Djúp vinátta og hrollvekjandi atburðir

1. apríl 2025

Gestir_kapa

Á síðustu árum hefur Hildur Knútsdóttir sent frá sér hrollvekjandi nóvellur en nýjasta bók hennar, Gestir, bætist í flokk með fyrri nóvelluverkum hennar: Myrkrið á milli stjarnanna, Urðarhvarfi og Möndlu. Eins og í fyrri bókum hennar tekst Hildur á við myrk og ógnvekjandi viðfangsefni, en ávallt með sterkri sögufléttu og áhrifamikilli persónusköpun. Undirrituð varð ferlega spennt þegar ég sá tilkynningu um að ný hrollvekja væri á leiðinni frá Hildi. Það er reyndar sérstakt því það eru bækur sem ég les ekki oft. Ég vel þær vandlega en mögulega hjálpar eitthvað að í þessum bókum Hildar koma kettir alltaf við sögu. Veit ekki. Mögulega. 

Í Gestum kynnumst við Unni, metnaðarfullum viðskiptafræðingi sem lifir skipulögðu og regluföstu lífi. Hún á í ástarsambandi og virðist við fyrstu sýn hafa fullkomna stjórn á tilveru sinni. Dag einn fer ókunnug læða að venja komur sínar heim til hennar og er hún alveg með á hreinu um hvernig er best að leysa það mál. Ásta, eigandi kattarins, birtist á tröppum Unnar með ferðabúr og fer með kisu heim. En daginn eftir snýr læðan Edit aftur – og fæðir agnarsmáan kettling í rúmi Unnar. Í kjölfarið þróast einlæg vinátta á milli Unnar og Ástu sem kynnast smám saman áfölllum og leyndarmálum sem þær hafa hingað til haldið fyrir sig. Þegar ógn steðjar svo að þeim neyðast þær til að standa saman og framkvæma óhugnanlega hluti sem fáum hefði dottið í hug að gera. 

Marglaga vinátta og spenna

Þetta hér að ofan er um það bil það sem stendur aftan á bókinni og fékk mig strax til að vilja lesa hana. Það og að ég hef lesið fyrri hrollvekju-nóvellur Hildar. Ég man til dæmis hvar ég var þegar ég las Myrkrið milli stjarnanna. Ég hafði engar sérstakar væntingar til þeirrar bókar en ég las hana í einum rykk því hún var það spennandi, ekki bara því hún var stutt. Það sama gilti svo um þessa bók, Gesti

Bókin verður strax grípandi en það byggist ekki aðeins á einhverri yfirvofandi ógn, heldur einnig á hinni marglaga persónusköpun hennar. Unnur virðist á yfirborðinu vera öguð og sjálfstæð, en einkalíf hennar segir aðra sögu. Hún á í leynilegu sambandi við giftan mann og heldur fast í þá hugmynd að þetta skipulag henti henni. Ásta, ung og glæsileg, er í sambúð með manni sem hún lýsir sem einstökum – en er hann það í raun? Þrátt fyrir augljósan mun á persónuleika þeirra deila þær sameiginlegri reynslu af samböndum sem eru ekki eins heilbrigð og þær vilja láta í veðri vaka.

Ógeðfellt en fallegt

Hildur tekst svo snilldarlega á við togstreituna í samböndum þeirra og speglunina milli þeirra tveggja, sem veitir frásögninni aukna dýpt. Þrátt fyrir að Gestir sé stutt bók, tekst höfundi að byggja upp sterka spennu og hrollvekjandi stemningu sem heldur lesandanum föngnum. Það er ekki ofsögum sagt að sum atriði bókarinnar vekji hroll – sum jafnvel svo ógeðfelld að lesandinn grípur ósjálfrátt andann á lofti eða þið vitið, ég sagði Ojá einum tímapunkti. 

Eins og með fyrri bækur Hildar var ómögulegt að leggja bókina frá sér; ég las hana í einum rykk, ekki bara vegna þess hversu spennandi og ógeðfelld hún var, heldur vegna þess hve áhrifarík hún var. Þetta er ein af þessum bókum sem festist í huga manns löngu eftir að síðasta síðan er lesin sem er sjaldgæft við bækur af þessum toga. Hún lætur mann hugsa um áföll, vináttu, ástarsambönd og hvernig við réttlætum hluti fyrir okkur sjálfum. Að mínu mati styrkir Hildur stöðu sína sem einn af okkar áhugaverðastu hrollvekjuhöfundum og sýnir að ógn og hryllingur geta verið jafn áhrifarík í hversdagslegu samhengi og í yfirnáttúrulegum sögusviðum.

Lestu þetta næst

Óskar er einhverfur

Óskar er einhverfur

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir Hvernig myndi þér líða ef...

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...