
Það er sjaldgæft – og svolítið sérstakt – að grípa íslenska skáldsögu sem tekur sér fyrir hendur sígilt stef úr erlendum ástarsögum og klæðir það í íslenskan búning. En það gerir Sæunn Gísladóttir í sinni fyrstu skáldsögu, Kúnstpásu, sem kom út hjá bókaútgáfunni Sölku nú í mars. Og útkoman? Já, hún er bæði heillandi og einlæg.
Sögusviðið er kunnuglegt öllum þeim sem lesið hafa enskar eða amerískar skáldsögur um konur sem standa á krossgötum í lífi sínu, flytja í smábæ, endurmeta lífið og finna sér nýjan takt – og gjarnan nýja ást. Þetta er klassískt form sem hefur slegið í gegn í erlendum ástarsögum en á sér fá dæmi í íslenskum samtímabókmenntum. Þess vegna vekur það sérstaka athygli að sjá slíkt verk spretta upp hér heima.
Sóley, aðalpersóna bókarinnar, er ung og metnaðarfullur hljómsveitarstjóri sem hefur búið og starfað í Leipzig. Þegar heimsfaraldurinn skekur heiminn og allt fer í lás, neyðist hún til að snúa aftur heim til Íslands. Þar tekur hún að sér að reka bókabúð afa síns í litlum bæ úti á landi. Hún fer úr erilsömu tónlistarlífi þar sem hún er að byrja að marka sér spor yfir í einangraðri og rólegri tilveru og í þeim umbreytingum verður til saga um konu að takast á við nýjan veruleika en á sama tíma í leit að sjálfri sér. Samhliða sögunni af Sóleyju fléttast svo inn í bókina líf Sigríðar, ungrar ekkju sem flutti í sama bæ á miðri tuttugustu öld og stofnaði þar verslun. Saga hennar er sögð með einföldum hætti, en samt með mikilli skírskotun til þess hvernig konur á þeim tíma þurftu að berjast fyrir sínu sjálfstæði og virðingu í samfélagi sem oft var íhaldssamt og þröngsýnt.
Hugrekki og sjálfskoðun
Þótt persónurnar séu frá sitthvorum tíma eru þær í sömu stöðu og með svipaða þörf: að endurhugsa líf sitt eftir áföll og velja sér nýja stefnu. Báðar eru þær í ákveðinni enduruppbyggingu en þó ekki með einhverjum gífurlegum látum heldur með rólegum og raunverulegum breytingum sem kalla á hugrekki, sjálfskoðun og hæfileikann til að tengjast sjálfum sér og öðrum.
Það sem stendur upp úr í bókinni er hvernig Sæunn nálgast þessar persónur af virðingu og næmni. Hún dregur upp trúverðuga mynd af bæði samtíma og fortíð, og tekst að smíða sögur beggja kvenna sem tala saman án þess að það sé þvingað. Það er heldur engin tilgerð í lýsingum hennar eða tilfinningum persónanna, þær eru jarðbundnar og mannlegar sem gerir bókina góða.
Kúnstpása fer ekki nýjar slóðir í sjálfu sér en hún færir kunnuglegt form inn í íslenskt samhengi og gerir það af einlægni. Það er gaman að sjá íslenskan höfund taka þekkt bókmenntastef og spyrja: „Hvernig myndi þetta líta út hér?“ Útkoman er hlý saga um breytingar, ást og það hvernig við höfum alltaf val – jafnvel þegar við höldum að allar dyr séu lokaðar. Þeir sem kunna að meta sögur um nýtt upphaf, að finna ró í óvæntum veruleika og að sjá hvernig gamlar sögur og nýjar geta talað saman ættu hiklaust að gefa Kúnstpásu tækifæri. Hún er yndisleg.