Upp og niður stiga

13. desember 2024

Svikaskáld

Ljóðakollektívið Svikaskáld er orðið flestum kunnt enda hafa nú fæðst fimm skáldverk frá þessari merkilegu samvinnu þeirra Fríðu Ísberg, Melkorku Ólafsdóttur, Ragnheiðar Hörpu Leifdóttur, Sunnu Dís Másdóttur, Þóru Hjörleifsdóttur og Þórdísar Helgudóttur. Allar eru þær feiknasterkir rithöfundar hver fyrir sig en samvinnan, eða samtalið, þeirra á milli býr til einstaka dýnamík sem einkennist af margræðni, kröftugum kvenleika og næmni á smáatriði hversdagsins.

Athyglisvert samstarf

Áhugavert er að hlusta á Svikaskáldin segja sjálf frá ferlinu og hvernig samstarf þeirra virkar. Þessi vitneskja gefur auka lag inn í lesturinn. Í viðtölum hafa þær sagt frá því hvernig þær hittast eina helgi eða í heilan sólahring og eiga samtal sín á milli um eigin tilfinningar, núið, samfélagið og hversdagsleikann. Út frá því samtali kviknar sköpunarkraftur og þær setjast niður og skrifa, ljóðin og textarnir sem verða til út frá þeim lotum eru síðan hluti af samtalinu og skrifast þær þannig á og stela þemum, endurtekningum og myndmáli frá hvorri annarri. Þetta skapar heild sem að er allt í senn kröftug, hrá og líka meitluð.

Ég er það sem ég sef er fjórða ljóðabók Svikaskálda og kom hún út í haustmánuðum 2024. Þemu eða meginstef bókarinnar er foreldrahlutverkið, konur, stigar, tennur, vatn, svefn, orð og baugar. Ljóðunum er skipt niður í sjö kafla en við lestur eru ekki mikil skil á milli kaflanna, öll ljóðin renna vel saman í eitt heildarverk.

Mæður, ást og líkamar

Ljóðin fjalla um alls kyns vinkla lífsins, meðal annars fjalla mörg þeirra um mæður eða nýbakaða foreldra sem eru bugaðir og þreyttir. Þetta eru ljóð sem tala vel til þeirra sem þekkja til þessarar reynslu.

vitum, að núna er ég of lin

og þú of oddhvass (76)

Mörg ljóðanna fjalla líka um ástina á skemmtilegan hátt. Til dæmis í ljóðinu Glósur er því lýst því hvernig ljóðmælandi glósar ástmann sinn:

ég féll í áfanganum en líkami minn bjó til barn

upp úr þessum glósum (11)

 

Ástinni er líka safnað í grænar plastfötur og ástin hefur róf sem dansar í takt. Það er margt og mikið að finna í þessum ljóðum og margt hægt að draga fram sérstaklega, en ég bendi kannski á undir lokin að þarna er líka fjallað á næman hátt um hvernig líkamar muna og hvernig þeir tengjast umheiminum.

Naflastrengurinn verður eftir í sturtubotninum

Eins og dauð rót við upprunann (18)

Ég er það sem ég sef er fallegt verk sem getur vel talað til lesenda á sterkan og áhrifaríkan hátt. Margar ljóðlínur í þessu verki er hægt að tyggja á endalaust og velta þeim um í munni sér og í huga, hljómfagrar, sniðugar og vel samsettar sem þær eru. Eins og alltaf er með ljóðabækur eru nokkur ljóð sem standa sérstaklega upp úr en heildin samsvarar sér vel og tónninn er eins og áður sagði bæði hrár, einlægur og glæsilega meitlaður í senn.

er þetta lífið?
já, þetta er lífið, stækkandi og minnkandi á víxl (27)

Lestu þetta næst

Valkyrjur valda óskunda

Valkyrjur valda óskunda

Þegar ég var krakki sótti ég rosalega mikið í ævintýrabækur og furðusögur. Það voru bækurnar sem...

Ljóskastari ofan í moldina

Ljóskastari ofan í moldina

Sunna Dís Másdóttir hefur um árabil starfað sem rithöfundur og gaf hún meðal annars út ljóðabókina...

Bók um ást og hlýju

Bók um ást og hlýju

Núna á dögunum kom út bókin Ástin mín eftir Astrid Desbordes. Hún býr í París þar sem hún vinnur...