Fantagóð finnsk framhaldssaga

12. ágúst 2025

ljósbrot

Á síðasta ári kom fyrsta glæpasaga finnska höfundarins Satu Rämö, Hildur, loksins út í íslenskri þýðingu. Rämö hefur undanfarin árin skrifað glæpasagnaflokk um hina íslensku Hildi sem gerist á Ísafirði (þar sem höfundurinn býr) en fram að því höfðu íslenskir lesendur ekki getað notið þessara verka sem fengu góða bókadóma og seldust í bílförmum víða um heim.

Mikil gleði var að fá þýðingu Erlu Elíasdóttur Völudóttur af þessari fínustu frumraun, finnsk-íslenskri blöndu sem einfaldlega virkaði, og við hófst bið lesenda eftir næstu bókinni í flokknum. Sem betur fer þurftu lesendur ekki að bíða of lengi, nú ári síðar er bókin komin út.

Rósa og Björk varpar frekara ljósi á flókna fjölskyldusögu Hildar og býður lesandanum með í að leysa enn eitt morðið á Vestfjörðum – það er eins gott að þetta haldi ekki lengi svona áfram, rétt eins og á Siglufirði Ragnars Jónassonar verða þá engir eftir á Ísafirði Satu Rämö!

 

 

 

Tæplega þrjátíu ára mannshvörf og morð á hötuðu manni 

Rósa og Björk er beint framhald af bókinni Hildur, það er því betra fyrir lestrarupplifunina að hafa lesið fyrri bókina og þekkja persónurnar betur, en engu að síður er höfundurinn dugleg að rifja upp atburði síðustu bókar (án þess þó að of mikið sé) þannig að það er hægt að lesa þessa bók sjálfstætt. Bókin gerist í kringum þann tíma sem Covid-19 faraldurinn skellur á árið 2020. Hildur er lögreglukonu á fertugsaldri sem býr ein á Ísafirði og sinnir þar rannsóknum. Í upphafi þessarar bókar er hún hins vegar stödd í afleysingu í Reykjavík en þar klárar hún ekki dvöl sína því áhrifamikill sveitarstjórnarmaður er skotinn til bana á gönguskíðasvæðinu á Ísafirði og því þarf hún að halda heim til að leysa málið. Hildur er að kljást við áfall en í síðustu bók var vinur hennar Freysi, sem hún átti í ástarsambandi við, myrtur. Hildur er því miður vön að missa fólkið í kringum sig en tólf ára gömul, árið 1994, hurfu yngri systur hennar sporlaust, Rósa og Björk, og stuttu síðar létust foreldrar hennar í bílslysi. 

Hildur, sem er haldin skyggnigáfu sem hún erfði frá formæðrum sínum, finnur á sér að ekki er allt með felldu varðandi flugslys sem átti sér stað í Reykjavík. Ætli málin tvö séu tengd? Hún og Jakob, finnski starfsneminn sem kynntur var til sögunnar í fyrstu bók, hjálpast að við að leysa morðið á sveitarstjórnarmanninum sem átti óvini hægri vinstri og var þekktur fyrir að nýta völd sín fyrir eigin hagsmuni. Jakob prjónar til að róa taugarnar og eflist sem lögreglumaður í þessari sögu, en sjálfur er hann að takast á við tálmun og saknar sonar síns   sem býr í Noregi afar sárt.

 

Óvæntar vendingar

Rósa og Björk er eins og bestu glæpasögurnar; bæði grípandi og spennandi og nánast er hægt að lesa bókina í einni setu. Hildur endaði á mjög spennandi nótum varðandi hvarf systranna í fyrri bók og því var ég spennt að fá þessa bók í hendurnar þar sem titillinn gaf til kynna að loks kæmi niðurstaða í hvarfið. Ég var ekki svikin í þeim efnum og fannst sá hluti sögunnar sérstaklega spennandi og óvæntur. Aftur á móti fannst mér morðið á sveitarstjórnarmanninum ekki jafn spennandi, undir lok bókarinnar var bara einn mögulegur morðingi kominn fram og ekki jafn mikið af misvísandi vísbendingum og gjarnan er að finna í glæpasögum.

Aðalpersónurnar Hildur og Jakob dýpka í bókinni og dýnamíkin þeirra á milli er mjög góð og það er hressandi að ekki séu ástartilfinningar þeirra á milli heldur bara djúpur og góður vinskapur. Ísafjörður leikur áfram stórt hlutverk í bókaflokknum en meira púðri var varið í söguna en sögusviðið í þetta sinn, enda búið að byggja það vel upp í fyrstu bókinni. Rétt eins og í fyrstu bók bókaflokksins eru gefnar talsverðar upplýsingar um Ísland og hvernig réttarkerfið og annað virkar hér á landi. Þetta er líklega mjög gagnlegt fyrir finnska lesendur en rétt eins og í tilfelli Hildar hefði mátt skera aðeins niður af þessum upplýsingum í íslensku útgáfunni. Engu að síður er hér um frábæran glæpasagnaflokk að ræða sem er góð viðbót í íslensku flóruna og efast ég ekki um að lesendur bíði spenntir eftir þýðingu næstu bókar í flokknum.

 

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...