Sýnileiki í risalandi

29. september 2025

Birna Daníelsdóttir bar sigur úr býtum fyrir bókina Ég bý í risalandi í samkeppninni Sólfaxa – Íslensku barnabókaverðlaunin, þar sem veitt eru verðlaun fyrir myndríka barnabók. Bók Birnu er bæði falleg og virkilega frumleg, en hún segir frá ævintýrum einstaklings sem er ekki hár í loftinu.

 

Risaland

Aðalpersóna bókarinnar er lítil manneskja með svart, krullað hár greitt aftur í tveimur tíkóum. Hún er klædd í stuttbuxur og peysu með litlum skyrtukraga, í sokkum og skóm. Litla manneskjan talar við lesanda í fyrstu persónu svo ekki er tekið fram hvað hún heitir eða af hvaða kyni hún er. Ljóst er þó að hún er barn, þessi litla vera, og hún segir lesendum frá ævintýrum sínum og ógöngum í risalandi – heimi sem virðist vera skapaður fyrir einhvern sem er stærri en hún er sjálf.

Sjálf

Sem almennilegur gagnrýnandi réði ég barn til að hjálpa við að rýna barnabók. Sonur minn, hann Amo, fékkst til að lesa bókina með mér. Hann er þriggja og hálfs árs og hefur síðasta árið tilkynnt öllum sem heyra vilja að hvert einasta svarta barn sem hann sér á myndum sé Amo, burt séð frá því hvort barnið sé líkt honum á nokkurn hátt eða ekki. „Þetta Amo,“ tilkynnti hann mér þegar hann fékk bókina um risaland í hendurnar. Við lásum hana saman og hann var mjög hrifinn. Blaðsíðan þar sem litla aðalpersónan telur upp fjársjóðina sína var í miklu uppáhaldi, en hann var ánægðastur með að þarna hafi verið skrifuð bók um Amo sérstaklega. Nú heitir Ég bý í risalandi „Amobókin“ og Amo finnst mjög gaman að sýna mér og fleirum hvað Amo í bókinni er að gera. Nú veit ég ekki hvort sonur minn er svona sjálfhverfur eða hvort það geti verið að birtingarmyndir skipti máli, en litla svarta barnið mitt er ósköp ánægt að fá íslenska barnabók sem endurspeglar hans útlit og veruleika.

Meira frá Birnu Daníelsdóttur, takk

Án þess að vera með frekju þá finnst mér Birna tilvalin kandídát í að halda áfram útgáfu myndríkra barnabóka. Textinn hennar er léttur og skemmtilegur, það er leikandi húmor í hverri línu og bæði börn og fullorðnir hafa gaman af. Þá eru myndirnar rosalega einstakar og fallegar, þær ná að fanga þessa barnslegu kæti og leikgleði en um leið eru þær virkilega vel heppnuð listaverk. Þá er brot bókarinnar mjög hentugt fyrir litlar hendur, og gripurinn er sérlega eigulegur og vandaður. Lykillinn að tungumálinu okkar, menningunni okkar og hjörtum litlu barnanna okkar er í gegnum vandaðar, fallegar og litríkar barnabækur sem vekja gleði og spennu. Meira svona.

Lestu þetta næst

Off the Grið

Off the Grið

Aftenging er fyrsta bók lögfræðingsins Árna Helgasonar og kom út hjá Bjarti á dögunum. ...

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...