Í seríunni um Bekkinn minn eftir Yrsu Þöll Gylfadóttur er íslenskur raunveruleiki eins og hann gerist bestur. Í hverri bók fær einn nemandi að láta ljós sitt skína og í þeirri nýjustu Bekkurinn minn: Hendi! þarf Hallgrímur að glíma við alls kyns álitamál. 

Hallgrímur og Amir ætla að fara að spila fótbolta saman, en svo óheppilega vill til að á vellinum eru tveir eldri krakkar að spila. Það kemur þó í ljós að það er ekki vandamál, þeir félagar mega spila með þeim. Hallgrímur er fljótur að rjúka upp í reiði þegar hann tapar, hann er með mikið keppnisskap og afskaplega tapsár.  Þegar Úlfur, annar eldri krakkanna, ver mark með hendi missir Úlfur alveg kúlið, verður brjálaður og öskrar á Úlf að hendin á honum sé eins og kylfa og því hafi þetta allt verið ósanngjarnt. Úlfur er nefnilega með skrýtna hendi, það vantar fingur og úlnlið á hann. Og svo segir Úlfur frá því hvernig hann missti hendina. 

 

Sannleikurinn kryddaður

Í hverri Bekkurinn minn bók fær aðalpersónan eitthvert hversdagslegt mál til að glíma við. Í tilfelli Hallgríms er það hvernig beri að koma fram við fólk sem er frábrugðið norminu. Úlfur er nefnilega frekar þreyttur á því að öll umræðuefni í kringum hann fjalli um hendina á honum. Hann hefur því gripið til þess ráðs að segja mismunandi sögur af því af hverju hendin hans er eins og hún er. Sannleikurinn er að sjálfsögðu sá að hann fæddist bara svona. En sögurnar sem hann segir krydda sannleikann svo um munar. 

Á forsíðu bókarinnar stendur Hallgrímur fótboltastrákur með boltann undir hendi, tilbúinn í takkaskónum. Það er hætta á að margur fótboltakrakkinn verði fyrir svekkelsi þegar í ljós kemur að efni bókarinnar fjallar ekki beinlínis um fótbolta. En þau hafa þá kannski óvart lesið um eitthvað annað en fótbolta og öllum er hollt að víkka út sjóndeildarhringinn. 

Bekkurinn minn eru skemmtilegar bækur sem tala beint inn í raunveruleika íslenskra barna. Þær eru gífurlega vinsælar á skólabókasöfnum og nauðsynleg viðbót við íslenska barnabókaflóru. Myndlýsingar Iðunnar Örnu sýna íslenskan veruleika á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Flest íslensk börn ættu að kannast við eitthvað í reynsluheimi persónanna úr seríunni. 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...