Rithöfundurinn, ljóð- og leikskáldið Soffía Bjarnadóttir hefur sent frá sér bókina Áður en ég brjálast, en verkið var gefið út hjá Króníku fyrr á árinu. Þetta er áttunda verk Soffíu sem gefið er út eða sett á svið, en það fyrsta sem ég les eftir hana.
Hvers vegna hef ég ekki lesið fleiri? Það má guð vita, en ég komst fljótt að því að á því mun ég gera bót á næstu misserum. En hvers vegna?
„Sárið sem býr í okkur öllum er bæði sammannlegt og einstaklingsbundið.“ (bls. 80)
Minningar eru samofnar skáldskap
Jú, Áður en ég brjálast: Játningar á miðjunni, eins og verkið heitir fullu nafni, er ein besta bók sem ég hef lesið. Soffía vefur saman eigið líf og skáldskapinn og semur það sem mætti jafnvel kalla skáldævisögu, en hún talar um móðurhlutverkið, sköpunarferlið og frumkraft listarinnar sem í henni býr, um ástir og örlög og sammannlegar tilfinningar allt frá fornum grískum sögum til okkar daga. Hjarta bókarinnar slær sterkt og vonmikið, hjarta sögumanns, hjarta Soffíu sjálfrar, og dælir lífi um hvert orð bókarinnar, gefur setningunum vængi til að stækka og breiða úr sér, taka yfir huga lesanda, sækja á hann.
Þegar ég les bækur sem ég hef í huga að rýna á ég það til að hripa hjá mér setningar sem mér finnst sérlega fallegar, sterkar eða lýsandi úr bókinni til að nota sem titil á umfjölluninni eða sem tilvitnanir til að krydda dóminn með. Ég braut upp á næstum allar blaðsíðurnar í Áður en ég brjálast, því þar var ekki þverfótað fyrir einhverju djúpu, gáfulegu, sterku, einhverju sem talaði til mín og mannfólksins í heild.
Sigurður Pálsson og Patti Smith
„Legg viðkvæma orku í skrif og vel verkefni af nærgætni sem næra silkivefnað og sálarlíf. Þetta er mín veikbyggða tilraun til að rétta skekkju frá feðraveldi margra kynslóða: að fylgja mínu dharma, fást við ímyndunaraflið, skrifa skáldskap og fljúga um á bláum hesti þegar hann kallar… Með þessu athæfi gæti ég verið að dæma sjálfa mig til áframhaldandi fátæktar, frá fæðingu til leigumarkaðar, frá leigumarkaði til dauða. En þetta er mín líflína, leið til að komast af: Að skrifa.“ (bls. 182)
Þrátt fyrir að bókin segi frá lífshlaupi aðalpersónunnar, konu sem er komin yfir miðjan aldur, er hún ekki línuleg frásögn. Það tel ég að geri bókinni mikinn greiða, því höfundur dettur ekki í gildru skrásetjarans að fara að þylja upp nöfn, staði og atburði með nákvæmum ártölum sem skipta ekki máli í hinu stóra samhengi. Þá nær höfundur góðu valdi á að lýsa upplifun af stað og stöðum, á hátt sem minnir mig á Sigurð Pálsson í endurminningabókum sínum og ljóðum, sem og hvernig Patti Smith skrifar á draumkenndan hátt um listina sem knýr hana áfram, hvernig þetta frumöskur skapandi einstaklinga þarf að komast út, þarf að láta á sig hlýða. Skrif höufndar um fátækt og skömm sem henni fylgir, um það að vera einstætt foreldri og stöðu þeirra í samfélaginu er einnig sérlega fallegt og mikilvægt, þráður skammar sem vefur sig um fólk sem lifir í fátækt er tekinn og úr honum greitt, fátæktin spurð hvers vegna maðurinn skammist sín fyrir hana, en ekki fyrir ofurríkidæmi.
Þegar jörðin þín gliðnar og þú leysist upp
Bókin er ekki löng en í henni búa margir heimar. Það er saga móður uppkominna barna, saga hinseginleika og gagnkynhneigðs samþykkis, lærdómi og dýpkun visku. Saga fyrirgefningu, mistaka og marglaga breyskleika. Saga af ungri móður, af einstæðri móður, af vinnandi móður, af móður sem er líka kona, er líka manneskja, er líka höfundur. Einnig er á síðum bókar saga ástkonu og meðreiðarsveina (orð sem ég lærði í bókinni og finnst skemmtilegt), konu í ástarsorg, í vonleysi, í þunglyndisköstum og lægðum, í gleði og hamingju, nautn og vináttu, í tengslum við fornmæður sínar og framtíð allt í senn.
Þá er sagan ekki síður saga umbreytinga, þeirra mörgu og endalausu endurskapanna sem við verðum fyrir á lífsleið okkar, og því lengri sem hún er því oftar ummyndumst við og breytumst í eitthvað nýtt og í eitthvað gamalt. Sagan er saga áfalla, saga ættartráma, stolts, kúgunar og ofbeldis. Í henni eru allir gerendur og allir þolendur, allt frá öróvi alda og til dagsins í dag, inn í ókomna tíð og að eilífu. Sagan er öskur máttvana lungna inn í ógeðslegan heim, en um leið faðmlag um alla ástina sem er til í okkur öllum.
Ég mæli hiklaust með bókinni fyrir alla, og sérstaklega listafólk, fyrir foreldra, fyrir þá sem eru leitandi og þá sem hafa fundið samastað um sinn.






