„Hér hvílir sannleikurinn“

Nýjasta verk Jóns Kalmans Stefánssonar er þykk söguleg skáldsaga þar sem ferðinni er heitið aftur til upphafs 17. aldar. Í byrjun aldar áttu sér stað hræðilegir atburðir á Vestfjörðum, Spánverjavígin svokölluðu, sem eru til umfjöllunar hér. Skáldsagan fjallar þó um miklu meira en bara þá atburði. Hún fjallar um mennskuna, ástina, ofbeldi, iðrun og mest af öllu um sannleikann. Í hringiðu þessa alls er presturinn séra Pétur sem ritar feikilangt bréf til viðtakanda sem er hulinn lesandanum í upphafi. Pétur rifjar upp dvöl sína  á Meyjarhóli á Brúnasandi þar sem hann tók við prestdæmi og atburðina sem leiddu að vígunum hroðalegu. Hann er nokkuð lengi að koma sér að efninu, enda frá miklu að segja, og hans traustasti trúnaðarvinur, Dóróthea, bendir honum á að hann verði að segja alla sína sögu í bréfinu langa.

Sterkur höfundartónn

Þó að Jón Kalman sé hér á nýjum slóðum hvað varðar tíma þá er hann á kunnuglegum slóðum landfræðilega séð og hans feiknarsterki höfundartónn skín í gegn þó að málsniðið sé meira í takt við tímabil sögunnar. Það er séra Pétur og hans innri mónólógur sem leiðir lesandann í gegnum alla frásögnina. Hans hugleiðingar og siðfræði, hans brestir og mistök, halda lesandanum heilluðum. Þarna eru einnig fjöldinn allur af litlum frásögnum af örlögum fólks sem koma inn og út úr lífi Péturs sem snerta við lesandanum. Jón Kalman er einkar lunkinn við að mála upp mynd af lífi og sálarkvölum persóna sem gegna í raun litlu hlutverki ef á heildina er litið. Ég fann djúpt til með persónum sem ég fékk aðeins að kynnast í einum stuttum kafla og örlög þeirra sitja jafnvel enn í mér.

Pétur er veikur fyrir ástinni, hrífst heldur auðveldlega af konum en tekst ekki að finna konu sem er ógift og gæti orðið hans. Ástin er sterk í hjarta Péturs en það er líka hans nánasta fólk sem skiptir hann mestu máli,  þar má nefna heimilisfólkið á Brúnasandi og fósturbörn. Það eru bæði kostir og gallar Péturs sem gera hann svona viðkunnanlegan ásamt réttsýni hans og þörf til að átta sig á heimi sem er að taka miklum breytingum. Hann er frekar mikill heimsmaður, lærði í Kaupmannahöfn og skrifast á við vini sína í Bretlandi og fær fréttir af nýjustu vísindunum í bréfum frá þeim. Hann er fróðleiksfús og forvitinn.

 

Óheyrilegt ofbeldi

Ég las að Spánverjavígin eru talin eina fjöldamorðið sem hefur verið framið á íslandi. Og það töluvert hrottalegt fjöldamorð. Lýsingarnar í bókinni eru frekar ógeðfelldar þegar kemur að þessu hræðilega ódæði sem framið var af Ara Magnússyni sýslumanni og öðrum alþýðumönnum úr sveitinni. Hér eru það hugleiðingar Péturs sem gegna virkilega sterku hlutverki í bókinni. Hverjir eru útlendingar fyrir guði? Geta sumir menn verið meiri útlendingar en aðrir? Þetta talar auðvitað beint til samtímans þar sem hryllileg stríð geysa víða um heim.

„Því Kristur fæddist og lifði í heitu landi fyrir botni Miðjarðarhafsins og hlýtur þar með að hafa verið með dekkri húð en bæði við og þeir dönsku, þeir ensku, þeir þýsku; telst Kristur þá meiri útlendingur, jafnvel sá mesti; og ef Jesús birtist hér, ásamt sínum postulum, dragandi fisk líkt og þeir gerðu í Galíleuvatni, í fullkomnu leyfisleysi konungs, myndi sýslumaður þá skrifa honum kvörtunarbréf, fullt af allskyns rykti um þeirra vondu hegðun? (bls. 299)

Þá er í raun allt gert til að afmennska Baskana sem festust hér á landi þar sem skip þeirra brotnuðu rétt fyrir utan strendur Íslands: „Tungumál þeirra minnir frekar á dýrahljóð en mannsins mál, sagði séra Reynir um þá spönsku.“ (bls. 299) Þá er magnað að hugsa til þess að það var aðeins árið 2015 sem Jónas Guðmundsson, sýslumaður á Vestfjörðum, tók þá tilskipun til baka að Baskar væru réttdræpir í þeim landshluta.

Uppgjör við mennskuna

Þetta er virkilega mögnuð skáldsaga. Hún tók mig í mikið tilfinningaferðalag, sársaukinn í lífi persónanna er áhrifamikill og sorgin sár í hjarta Péturs vegna illverkanna. Ég bjóst kannski við að í lokin myndi Pétur og viðtakandi bréfsins mætast og það myndi eiga sér stað einhversslags uppgjör, en svo var ekki. Það er eitthvað sem ég hefði viljað sjá, að sá þráður hefði verið hnýttur betur saman. En í raun var það ekki mikilvægasti þráðurinn í bókinni. Það er frekar þetta uppgjör við mennskuna, iðrunina og sannleikann. Hvernig venjulegir menn geta breyst í djöfla og framkvæmt þvílík ódæði án afleiðinga. Eins og Pétur skrifar: „Gröfum við máske sannleikann og réttlætið svo það sé hægara að lifa?“ (bls. 350)

Lestu þetta næst

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...