Ágengir fyrrverandi íbúar valda usla

Kápumynd af bókinni We used to live here
Það eru örfáir dagar eftir af október þegar þetta er skrifað og Hrekkjavakan nálgast óðfluga. Að venju á þessum árstíma fyllast allir bókakimar samfélagsmiðla af myndum af fólki að drekka Pumpkin Spice Latte í kósýlestri með hrollvekjur og aðrar hryllingssögur. Ég mun seint geta skilið að lestur á hrollvekjum veki upp kósýheit hjá fólki, en samt sem áður féll ég í þessa árstíðargryfju hryllingssagna og náði mér í bók úr þeim bókmenntaflokki á bókasafnið. Ég var búin að sjá nokkur meðmæli um hana á áðurnefndum kimum samfélagsmiðla en það er bókin We Used to Live Here eftir Marcus Kliewer. Hún var til á Borgarbókasafni og verð ég að hrósa fyrir það því bókin er alveg nýkomin út.

 

Ögrandi lestur

Þessi bók er klárlega hrollvekja. Hafa þarf í huga að ég er ekki vön að lesa svona bækur svo kannski er hún ekki jafn spennandi fyrir þaulvana hrollvekjulesendur en mér fannst hún alveg feykinógu hræðileg. Ég var aðeins að ögra sjálfri mér með lestrinum á þessari bók. Mig langaði til að athuga hvort mér myndi líka lesturinn og hvort ég væri til í að lesa fleiri svona bækur. Hér á árum áður las ég talsvert af hrollvekjum og las til að mynda mikið eftir Stephen King en sá áhugi hvarf þegar ég varð móðir. Það var eitthvað við móðurhlutverkið sem slökkti á þeim áhuga. Þar sem elsta barnið er 23 ára þá er óhætt að segja að það sé ansi langt síðan ég datt í góða hrollvekju.

Hrollvekjandi kósýlestur? 

En að bókinni sjálfri. Hún fjallar um Eve og konu hennar Charlie sem hafa fest kaup á húsi á afskekktum stað. Hús sem er gamalt og þarfnast endurbóta en Eve og Charlie stunda það að kaupa hús, gera þau upp og selja fyrir gróða. Eitt kvöldið þegar Eve er ein heima (auðvitað) bankar fjölskylda uppá og segir fjölskyldufaðirinn að hann hafi alist upp í húsinu og spyr hvort hann og fjölskyldan megi skoða húsið. Gegn sinni betri vitund samþykkir Eve það og af stað fer æsispennandi og hrollvekjandi atburðarrás. Eitthvað yfirnáttúrulegt er í gangi og Eve fer að efast um hvað er raunverulegt og hvað er það ekki. Svo æsispennandi fannst mér sagan að ég las hana á einum degi uppi bústað. Mæli ekki með því samt, að vera einn í myrkri í bústað að lesa. Allavega ekki ef hugmyndin er að þetta sé kósýlestur. Sem ég reyndar skil ekki enn, nokkrum málsgreinum síðar, að lestur hrollvekju geti verið kósýlestur en það er annað mál. 

Netflix mynd á leiðinni

Persónurnar eru áhugaverðar og það er alltaf eitthvað óhugnanlegt eða spennandi á hverri síðu. Um leið og ég opnaði bókina var ég farin að tala við blaðsíðurnar, spyrja Eve hvað hún væri eiginlega að hugsa að hleypa þessu fólki inn og svo framvegis. Ég var gjörsamlega límd. Höfundurinn lýsir líka óhugnanlegu atriðunum svo vel. Mér leið eins og ég væri að spila hrollvekju í hausnum á mér, að ég væri að horfa á hryllingsmynd. Það kemur því ekki á óvart að Netflix er nú þegar búið að tryggja sér kvikmyndaréttinn, það gerðu þau áður en bókin kom út. Það hljómar svolítið sérstakt en það er líka því þessi bók var skrifuð á sérstakan hátt. Sagan byrjar að koma upphaflega út í formi smásagna á Reddit. Þær urðu það vinsælar að úr varð að höfundurinn fékk útgáfusamning fyrir bókina og Netflix tryggði sér kvikmyndaréttinn. 

Þessi bók er mögnuð. Ég held að hún eigi eftir að verða svolítið hype á samfélagsmiðlum en ég held líka að hún eigi eftir að standa undir því. Ef þú vilt taka kósýlestur með hrollvekju á næstunni eða bara láta hræða þig smá þá er þetta bókin fyrir þig.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...