Nýverið las ég bækurnar Húsið hennar ömmu og Húsið hans afa. Höfundur bókanna er Meritxell Martí. Hún hefur gefið út yfir fimmtíu bækur og margar þeirra hafa verið þýddar á önnur tungumál. Bækurnar komu fyrst út á katalónsku og spænsku. Xavier Salomó er myndhöfundur og Elín G. Ragnarsdóttir þýddi bækurnar sem eru gefnar út af Drápu.

Ekki er allt sem sýnist

Í fyrra kom út bókin Húsið hennar ömmu. Þar segir frá ungum dreng sem fer einu sinni í mánuði að heimsækja ömmu sína. Húsið hennar er tiltölulega venjulegt í útliti, en ekki er allt sem sýnist hjá henni ömmu gömlu. Inni er að finna ótrúlegustu hluti, meðal annars hauskúpur í skál, ofurþvottavél með beittar tennur, skrímsli, leynigöng og margt fleira. Amman er norn og ástæðan fyrir því að ömmudrengurinn heimsækir hana einu sinni í mánuði er að hann er varúlfur og þau fljúga saman út í nóttina á kústinum hennar ömmu.

Húsið hans afa kom út í ár. Þar er svipað uppi á teningunum. Ung stúlka heimsækir afa sinn sem býr við sjóinn. Þá kemur í ljós að afinn er ekki heima en hann skildi eftir þau skilaboð að hann væri í hellinum skammt frá. Hann biður afastelpuna um að kippa með sér nokkrum hlutum á leið sinni í hellinn. Alveg eins og í fyrri bókinni er ekki allt sem sýnist inni í húsinu og í lok bókarinnar tekur það algjörum hamskiptum. Þá kemur í ljós að afinn er sjóræningi og að stúlkan getur breytt sér í hafmeyju.

Grípandi myndir

Bækurnar eru báðar hrollvekjur fyrir yngstu lesendurnar. Alls konar hættur er að finna í húsunum hjá ömmu og afa en börnin una sér mætavel þar inni. Ekki er alveg skýrt hvort krakkarnir viti af öllu sem er í gangi í húsunum. Annað hvort láta þau það ekkert á sig fá eða þau hafa ekki hugmynd um hætturnar í nágrenninu. Það að börnin í sögunni eru hvergi hrædd veitir þó lesandanum hugrekki til að halda áfram að lesa.

Myndir Xavier Salomó eru bráðskemmtilegar! Myndlýsingin grípur strax augað enda eru teikningarnar bæði litríkar, einstaklega vandaðar og stútfullar af smáatriðum sem gera söguna enn betri að mínu mati. Einnig er lúmskur húmor í myndunum sem gerir sögurnar bæði eftirminnilegar og fyndnar.

Eitt af því fyrsta sem ég tók eftir þegar ég opnaði bækurnar var hvað pappírinn er góður. Þýðingin flæðir vel og þegar ég las fannst mér eins og ég væri með eitthvað vandað og veglegt í höndunum, eitthvað sem er búið að leggja mikla hugsun og vinnu í.

Fyrir krakka sem vilja hrollvekju

Í bókunum eru alls konar hræðilegir hlutir eins og beinagrindur, skrímsli og fleira draugalegt svo þetta eru tilvaldar sögur fyrir krakka sem vilja bæði spennu og hrollvekju.

Bækurnar komu mér á óvart. Báðar sögurnar eru hnyttnar, gerast í töfrandi umhverfi og myndlýsingarnar eru glæsilegar. Ég mæli eindregið með þessum vönduðu flipabókunum fyrir yngstu lesendurnar enda eru þær hrikalega skemmtilegar.

 

 

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...

Þörf bók um missi

Þörf bók um missi

Núna á dögunum kom út íslensk þýðing á barnabók eftir John Dougherty og Thomas Docherty...