Forrest Gump Íslands

27. mars 2025

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K. Magnússonar. Anna Dröfn Ágústsdóttir hefur á fjórum árum tekið saman og skrásett sögu Óla en hún hefur áður gefið frá sér veglegu bækurnar Reykjavík sem ekki varð og Laugavegur.

Fangaði augnablik á einstakan hátt

Óli K. var fyrsti ljósmyndari Morgunblaðsins og starfaði hann við fréttaljósmyndun í hartnær fimmtíu ár. Hann fangaði mörg merkileg augnablik Íslandssögunnar á filmu og gerði það á sinn einstaka hátt. Hann var talinn vera einkar góður í að ná augnablikum en aðferðir hans fólust meðal annars í sér að hugsa fram í tímann um hvað gæti gerst næst. Þannig náði hann allri atburðarrássinni sem gerði það einnig að verkum að hann gat fangað hið fullkomna augnablik. 

Fyrst lífshlaupið með sögulegu ívafi

Í upphafi bókar er farið vel yfir lífshlaup Óla K. með sérstakri áherslu á störf hans sem ljósmyndari og áhuga hans á flugi og flugvélum. Óli lærði ljósmyndun í New York árið 1944 til 1945 og eftir stríðsárin breyttist fjölmiðlaumhverfið á Íslandi og skapaðist þá mikil atvinna þegar fólk átti meira efni á að kaupa dagblöð. Óli byrjaði í lausamennsku á blaðinu en var síðan á síðustu starfsárunum farinn að stýra stórri ljósmyndadeild blaðsins.

 Lipur og létt frásögn

Frásögnin er lipur og létt og Anna segir skemmtilega frá ævi Óla með sagnfræðilegum gleraugum og með einstaka stoppi við áhugaverðar tengingar. Bréfaskiptum milli einstaklinga er fléttað inn svo úr verður að sagan lifnar enn frekar við. Þarna er ekki hægt að tala um þurra uppröðun atburða en Anna Dröfn nýtir sér áhugaverðar persónur og augnablik í sögu Íslands til að auðga frásögnina. Þarna er sögð saga eins manns sem á sama tíma endurspeglar stærri sögu Íslendinga og Íslands í heild sinni.

óli k.

Fjölbreyttar myndir

Vegna starfs síns var Óli viðstaddur nánast alla sögulega atburði á Íslandi á þessu tímabili og mætti jafnvel tala um að hann hafi verið eins og Forrest Gump að því leyti. Hann var nefninlega alltaf á vaktinni. Seinni hluti bókarinnar sýnir úrval af áhugaverðum ljósmyndum Óla frá ferlinum. Þar eru margar einkum skemmtilegar myndir og vil ég helst nefna myndir á borð við Kjarval að teikna í baksætinu á leigubíl frá 1963, börn að leik á Arnarhóli árið 1948, en þar hefur Óli náð að fanga andann fullkomlega og leikgleðin skín í gegn, að auki er mynd af tveimur drengjum að veiða hornsíli í Reykjavíkurtjörn afar skemmtileg og svo má ekki gleyma myndinni af simpansanum Johnny að reykja í Austurbæjarbíói sem er afar kostuleg – og þá ekki einungis vegna myndefnisins. Líklegt er að allir geti fundið sínar uppáhalds myndir og jafn líklegt er að þær verði mismunandi hjá hverjum einstakling fyrir sig. Portrett-myndirnar  eru líka virkilega góðar og sést vel hversu vel viðfangsefnin hafa treyst ljósmyndaranum, en við sem horfum á upplifum mikla nálægð í þeim.

 

Við erum afar heppin að eiga svona faglegar og fallegar myndir sem heimildir um okkar sögu. Bókin Óli K. er falleg og vönduð bók sem gaman er að fletta í gegnum og lesa. Ég get trúað því að það hafi verið erfitt að velja myndirnar sem rötuðu í bókina en úrvalið er gott og fjölbreytt. Það sýnir ekki einungis færni Óla heldur einnig ýmsar hliðar mannlífsins og samfélagsgerð hvers tíma. Bókin er eiguleg og sómir sér einkar vel í hillu – þó mikilvægast sé auðvitað innihaldið.

Lestu þetta næst

Hratt, hratt…hægt

Hratt, hratt…hægt

Mér er það afar minnisstætt þegar ég fletti fyrst í gegnum Reese's Book Club í leit minni að góðri...

Ég er ofurhetja

Ég er ofurhetja

Kapteinn Frábær í Tjarnarbíó. Kapteinn Frábær er engin venjuleg hetja. Eða er hann kannski allra...

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...

Dásamlega upplífgandi

Dásamlega upplífgandi

Á dögunum var ég í leit að góðri ástarsögu, the Guardian var með fínustu samantekt þar sem...