,,Mitt á milli orða og þagnar“

22. október 2025

Maó Alheimsdóttir er pólsk-íslenskur rithöfundur, það er að segja, hún fæddist í Póllandi en hefur búið á Íslandi í 20 ár. Má þá einnig til gamans geta að Maó er fyrsti nemandinn af erlendum uppruna til að útskrifast með MA úr ritlist við Háskóla Íslands. Fyrsta skáldsagan hennar Veðurfregnir og jarðarfarir kom út í fyrra, árið 2024, en fyrir það hafði hún gefið út ljóðabókina Ljóðatal árið 2023. Hægt er að lesa umfjöllun Sjafnar um Veðurfregnir og jarðarfarir hér á vefnum okkar og lýsti Sjöfn henni meðal annars þannig að Maó tekst með skáldskap sínum að opna ,,nýjar víddir tungumálsins“.

Nýjasta verk Maó var að koma út, það er ljóðabókin Hvalbak.
Hvalbak skiptist í nokkra kafla. Þar er að finna formála og eftirmála auk þriggja kafla sem titlaðir eru; upptök, flóð og áður en.

Samruni við náttúru

Út frá samhengi og bakgrunni ljóðskáldsins Maó getur lesandi áætlað að “ég-ið” í ljóðunum, það er að segja ljóðmælandi, sé bæði höfundurinn og náttúran sem hún samsamar sig með. Ljóðmælandi talar um hvernig hann hafi ekki verið fæddur í landslaginu heldur frekar ættleitt það síðar meir. Ljóðmælandi er getin úr ,,tári” sem hann “tíndi uppi í brekku að hausti til” og að sama skapi varð ljóðmælandi einnig til úr “móbergi, blágrýti, þungum gabbróeggjum sem jökulá slípaði í þúsundir ára …” sem ýtir hugrenningartengslunum frá höfundi og aftur til náttúrunnar. En mögulega og líklega er þarna sameiginlegur flötur.

Hún og hann

Síðar í textanum breytist ávarpið svo að höfundur verður að ”hún”, en sú leitar uppruna síns og að “tungumáli, efðaefni, erfðagöllum”. Nokkrum blaðsíðum síðar er ljóðmælandi að tala um einhvern sem er “hann” og svo bætist einnig við ávörpun til einhvers sem er “þú”. Þessi skipting milli ávarpa ruglar smávegis í lesanda en sterkar myndirnar sem málaðar eru upp þarna gera það að verkum að lesanda verður í raun alveg sama. Það er hrynjandinn í verkunum sem gegnir í raun aðalhlutverki. Verkið fer nefninlega frá því að vera upprunasaga og þroskasaga í að fjalla um ástina. Það er eitthvað ástarsamband þarna og í því er togstreita. 

við lágum í jökulkeri
með mosasæng á milli okkar
manstu (bls. 59)

Verkið inniheldur margar mjög fallegar myndir og takturinn er dáleiðandi. Það sem ég myndi kannski setja út á verkið er það að mér fannst formálinn og eftirmálinn ekki gera mikið fyrir mig eða heildarmyndina. Takturinn í þeim er ekki sá sami og í köflunum og mér þótti þeir í raun ekki bæta neinu við. Ég skautaði þar af leiðandi mjög hratt framhjá þeim. 

Duttlungafullt landslag

Íslensk náttúra, landslagið og duttlungafull og óvægin veðráttan eru þarna í forgrunni og Maó nær að fanga ákveðna dýpt og sýn á þessi fyrirbæri, sýn sem oft týnist í hraða nútímans.  Þarna er mikið að gerast, og kannski er ekkert markmiðið lesandinn skilji eða nái utan um eitthvað að fullu, þarna er lesandanum einfaldlega boðið í ákveðið ferðalag. Þetta er þokukennt ferðalag en einnig hugvekjandi. 

skammdegið rennur saman
upp úr grasi græddum
sandgígum (bls. 37)

 

Maó sannar það aftur að hún hefur ótrúlegt vald á tungumálinu og rennur textinn í Hvalbak eins og straumþung á í vorleysingum. En þetta er klárlega verk sem þarf að lesa í einni beit, ekki í pörtum, til að fá einmitt sem besta upplifun af heildarmyndinni.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...