Nýr höfundur hefur stigið fram á sviðið, Nína Ólafsdóttir er líffræðingur að mennt og hefur lagt áherslu á vatna- og sjávarvistfræði. Í fyrstu skáldsögu hennar, Þú sem ert á jörðu, spilar náttúran meginhlutverk í örlagasögu Arnaq, ungrar konu sem reynir að hafa það af einsömul á hjara veraldar.
Verkið hlaut Nýtræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta árið 2022 og við lestur sést að hér hefur verið nostrað ástúðlega við textann í sköpunarferlinu sem hefur greinilega tekið þónokkur ár.
Heimur hamfarahlýnunar
Sögusviðið er mikilfenglegt. Í upphafi bókarinnar hýrast Arnaq og sleðahundurinn hennar í ísköldu landslagi, út frá nafni hennar dettur manni í hug að sagan eigi að gerast á Grænlandi en landið er aldrei nefnt á nafn. Nafn hennar er þó svolítið dularfullt þar sem Arnaq þýðir kona á grænlensku og oft er talað um hana sem „manneskjuna“. Mögulega er nafnið frekar táknrænt en raunverulegt nafn. Hundurinn er hennar eini félagi og fær lesandinn að skyggnast inn í fortíð Arnaq í gegnum minningarglefsur sem varpa ljósi á harða lífsbaráttu fjölskyldu hennar áður en hún missti allt og alla.
Það sem kom mér mest á óvart er að Arnaq ferðast einsömul ásamt hundinum mest alla bókina og mér leiddist þó ekki eina einustu sekúndu. Textinn sogaði mig gjörsamlega inn í sig, eins og einhver galdur byggi að baki. Skrifin eru virkilega vönduð, frásögnin er svo tær og ljóðræn á köflum að maður undrar sig á því að þetta sé fyrsta skáldsaga höfundar.
Maður í útrýmingarhættu
Hér skiptir söguþráðurinn ekki megin máli og vil ég ekki beint uppljóstra neinu um hann. Náttúran og lífsbaráttan eru í forgrunni, lýsingarnar á umhverfinu eru virkilega sterkar og sést greinilega að höfundur veit hvað hún er að tala um. Bakgrunnur hennar sem líffræðingur hefur svo sannarlega aðstoðað við skrifin og ást á umhverfinu skín í gegn.
Bókin er augljós íhugun um framtíð heimsins ef hamfarahlýnun bindur enda á siðmenninguna, jöklarnir byrja að bráðna og allt vistkerfið kollvarpast. Við sjáum borgir sem hafa grotnað niðurog náttúruhamfarir, en einnig það sem lifir af. Dýrin sem lifa áfram ótrufluð frá áreiti mannanna sem virðast vera í útrýmingarhættu. Samfélög mannsins eru horfin en hvað er það sem stendur eftir?
Þú sem ert á jörðu gleypti mig algjörlega. Töfrandi textinn og stórbrotið umhverfið hélt manni við efnið á þann hátt að erfitt var að leggja bókina frá sér. Þetta er einstaklega sterk og metnaðarfull frumraun frá höfundi sem á vonandi eftir að gefa út ófáar bækur í framtíðinni.






