Viltu fræðast um torfbæi?

13. október 2025

Bókakápa bókarinnar Morð og messufall

Sigrún Eldjárn er ein af afkastameiri höfundum landsins og er einnig ein af þeim ástsælustu. Sigrún hefur skrifað fjölda bóka fyrir börn en fyrsta bók hennar, Allt í plati, kom út árið 1980. Ritskrá Sigrúnar hljóðar upp á um það bil níutíu bækur sem hún myndlýsir þar að auki sjálf og hefur hún hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín. Nú hefur Sigrún sent frá sér nýja bók, Torf, grjót og burnirót. Bókin er gefin út af Máli og menningu og hlaut styrk frá Barna- og ungmennasjóðinum Auði.

Torfbær sem sumarhús

Ormur og Una eru í heimsókn hjá ömmu og afa. Þegar þau skoða gömul myndaalbúm rekast þau á mynd af torfbæ sem var í eigu langalanga – afa og ömmu barnanna. Upp kemur sú hugmynd að byggja torfbæ með krökkunum þar sem hjónin höfðu einmitt ætlað sér að byggja sumarhús í sveitinni.

Í bókinni er farið frá A til Ö yfir hvernig torfbær er byggður. Þar er lýst bæði grjót- og torfhleðlslum, hvernig timburgrindin er reist og á endanum hvernig grasið er sett á þakið. Ferlið er mjög áhugavert og maður lærir sitt lítið af hverju. 

En það er alveg eins og húsið sé búið til úr grasi og steinum. Voru þau kannski álfar? spyr Ormur áhugasamur. (Bls. 9)

Ég man eftir að hafa hugsað svipað og Ormur þegar ég  skoðaði torfbæ sem barn. Mér fannst  hann líta svolítið út eins og eitthvað úr ævintýrabók, byggður úr steinum og með gras á þakinu. Inni var dimmt, enda ekkert rafmagn, en furðulegast þótti mér að þar var ekkert klósett, allavega ekki eins og ég átti að venjast.  

Bókin er rík af löngum textum en kaflarnir eru í þæginlegri lengd. Í textanum er einnig fjölbreyttur orðaforði, allt frá orðatiltækjum yfir í orð á latínu. Sum flóknari orðin eru feitletruð og útskýrð í textanum eða á myndunum.

 

Einstakar myndir

Bókin er afskaplega litrík og myndirnar gegna þarna lykilhlutverki. Það er flókið að byggja torfbæ og ýmis áhöld eru notuð sem krakkar í dag þekkja ekki endilega en Sigrún passar að hafa bæði mynd og heiti við verkfærin svo lesendur geti fylgst með því sem er að gerast. Íslensk náttúra fær svo sannarlega að njóta sín á blaðsíðunum þar sem bæði fuglalíf og gróður skreyta hverja síðu.

Sagan flæðir vel og fróðleikurinn um torfbæina á erindi við alla aldurshópa. Persónurnar eru bæði líflegar og fjölbreyttar og yfirbragð sögunnar er létt og leikandi. Myndir Sigrúnar Eldjárn eru löngu orðnar ómissandi partur af íslenskri menningu og eru þær alveg dásamlegar í þessu verki.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...