Það kannast flestir foreldrar við að reyna að kynna börnin sín fyrir uppáhalds barnabókunum sínum. Sjálf bý ég svo vel að móðir mín geymdi flestar mínar barnabækur og hef ég hægt og rólega verið að taka þær upp og máta þær við þriggja ára dóttur mína. Í sumar fann ég tvær bækur um Kugg eftir Sigrúnu Eldjárn sem ég man vel eftir úr minni æsku. Þetta er annars vegar fyrsta bókin Kuggur og fleiri fyrirbæri sem kom út árið 1987 og Kuggur, Mosi og mæðgurnar sem kom út 1989. Það er merkilegt að þessar bækur komu út áður en ég fæddist en hittu samt svoleiðis í mark hjá minni konu að þær hafa verið lesnar spjaldanna á milli. Önnur þeirra fékk að flakka með okkur í tveggja mánaða reisu í sumar og voru sjaldan aðrar bækur lesnar (og raunar lásum við söguna Snjór aftur og aftur og aftur).
Ég get ekki annað en mælt með að foreldrar sem ólust upp við þessar bækur dragi þær upp fyrir börnin sín og kynni þau fyrir Kuggi, Málfríði, mömmu Málfríðar og Mosa. Bækurnar hafa allt sem þarf í góðri barnabók, þær eru tímalausar, fyndnar og fáranlegar!
Gamlar kerlingar að leika sér
Bækurnar fjalla um Kugg sem er skólastrákur og einstaka vináttu hans og Málfríðar, sem er um það bil um sjötugt, og svo móður hennar sem er eðli málsins samkvæmt eitthvað eldri. Með þeim í ævintýrum er Mosi, dýr með ofurkrafta sem bjargar þeim oft úr erfiðum aðstæðum.
Í fyrstu bókinni, Kuggur og fleiri fyrirbæri, flytur Kuggur úr hverfi sem er fullt af börnum á nýjan stað þar sem fátt virðist um leikfélaga. Svo kemur hann auga á Málfríði sem er með tölvuspil sem hún fann sjálf upp og þá hefst með þeim vinskapur. Hann er með aldursfordóma en þarf að kyngja þeim því honum finnst svo gaman að hanga með þessari uppátækjasömu konu sem er endalaust að smíða sniðug tæki. Í sögunni Snjór, sem dóttir mín var heltekin af í sumar, fer hópurinn út að leika í snjó og býr til snjóstyttu sem mamma Málfríðar (nafnið hennar kemur aldrei fram) er módel fyrir. Þá mætir hópur af krökkum og stríðir þeim og kallar: Gamlar kellingar að leika sér! En Málfríður og félagar kenna þeim svo sannarlega lexíu, hún lætur sig hverfa um stund, finnur upp snjóboltavél og fer að dúndra í þau snjóboltum. Hún miðlar svo til barnanna að gamlar kerlingar megi bara leika sér eins mikið og þær vilja og jafnvel meira en það. Frábær boðskapur og skemmtilegt að ræða þetta við börn.
Fáránleikinn
Barnabækur eru eins misjafnar og þær eru margar en persónulega hef ég mikið dálæti á bókum sem eru fáranlegar og fyndnar. Það er gaman að leggjast upp í rúm hjá barninu sínu eftir langan dag og lesa eitthvað sem er mjög fjarri raunveruleikanum. Það er gríðarlegur húmor í bókunum um Kugg en svo kemur líka fáránleikinn fyrir.
Ein fyndnasta sagan í Kuggur, Mosi og mæðgurnar er óneitanlega sú þegar Kuggur og Málfríður og Mosi eru að baka og mamma Málfríðar fer í fýlu. Hún endar á að hverfa, svo kemur í ljós að hún datt ofan í deigið. Þetta fatta þau þegar kakan er tilbúin en út úr henni spretta fætur og hún hleypur í burtu.
Það er ekkert verið að vinna með þá sviðsmynd að konan myndi bakast til dauða í ofninum, nei nei, þau borða kökuna þar til mamma Málfríðar kemur loks í ljós og enda bara á því að þurfa að baka aðra köku svo hún fái nú líka að smakka.
Tímalaust
Fyrstu tvær bækurnar um Kugg eru tilvaldar til að lesa fyrir svefninn fyrir börnin, þær eru báðar með nokkrum sögum sem eru fáeinar blaðsíður hver. Svo eins og aðrar bækur Sigrúnar Eldjárn eru þær mjög vel myndlýstar af höfundinum.
Það kom mér virkilega á óvart við lestur þessara bóka að þær eru mjög tímalausar. Ekki er vísað í tækni samtímans heldur í uppfinningar Málfríðar. Það er gaman þegar svona tekst og nýjar kynslóðir geta notið verks sem er orðið tæplega fertugt. Ég hef ekki kynnt mér allan fjölda bóka um Kugg sem hafa komið út síðustu áratugi en sýnist að þær séu alveg jafn skemmtilegar og kómískar. Ég náði að glugga í eina á bókasafninu um daginn sem gerist í Róm. Þá fannst mömmu Málfríðar svo sniðugt að fyrst að heimurinn allur hefði áhuga á rústum að rústa íbúðinni þeirra til að fá ferðamenn í heimsókn. Mér sýnist að Kuggur og félagar eigi fullt erindi til lesanda um ókomna tíð og geti haldið ótrauð áfram í sínum ævintýrum.







