Famous last words kápa

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese’s Book Club í leit minni að góðri bók til að lesa. Það var fyrir tveimur árum síðan og ég rambaði inn á spennusöguna Wrong Place Wrong Time eftir breska spennusagnahöfundinn Gillian McAllister. Ég ákvað að gefa henni séns og datt aldeilis í lukkupottinn því að sú bók hefur verið ein af mínum uppáhalds síðan þá.

Ég hef því beðið í ofvæni eftir þessari nýju bók Gillian, Famous Last Words, sem kom út í lok febrúar á þessu ári.

Hook sem svíkur engan

Famous Last Words er sú níunda í röðinni hjá höfundinum en Gillian hefur náð góðum tök á þeirri list að skapa grípandi hook í sögunum sínum. Hér var engin undantekning á. Bókin fjallar um Cam sem starfar sem umboðsmaður höfunda (e. literary agent) í Lundúnum. Hún er gift Luke sem starfar sem leigupenni (e. ghostwriter). Saman eiga þau dótturina Polly sem er eins árs.

Sagan hefst á því að Cam vaknar daginn sem hún er á leið aftur til vinnu eftir fæðingarorlof. Luke er hvergi sjáanlegur en hann hefur skilið eftir torræð handskrifuð skilaboð til konu sinnar. Cam nær ekki í hann í síma þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og endar á að fara með Polly í dagvistun og svo í vinnuna án þess að vita hvert Luke hafi farið.

Þegar hún mætir á skrifstofuna fær Cam fregnir af því að maður hafi tekið þrjár manneskjur í gíslatöku í yfirgefnu vöruhúsi skammt frá skrifstofu hennar í miðborg Lundúna. Stuttu síðar mætir lögreglan inn á skrifstofuna og segir Cam að Luke  sé gíslatökumaðurinn.

Svo bregðast krosstré sem önnur tré

Bókin fer hratt af stað. Á fyrstu tveimur köflunum er lesanda hent á bólakaf í atburðarrásina og lesandi upplifir sig jafn ringlaðan og skelfingu lostinn og Cam. Sagan er sögð jöfnum höndum frá sjónarhorni Cam og Niall sem er gíslatökusamningamaður (e. hostage negotiator). Sjónarhorn Niall gefur lesanda dýpri innsýn í atburðarrásina þar sem lögreglan hefur aðrar upplýsingar undir höndum heldur en Cam sem veitir persónulegra sjónarhorn á málið.

Gíslatökunni lýkur svo á ófyrirséðan hátt sem gerði mig spennta fyrir því að lesa meira. En því miður er það þar sem mér finnst höfundi fatast flugið. Eftir hin ófyrirséðu endalok gíslatökunnar hægist verulega á atburðarrásinni. Svo verulega að ég velti vöngum yfir því hvort hægt sé að flokka bókina sem spennusögu yfir höfuð.

Stærsti hluti bókarinnar fjallar um það hvernig þessir tveir ólíku einstaklingar, Cam og Niall, takast á við afleiðingarnar sem gíslatakan hafði á líf þeirra beggja. Þau reyna bæði að eltast við vísbendingar sem gætu varpað ljósi á atburðinn en vísbendingarnar leiða ekki til neins. Mér finnst höfundur reyna verulega á þolinmæði lesenda með því að byggja upp spennu með vísbendingum sem lítið eða ekkert verður úr. Raunar snerist bókin meira um það hvernig tveir brotnir einstaklingar takast á við hræðilegan atburð heldur en um atburðinn sjálfan.

Þegar komið var að endanum var mér hreinlega farið að standa á sama, sem mögulega hafði áhrif á þá skoðun mína að mér þótti endirinn afar ósennilegur og langsóttur.

Hugmynd með mikla möguleika

Höfundur sagði sjálf að hún hefði farið á námskeið í gíslatökusamningaviðræðum fyrir þessa bók sem ég kunni vel að meta. En hreint út sagt þá komst ég í gegnum söguna einfaldlega vegna þess að ég er svo mikill aðdáandi fyrri bókar höfundar. Famous Last Words líður fyrir skort á stigmagnandi spennu og að lesandi fái þá tilfinningu að málið sé leyst smám saman.

Í ljósi starfsvettvangs Cam og Luke er mikið fjallað um bókabransann í Bretlandi í sögunni. Sem rithöfundi fannst mér það afar áhugavert en ég á erfitt með að ímynda mér að lesendur utan bókabransans hafi áhuga á svo miklu tali um þann bransa.

Hugmyndin að þessari sögu er frábær og hafði mikla möguleika. Ég hefði viljað sjá hana gerjast í kollinum á höfundinum í svolítið lengri tíma því ég held að hún hefði getið skrifað einhverja neglu ef hún hefði bara fengið smá meiri tíma til að blómstra. Stundum er gómsæt kaka einfaldlega tekin úr ofninum of snemma.

Lestu þetta næst

Ég fæðist dáin

Ég fæðist dáin

Gólem eftir Steinar Braga „Við erum öll líkön. Sjálf okkar eru líkön hýst í taugum. Efni er líkan...

Sniðugar árstíðarverur

Sniðugar árstíðarverur

Þessi bók er tileinkuð öllum þeim börnum sem alast upp við íslenskt veðurfar. Ég held að...

Í dótaheimi

Í dótaheimi

Fyrir mörgum árum síðan, í fyrndinni, las ég sjálf ljóð Þórarins Eldjárns. Þegar ég eignaðist mín...