sem sést ekki oft, einhvers konar kabarett fílingur þar sem leikarar meðal annars hoppa út í salinn og klifra yfir sæti og gantast í leikstjóra sem veifar áhorfendum úr sýningarstjórastafni sínum. Þarna er mikill húmor og grín og ást á leikhúsforminu og lífinu. 

 Það var æðislegt að hafa hljómsveit á sviðinu og hún lék vel á móti leikarahópnum við hin ýmsu tilefni. Hljóðgæðin hefðu þó mátt vera betri til að leyfa röddunum að skína fullkomlega í gegnum hljómsveitina en ég vil varla kvarta yfir því þar sem ég er svo ánægð með Afturámóti að bjóða upp á sumarleikhús og þar með fjölbreyttari flóru í leikhúsmenningu landsins. Egill Andrason er svo sannarlega einstaklingur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni enda augljóslega hæfileikaríkur á mörgum sviðum og ég fagna því alltaf innilega þegar nýir söngleikir fæðast.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...