Jónas Reynir Gunnarsson er einn af okkar athyglisverðustu rithöfundum en hann greip landann með fyrstu skáldsögu sinni, Millilendingu, og toppaði sig með þeirri fjórðu, Kákasusgerillinn, sem kom út 2022.

Nú teflir hann fram fimmtu skáldsögunni, Múffu. Það munu eflaust margir stoppa við þennan titil, ég gerði það nú sjálf, en hér er ekki um að ræða einhverja myndlíkingu heldur einfaldlega gervipíku. Það mun líklega koma mörgum á óvart en þetta tiltekna kynlífsleikfang mun stía í sundur lítilli fjölskyldu utan af landi. Þetta hljómar nú örugglega svolítið furðulega en það er einmitt það sem þessi bók er, uppfull af furðum.

Bókin hefst í kjallarherbergi Markúsar, þrjátíu og þriggja ára manns, sem eyðir mestum tíma sínum í tölvuleikjum. Hann býr hjá föður sínum, Birni, og stjúpmóður, Ölmu. Alma er doktor í heimspeki sem vinnur sem grunnskólakennari í litla þorpinu á meðan Björn vinnur hjá Vegagerðinni. Vert er að minnast á dularfulla hundinn sem kemur fyrir í upphafi bókar og prýðir kápu bókarinnar, en hann verður tákn út í gegn um söguna sem athyglisvert er að ráða í.

Örlagaríki pakkinn

Björn telur að múffan muni orsaka „algjöra uppgjöf“ (bls. 25) hjá Markúsi. En Alma telur að múffan muni fresla hann, kannski mun hún jafnvel kveikja áhuga hans á að kynnast alvöru konu: „Hann er frjálsari en við af því að hann lifir eftir gildum sínum.“ (bls. 37) Þessi ágreiningur hjónanna veldur því að Björn yfirgefur heimilið. Hér eru hjón sem einblína á líf fullorðins sonar sem hefur ekki aðlagað sig að samfélaginu eins og þau vildu þegar raunveruleikinn er sá að þau bæði þurfa að horfa í eigin barm. Hver er það sem þarfnast hjálpar á þessu heimili?

Fyrri partur bókarinnar er fremur hefðbundinn en í seinni hluta verksins fara undarlegir hlutir að gerast. Það má segja að söguþráðurinn beygi af hinum fjölfarna þjóðvegi inn á illa merktan malarveg þar sem lesandinn finnur fyrir glænýja og óhefðbundna staði. Bókin minnir mig að því leytinu á Krossfiska, aðra skáldsögu Jónasar, sem leysist út í súrrealismann. Á þessum tímapunkti þarf lesandinn að halda sér fast til að halda í við söguþráðinn. Alma kannar áður ókunn djúp, óuppgert samband við gamlan vin, Markús flýr og Björn reynir að ráða úr því sem gerðist. Fjölskyldan tvístrast í leit að svörum.

 

Saman en í sundur

Bókin veltir upp mörgum spurningum varðandi tengingu og tengslarof, hvernig fjarlægðin og þögnin dýpkar á milli manneskja sem þó búa undir sama þaki. Hvert og eitt eru að ganga í gegnum mismunandi hluti en þau virðast öll eiga einmanaleikann sameiginlegan.

Skáldsagan er heimspekileg, tilvistarleg og súrrealísk. Hér þarf lesandinn að draga eigin ályktanir, setja upp greiningargleraugun og rýna vel í verkið. Þetta er stutt bók en hana má endurlesa til að uppgötva nýja þræði. Ef lesandinn er tilbúinn að kafa djúpt ofan í verkið mun hann finna margt áhugavert og bitastætt. Mögulega skilur bókin lesandann eftir með fleiri spurningar en svör en vel slípaður stíll Jónasar skapar virkilega heillandi og dularfullt andrúmsloft.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...