Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún Nýræktarstyrk árið 2024. Áður hefur hún gefið út skáldsöguna Skotheld.

Moldin heit fjallar um hina ungu Karen sem situr í upphafi sögunnar  á aftasta bekk í jarðarför ástmanns síns. Karen er dansari í ónefndum dansflokki og er líf hennar litað af sköpun og líkamlegum sársauka. 

Stúdía á líkömum

Um tíma minnti söguþráðurinn mig á kvikmyndina Black Swan (2010)  þar sem dansarinn Karen leggur allt í sölurnar fyrir mikilvægan sólódans, en lesandi fær að kafa djúpt í tilfinningalíf aðalpersónunnar sem er lýst á ljóðrænan máta. Líkaminn er stórt og fyrirferðarmikið þema í verkinu, þarna koma fyrir ósjálfráða líkamar, líkamar á hreyfingu, líkamar sem frjósa og því er lýst hvernig tónlist skekur líkamann og má því segja að aðalpersónan nánast líkamnist fyrir lesandanum. Margir partar í sögunni eru auk þess góð núvitundaráminning þar sem lesandi er minntur á líkamsvitund og öndun. Það mætti því segja að bókin sé hálfgerð stúdía á líkömum.

 Skapandi persónur

Verkið er einnig tilraun til að fanga kjarna sköpunar og ýmissa listforma, en allar persónur sögunnar eiga það sameiginlegt að þrífast í listinni á einhvern hátt. Karen er auðvitað dansari og líkami hennar því verkfæri og list í sjálfu sér, ástmaðurinn heitni var ljósmyndari, Ýmir vinur hennar er píanóleikari og vinkona hennar Esja er síðan söngkona. Auk þess er togstreitan, eða hugmyndafræðilegi munurinn, sem Birgitta lýsir á milli hreyfingar dansins annars vegar og svo tilhneigingu ljósmyndunnar til að frysta hreyfingu hins vegar sett upp á mjög áhugaverðan hátt. ,,Líkaminn á pappírnum var ekki verkfærið sem ég þekkti’,’ (bls. 101) segir Karen meðal annars þegar hún uppgötvar það sem henni þykir óþægilegur munur á milli sín og þess sem hún elskar. 

Sterk samtöl

Form Birgittu er nýstárlegt og það er sérstaklega athyglisvert hvernig hún skrifar upp samtöl.  Hún er með ferska rödd og textinn flæðir vel og skemmtilega um leið og lesandi hefur samþykkt þetta nýja form og sett sig í stellingar. Það mætti jafnvel segja að textinn dansi í eigin rytma. Sagan flakkar fram og til baka í tíma svo að lesandi þarf að minna sig á hvað á undan hefur gengið en samtölin eru sterk og hver persóna er með ákveðna og vel mótaða rödd.   

Birgitta passar sig að gefa ekki allt uppi heldur laumar hún því til lesanda smám saman svo að spennuþrungin samtölin fá aukalag af rafmögnun. Hún fer auk þess afar fínlega í lýsingar á ástarsenum svo að þar er ekki vott að finna af væmni en samt sem áður er mikill hiti, sem er afar vel gert.  Moldin heit er athugult og athyglisvert verk og Birgitta Björg er klárlega fersk rödd í bókmenntaflóru landsins.

Lestu þetta næst

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...

Að hverfa í tómið

Að hverfa í tómið

Jónas Reynir Gunnarsson er einn af okkar athyglisverðustu rithöfundum en hann greip landann með...