Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina Plómur sem var tilnefnd til Maístjörnunnar árið 2022. Hún starfar einnig sem þýðandi, leiðbeinandi í ritlist og bókmenntagagnrýnandi. Þá er hún einnig partur af Svikaskáldum, skáldakollektífi sem hefur sent frá sér fjórar ljóðabækur og skáldsöguna Olíu. 

Kul er fyrsta skáldsaga Sunnu Dísar en hún fjallar um Unu sem rambar á barmi kulnunar. Hún hefur misst tengsl, einangrast og minnkað hringinn utan um sig, allt þar til hann þrengist eins og snara að hálsi hennar. Una fylgir ráðleggingum heimilislæknisins Sigurpáls sem sendir hana í veikindaleyfi sökum kulnunar, en hann mælir með meðferð vestur á fjörðum, sem felur í sér fimm vikna dvöl í sólarlausum firði undir handleiðslu meglómaníaksins Hákons. Hvað gæti farið úrskeiðis?

 

Svarið er: Eiginlega ekki nóg, að mínu mati. Una er sennilega á síðfertugsaldri, eða þar um bil, vinnur á auglýsingastofu og býr með frekar persónuleikalausum unnusta sem lesandi fær lítið að kynnast. Hún er uppkomið barn einstæðrar móður sem glímdi við þunglyndi og langvinnan heilsufarsbrest. Una marar í hálfu kafi, rifjar upp tiltölulega óspennandi æskutráma, vísar í hálf- og ókláruðum vísum í erfiðleika með bróður sinn, sem koma svo í ljós að eru heldur lítilvægir.

Mikilfengleg meðvirkni

Þá er Una sundurtætt af meðvirkni, og meðvirknisstjórnsemi, og horfir fordómafullum augum á allt sem fyrir ber. Það skemmtilega við bókina er að höfundarröddin er nægilega fjarlæg Unu til að lesandi viti að Una er fordómafull og léleg vinkona, systir og kærasta, en þó stendur röddin nægilega nærri henni til að útskýra hvers vegna henni finnst hún vel mega vera eins og hún er. 

En burt séð frá því er textinn feikna vel skrifaður, lýsingar eru góðar, allt orðalag vandað og það er búið að nostra við hvert orð. Persónur bókarinnar eru þó almennt óáhugaverðar, nema kannski þær sem við kynnumst minnst, og ef eitthvað meira væri varið í einhverjar þeirra þá er Una ekki stödd í meðferðarúrræði á Vestfjörðum til að komast að því. 

„Af hverju þarf alltaf einhver að horfa á mig til þess að ég viti hver ég er?“ bls 368

Hæg framvinda

Þarna er ekki nægileg hreyfing á atburðarás, hvorki í fortíð né nútíð. Um miðbik bókar varð ég fyrst smá spennt, eftir nákvæmlega 220 blaðsíður af lágstemmdri atburðarrás. Lokasprettur bókarinnar er svo mjög sterkur, en þá vindur höfundur sögunni í hring, rassskellir Unu fyrir að vera óþolandi, bendir á allt sem er að í því sem er að gerast. Sem er dásamlegt og ég er mjög fegin að ég kláraði bókina, en ég hefði þurft að komast að þessum kaþarsíska enda mun hraðar. Þá er ánægjulegt að sjá fæturna detta undan þessu dularfulla kulnunarúrræði og lesandi hlær með persónum bókarinnar að því hvernig í ósköpunum tókst að selja einhverjum þá hugmynd að besta ráðið við kulnum væri að fara í enga sól. Keisarinn er ekki bara berrassaður þar, það er búið að flá hann líka og beinagrindin rambar um orkustöðvar í fjalli á Vestfjörðum. 

Hringiða ærandi hversdagsleika

Sagan má eiga það að hún er ótrúlega raunsæ. Svo raunsæ að mér líður eins og ég gæti lifað lífi Unu, lifað alla dagana í meðferðarúrræðinu. Sem er afrek út af fyrir sig, en persónulega hefði ég þegið örlítið meiri galdra. Hún er samt vel skrifuð og sýnir bókin lesanda sem hefur ekki upplifað kulnun á eigin skinni hvernig tilfinningin er að mara í hálfu kafi, fastur í heimi sem maður hefur ekki áhuga á, fangi óspennandi atburðarrásar, svartnættis og vonleysis, vippað fram og til baka í hringiðu ærandi hversdagsleika. 

Lestu þetta næst

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...

Mjóifjörður kallar

Mjóifjörður kallar

„Ég get nú ekki sagt að ég hafi kunnað vel við mig á frumkvöðlanámskeiðinu en mér þótti gaman að...

Heillandi jóladraumar

Heillandi jóladraumar

Íslenski dansflokkurinn býður upp á Jóladrauma þessa aðventu. Um er að ræða danssýningu fyrir börn...