Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur bæði sem höfundur og ritstjóri. Bókin var fyrst gefin út í Frakklandi árið 2016 undir titlinum Mon amour. Myndhöfundurinn er Pauline Martin og bókaútgáfan Kvistur gefur hana út. Bókin er sjálfstætt framhald af Elsku litla systir. Við hjónin lásum hana oft með drengnum okkar í fyrra þegar ég var ólétt. Það er svo gaman að lesa bækur sem tala beint inn í raunveruleika barna.
Einlæg spurning
Sagan segir frá ungum dreng að nafni Ástvaldur. Hann er nýkomin komin upp í rúm þegar hann spyr móður sína hvort hún muni elska hann alla ævi. Móðirin svarar að það skipti ekki máli hvað hann taki sér fyrir hendur né hver hann verður í framtíðinni, hún muni alltaf elska hann eins og hann er. Alltaf og að eilífu.
Framsetningin á þessum mikilvægu skilaboðum er svo einlæg og falleg að ég varð örlítið meyr við lesturinn. Eins og setningin: „Ég elska þig þegar þú sérð það, og þegar þú sérð það ekki.“ Öðru megin á opnunni eru mæðginin að skemmta sér í tívolíi en hinum megin en mamman að týna upp brotinn vasa. Hún elskar samt drenginn sinn, þótt hann sjái það kannski ekki á því augnabliki. Sagan hreyfði við mér enda lýsir hún vel þeim fjölbreyttu tilfinningum sem foreldri ber til barns.
Töfrar
Takturinn í sögunni er ljúfur og myndir Pauline eru einfaldar en áhrifaríkar. Textinn er bæði stuttur og hnitmiðaður og orðaforðinn er auðveldur. Bókin hentar því vel þegar lesið er fyrir yngri börn en passar einnig fyrir börn eru sjálf að byrja að lesa.
Það eru töfrar í því hvernig textinn og myndirnar tala saman og úr verður dásamleg saga um kærleika og hlýju. Ég mæli eindregið með þessari fallegu bók í jólapakkann í ár.