Meistaraleg frönsk flétta

27. október 2025

The Karamazov Brothers

Nýverið kom út franski krimminn Dauðinn og stúlkan eftir Guillaume Musso í þýðingu Kristínar Jónsdóttur. Fram kemur á kápunni að Musso sé lang vinsælasti höfundur Frakklands síðustu árin og það kemur ekki á óvart því um er að ræða óvenju spennandi morðgátu.

Bókin kom út á frummálinu árið 2018 og gerist á tveimur tímabilum; árið 2017 annars vegar og svo 25 árum áður, eða árið 1992. Fyrir aldarfjórðungi átti hin glæsilega nítján ára gamla Vinca Rockwell í leynilegu ástarsambandi við kennarann sinn í bænum Antibes í suður Frakklandi. Í jólafríinu hverfa svo hún og heimspekikennarinn Alexis Clement sporlaust, það sést til þeirra á hóteli í París en svo hverfur slóðin. 

Þegar skólafélagar Vincu koma saman á bekkjarmóti árið 2017 er mál hennar enn á allra vörum. Fyrrum æskuvinirnir Thomas og Maxime hittast þarna á ný eftir áratuga aðskilnað og vilja komast til botns í þessu máli fyrir fullt og allt. Það reynist þó afar erfitt því nákvæmlega ekkert er eins og það sýnist!

Laura Palmer eða Vinca Rockwell 

Ég settist niður um helgina með þessa bók við hönd og viðurkenni að söguþráðurinn heillaði mig í fyrstu ekki upp úr skónum. Það er ekki ýkja frumlegt að segja sögu af ungri konu í efstu bekkjum menntaskóla sem átti í samböndum við menn sem voru ekki við hæfi og hvarf svo (eða lést). Nærtækt dæmi er af henni Lauru Palmer í Twin Peaks þáttum David Lynch sem voru akkúrat á hápunkti vinsælda á þeim tíma þegar Vinca hvarf. Menn sem heillast af þessum ungu konum, ef svo má kalla þær, brenna fyrir því að finna út hvað gerðist. Og stundum eins og í tilfelli Lauru Palmer eiga þær alveg ótrúlega ótrúverðugt líf sem útskýrir milljón útúrdúra við rannsókn málsins. 

En nóg um þetta blaður um hugarheim Lynch. Því Masso er með allt annað uppi á teningunum. Í byrjun sögu er ljóst að rithöfundurinn Thomas, sem hefur búið í útlegð í New York undanfarna áratugi, hefur orðið uppvís af einhverju saknæmu. Hann mætir á bekkjarmótið til að hitta Maxime, besta félaga sinn úr æsku og þeir óttast að komist upp um það sem þeir gerðu. Lesandinn fær mjög snemma að vita hvað það var sem þeir urðu uppvísir að. Hins vegar er málið í heild sinni miklu flóknara en það og Thomas lendir í svakalegri kanínuholu við að reyna að greiða úr málinu. 

 

Spenna fram að síðustu síðu 

Dauðinn og stúlkan er hefðbundin glæpasaga að lengd en inniheldur mun fleiri vendingar en ég hef áður kynnst í glæpasögum. Ég hef lítið kynnt mér frönsku glæpasagnahefðina en í þeirri ensku, til dæmis, þar sem lesendur eru afvegaleiddir er það aldrei jafn oft og í þessari bók. Misskilningar persónna vega þungt og allir eru með sitt markmið í sögunni og ljúga hægri vinstri. Bókin er að mörgu leyti mjög frönsk þar sem höfundurinn minnir lesandann stöðugt á það með lýsingum á persónum sem líkjast hinum og þessum Frakka og tilvísanir í dægurmenningu. Sögusviðið er líka skemmtilega franskt en Rivíeran er jafnframt góður staður fyrir glæpasögu þar sem höfundur nýtir sér togstreitu milli ríkra og fátækra, og tengsl sumra íbúa við mafíuna á Ítalíu. Það er sérstaklega gaman að lesa þessa bók ef lesandinn hefur heimsótt svæðið og þekkir þar til.

Takið helgina frá!

Bókin fór smá hægt af stað við lestur (kannski vegna fordóma minna gagnvart viðfangsefninu), en um miðbik bókar reynist ómögulegt að leggja hana frá sér, lesandinn verður einfaldlega að vita hvað gerðist. Þegar ég var búin með tvo þriðju bókarinnar og klukkan orðin margt var ljóst að ég gat ekki farið að sofa fyrr en ég vissi hvað hafði gerst í þessari meistaralegu fléttu. Sömu sögu var að segja um mömmu mína sem fékk bókina lánaða sömu helgi. Takið því helgina frá til að stinga ykkur djúpt ofan í þessa æsispennandi glæpasögu! En hún er meðal annars aðgengileg á Storytel en einnig í öðrum helstu bókabúðum og bókasöfnum.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...