Að þekkja tilfinningarnar

10. nóvember 2025

Í fyrra kom út bókin Litaskrímslið hjá Drápu en hún er bráðskemmtileg bók um stúlku sem hjálpar krúttlegu skrímsli að flokka og bera kennsl á tilfinningar sínar. Í ár gefur Drápa hins vegar út bókina Litaskrímslið: Læknirinn – sérfræðingur í tilfinningum sem er næsta bók um Litaskrímslið og er hún ekki síðri en sú fyrri.

Listþerapía

Höfundur bókanna, Anna Llenas, fæddist í Barcelona og er með menntun í markaðssamskiptun en er auk þess grafískur hönnuður. Undanfarin ár hefur hún sérhæft sig í listþerapíu, sem er meðferð sem byggir á tjáningu í gegnum listsköpun.  Í dag starfar Anna sem kennari og listmeðferðarfræðingur með sérhæfingu í tilfinningafræðslu. Anna er bæði höfundur bókanna og myndlýsir þeim líka sjálf en báðar bækurnar koma út í þýðingu Elínar G. Ragnarsdóttur.

 

Sérfræðingur í tilfinningum

Einn daginn vaknar Nína og líður eitthvað undarlega. Daginn áður hafði hún gert eitthvað sem hún vildi ekki gera af því að hún þorði ekki að segja nei. Hún fer því og hittir Litaskrímslið enda er hann núna orðin sérfræðingur í tilfinningum.

Inni í miðri bók má finna uppáhalds opnuna mína. Þar eru fullt af ráðum um hvað er hægt að gera þegar manni líður illa, eins og að dansa eða anda djúpt og rólega. Nína og skrímslið gera margt af þessu saman og hægt og rólega fer Nínu að líða betur fyrir vikið. Þarna er líka ýmislegt að finna sem ég nota sjálf og kenni börnunum mínum eins og að fara í göngutúr eða hlusta á fallega tónlist.

Föndurbók

Myndirnar í bókunum eru skemmtilega öðruvísi. Þetta er eins konar  föndurbók, ekki af því hún kennir manni að föndra heldur af því að hún er bóksaflega föndruð. Myndirnar eru marglaga og samanstanda af úrklippum úr blöðum, föndri úr þykkum pappa og málningu

Góð áminning

Ég las bókina með fjögurra ára drengnum mínum. Alveg eins og með fyrstu bókina, sem við höfum lesið oft og mörgum sinnum, þá fannst honum þessi saga líka áhugaverð. Upp hófust samræður hjá okkur mæðginunum um alls konar tilfinningar og hvernig við getum brugðist við þeim.

Bækurnar um Litaskrímslið eru merkilegar að því leyti að þær kenna mikilvægi þess að þekkja tilfinningar sínar og að koma þeim í orð. Nýjasta bókin hvetur börn og fullorðna til þess að hlusta á líkamann og hjartað en kannski mikilvægast af öllu þá fjallar hún um að þora að setja mörk og að segja nei. Það er góð áminning fyrir alla að hlusta á sína innri rödd og ég mæli hiklaust með þessum bókum, bæði fyrir fullorðna og börn.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...