Prumpulíus Brelludreki
eftir Kai Lüftner
„Hann herpir, hann herðir
og andlitið krumpar.
Hann geiflar og glennir
og með rassinum prumpar.“
Þessi stutta vísa úr myndlýstu barnabókinni um Prumpulíus brelludreka er ágætt dæmi um við hverju er að búast við lestur bókarinnar.
Prumpulíus hinn þýski
Prumpulíus brelludreki er hugarfóstur hins þýska Kai Lüftner og heitir á frummálinu Furzipups, der Knatterdrachen. Prumpulíus þessi kom inn á heimili mitt sakleysislega innpakkaður í glansandi gjafapappír, merktur nafni sonar míns. Saklaust barnið opnaði gjöfina, og reif upp bókina sjálfa og tuskudýrs-útgáfu af Prumpulíusi sem blessunarlega gefur frá sér prumpuhljóð sé hann kreistur á réttan hátt. Þá er bókin búin prumpuhnappi og hægt er að láta hana prumpa í það minnsta þrem mismunandi prumpum þegar ýtt er á hann.
Og hvað?
Í stuttu máli fjallar sagan um Prumpulíus um samnefndan dreka, sem er litríkur og fallegur og virðist ágætis persónutöfrum búinn, en býr við þá erfiðu fötlun að geta ekki spúið eldi. Lesandinn fer í ferðalag með Prumpulíusi í leit að einhverju sem hjálpar honum að verða eldspúandi, en því miður endar drekinn okkar bara á að prumpa óstjórnlega.
Er þetta skemmtilegt?
Svarið er já, þetta er besta bók sem hefur nokkru sinni verið skrifuð. Eða það finnst syni mínum sem er að nálgast þriggja ára sem og fertugum mági mínum sem valdi gjöfina handa honum. Þannig að ætla má að fólk frá 2 ára til rúmlega fertugs séu markhópurinn. Sjálfri finnst mér bókin annað hvort illa skrifuð eða illa þýdd, ég hef bara lesið þýðinguna svo ég vil ekki fara í sleggjudóma, bragfræðin ekki upp á marga fiska og umfjöllunarefnið frekar óspennandi. Að þessu sögðu er bókin alls ekki slæm efnislega séð, hún upphefur engar neikvæðar staðalmyndir og berst til að normalisera prumpið. Svo fyrst ég hef þurft að lesa bókina í það minnsta fimm sinnum á dag frá jólum sá ég ekki annað í stöðunni en að fjalla um hana. Og stóra spurningin er, skiptir í raun máli hvað mér finnst um bókina, eða væri gáfulegra að hlusta á dóm sonar míns sem talar mjög lítið miðað við aldur en getur samt sagt „Þetta er Prumpulíus“ og hlegið eins og brjálæðingur?