Óskar er einhverfur

2. apríl 2025

Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttir

Hvernig myndi þér líða ef bróðir þinn fengi sérstakan mat á kvöldin en þú þyrftir að borða þennan venjulega? Hvað ef bróðir þinn tjáði sig kannski á annan hátt en flestir eiga að venjast? En ef hann ætti erfitt með nýjar aðstæður og þess vegna þyrftu mamma og pabbi stundum að setja hann í forgang?

Þessum spurningum er svarað í barnabókinni Óskar elskar lestir: Bróðir minn er einhverfur eftir Ernu Sigurðardóttur, sem kemur út hjá Bókafélaginu BF, sem hefur gefið út marga þekkta höfunda í íslenskri þýðingu, eins og David Walliams og bækur um ofurgrísinn Gurru og fjölskyldu. 

 

Í bókinni um Óskar og systur hans kynnumst við fjölskyldumynstri sem er aðeins öðruvísi en fólk kannski ímyndar sér að gildi hjá kjarnafjölskyldu í Íslandi, þar sem einhverfugreining Óskars hefur áhrif á hvernig uppeldi hann fær og hvernig það hefur áhrif  á fjölskylduna í heild. Í bókinni er útskýrt hvers vegna Óskar kann að meta suma hluti og á erfitt með aðra, en bókin er skrifuð með aðstandendur einhverfra barna í huga.

Sögumaður bókarinnar er systir Óskars, Eva, sem skilur ekki alltaf hvers vegna hlutirnir eru eins og þeir eru, en þegar upp er staðið elskar hún bróður sinn og fjölskyldu og veit að ástin er gagnkvæm. Til að leggjast í rannsóknarvinnu skoðaði ég orð höfundar um bókina sína, og var hrifin af því sem hún birti í Facebook færslu, en hún skrifar að hún hafi fengið þá hugmynd að skrifa barnabók um einhverfu vegna þess hve lítið af slíkum bókum hún fann á íslensku. Svo skrifar hún: „En þar sem einhverfurófið er stórt og ég á margt eftir að læra þá ákvað ég að deila okkar sögu og hvernig einhverfan hefur haft áhrif á okkar fjölskyldulíf.“

Mér finnst þetta virkilega fallegt hjá höfundi, að vilja auka fjölbreytnina í íslensku barnabókaflórunni og það hvernig hún nefnir að þetta sé bara ein einhverfusaga af mörgum finnst mér dýrmætt. Þá getur fólk séð að margt fleira er að læra og kynna sér, og finnur jafnvel hvatningu til að skrifa fleiri sögur. 

 

Þó bókin sé sniðin sérstaklega að þessari fjölskyldu og einhverfunni sem Óskar er með, þá er hún sennilega gagnleg fleirum en bara þeim sem þekkja Óskar. Þó að einhverfa sé alls konar að þá er vissulega hægt að læra meira um til dæmis erfiðleika með breytingar og skapsveiflur sem þeim fylgja hjá sumum einhverfum börnum. Þá er samt alltaf mikilvægt að muna að einhverfa er alls konar, og birtist í mörgum, ólíkum myndum.

 

Lestu þetta næst

Forrest Gump Íslands

Forrest Gump Íslands

Óli K. er fagurlega gerð ljósmyndabók með ævisögulegu ívafi um líf og störf ljósmyndarans Ólafs K....

Marglaga og mannlegur Laddi

Marglaga og mannlegur Laddi

Ég var mjög óviss þegar ég sá fyrstu auglýsingar birtast fyrir nýja sýningu um líf og störf Ladda...