Það fallegasta sem til er

31. júlí 2025

Bjarni Snæbjörnsson fæddist 1978 og ólst upp á Tálknafirði. Þrátt fyrir að hafa notið barnæskunnar í ró fjarðarins fór líf Bjarna að flækjast þegar unglingsárin hófust og hann fór að átta sig á samkynhneigð sinni.

Í Mennsku skrifar Bjarni söguna af lífi sínu, af hinseginleikanum og þeirri hamingju og erfiðleikum sem fylgja því að vera hinsegin í heterónormatívu samfélagi, auk þess sem hann fléttar listilega inn fræði um öðrun og útskúfun hinsegin fólks í menningarlegu samhengi.

 

Öfuguggar, kynvillingar og HIV

Bjarna skorti sárlega hinsegin fyrirmyndir sem barn og ungmenni, en það fáa hinsegin fólk sem var í fréttum var tengt HIV smitum, kynvillu og dauða. Þá var Bjarni snemma meðvitaður um að samkynhneigð hans væri röng, jafn meðvitaður og hann var um að hún væri sönn. Enginn sagði Bjarna hvað samkynhneigð væri, en hann vissi frá því snemma á kynþroska að hann laðaðist að karlmönnum. Olli þetta honum miklu hugarangri allt þar til hann kom hægt og bítandi út úr skápnum í kringum 2000. Á árunum sem fylgdu gerði Bjarni ráð fyrir að hann væri kominn yfir erfiðasta hjallann og lifði lífi sínu sem hommi. En þegar Bjarni fór að lesa ítarlegar dagbækur sem hann hélt á unglingsárum og þegar hann var að koma út kom honum á óvart að finna þungan þráð vanlíðunar og sjálfshaturs sem óf sig gegn um líf hans og fylgdi honum enn þegar hann var kominn á fimmtugsaldur.

Sjálf

Það sem Bjarni fann út á lestri á gömlum dagbókum, og vinnslu við sjálfsævisögulega söngleikinn Góðan daginn faggi, er að hann var uppfullur af sjálfshatri vegna eigin hinseginleika. Það kom honum á óvart því í minningunni fannst honum að líf hans hefði gengið eins smurt og hægt var fyrir samkynhneigðan mann – hann var menntaður leikari, átti gott samband við foreldra sína og bræður, átti maka, var með öruggar tekjur. Hann var í mestu forréttindastöðu sem hinsegin aðili getur verið í, en hvers vegna hataði hann þá sjálfan sig? Svarið við spurningunni fann hann í því að skoða samfélagið þar sem gagnkynhneigðarhyggja er allsráðandi og það að vera hommi er alltaf álitið öðruvísi, sem afbrigði við normið, en ekki sem eðlilegan part af mannlegri tilvist. Að skoða fortíð sína og allt smáreitið og hatrið sem Bjarni hefur orðið fyrir opnaði fyrir honum sýn á hversu miklu mótlæti hann hefur mætt, en á sama tíma verið sagt að hann sé að ímynda sér. Honum er neitað um eigin upplifanir, sagt að hann hafi það svo gott. 

Leiklistaheimurinn útilokandi

Eitt af því sem er sérstakelga áhugavert við Mennsku er að í henni fjallar Bjarni um feril sinn sem leikari á Íslandi, og hversu útilokandi leikhúsheimurinn hefur reynst honum. Þrátt fyrir að útskrifast úr LHÍ var Bjarna ítrekað sagt að passa það hvernig hann kom fyrir. Honum var sagt að einbeita sér að því að vera karlmannlegur, að láta það ekki sjást að hann væri hommi, því það myndi gera honum erfiðara fyrir að fá vinnu. Varð það svo raunin þegar út á vinnumarkaðinn var komið, því oftar en einu sinni var Bjarna sagt að leika meira straight til að fá hlutverk. Áhugavert er þegar hann skoðar birtingarmyndir samkynhneigðra manna í íslensku efni og hver fær að leika hinsegin hlutverk og hver ekki – og tekur áhugavert dæmi um hinseginleika sem punchline í gamanmyndinni Leynilöggu. Hann skrifar:

„Það er sorglegt og erfitt að upplifa að mennska mín og ástin sem ég ber til kærasta míns og annarra ástmanna gegnum tíðina séu smættaðar niður í aðhlátursefni í höndum gagnkynhneigðra manna. Að einlægir kossar okkar og kynlíf sé gert að yfirborðskenndum brandara sem vekur hlátur.“ (Bls. 163)

Þegar litið er til hver fær að leika homma og hver ekki er í þessu samhengi áhugavert að Bjarni fær sjálfur ekki að leika mörg hlutverk vegna þess að hann er séður sem hommi, en frægir gagnkynhneigðir leikarar, sem eru jafnvel þekktir fyrir að niðra konur, fái að leika homma án þess að athugasemd sé gerð við það. Bjarni segir um möguleikann á að skapa meira inngildandi list á Íslandi með aðkomu hinsegin listafólks:

„Þegar hinseginleikinn er svona stór hluti af söguþræðinum þá hefði hinsegin manneskja þurft að koma að sköpunarteyminu frá upphafi. […]Við verðum að hafa vald yfir því hvernig sögur eru sagðar um reynsluheim okkar. Við verðum að vinna saman, vera a.m.k eitt af höfundum, leikari eða leikstjóri og vinna saman, þvert á kynhneigðir og kynvitund. Samtalið mun koma okkur langt. Eins og staðan er núna er hlutverkum og dagskrárvaldinu mjög misskipt. Valdið er í dag í höndum sís og gagnkynhneigðs fólks.“ (Bls. 164)

Þarfur fróðleikur og ákall

Ég mæli hiklaust með Mennsku fyrir hvern einasta lesanda sem vettlingi getur valdið. Fyrir hinsegin lesendur er dásamlegt að finna sýnileika og heyra Bjarna koma í orð þeirri margþættu mismunun sem við verðum fyrir. Fyrir straight fólkið okkar er mikilvægt að fá innsýn í þennan heim sem er þeim hulinn, að átta sig á því hversu mjög útilokandi heterónormatívt samfélag er í raun. Þá er bókin falleg tímavél aftur til aldamótanna, með skemmtilegu slangri frá 2000, unglingastælum, djammi og gelgju, ferðalögum og þrá, full af spennandi persónum, margbreytileika, fegurð og mennsku.

Fyrir áhugasama kemur Mennska út á Storytel 2. ágúst í lestri höfundar.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...