„Nýju hverfin eintómar stafsetningarvillur“

19. nóvember 2025

Fyrir þessi jól teflir Andri Snær Magnason lítilli og nettri bók sem er þó eins og hönnunarverk. Jötunsteinn mætti kalla nóvellu eða jafnvel bara smásögu, svarthvítar myndir prýða margar blaðsíðurnar sem kallast á við vinnu akrítektsins Árna sem er söguhetja bókarinnar. Myndvinnsla var í höndum Mána Snæs Þorlákssonar.

Jötunsteinn flýgur í átt að bílrúðu í upphafi sögu og við bíðum alla bókina eftir að steinninn hitti mark sitt, bílrúðu Range Rover Vogue bíls. Á meðan við erum föst í tímaleysi fáum við að heyra alla sólarsöguna. Hví er þessi steinn á leiðinni inn um rúðuna á bíl verktaka? Hver kastar honum?

 

Grár klumpur

 

Jötunsteinn fjallar um arkítektinn Árna sem er í upphafi bjartsýnn á framtíðina, hefur allskyns væntingar, hefur hannað fallegt fjölbýlishús sem á að byggja í samstarfi við frændur hans, Birgir eldri og Birgir yngri. Úr verður að alltaf þarf að einfalda teikninguna, gera verkið ódýrara þar til varla nein hönnun stendur eftir. Gluggar frá Kína, bárujárn og steypa. Grár klumpur sem Árna hryllir við er lokaniðurstaðan.

– Er þá starfið mitt tilgangslaust? Ég er á skjön. Ég er búinn að mennta mig til að vera á skjön við allt. ímyndaðu þér ef þú værir prófarkarlesari og allur texti væri morandi í stafsetningarvillum en enginn tæki eftir því nema þú. Nýju hverfin eru eintómar stafsetningarvillur. Mér finnst eins og allt sé orðið ljótt. (bls. 74)

 

Heimur að hruni kominn

Verkið er augljós ádeila á ástandið á fasteignamarkaði og hvernig gróðrarstefnan stýrir byggingamarkaðnum. Ódýrari húsum er hent upp, 100% lán tekin til að kaupa þau og svo er allt annars og þriðja flokks í íbúðunum. Stigagangar verða að vera úti, að hafa sameign er alltof kostnaðarsamt, hurðir á fataskápa eiga auðvitað að vera val kaupandans. Rólega hrynur heimur Árna, vonir verða að engu, hræsnin umlykur hann þegar hann er svo látinn hanna 600 fm einbýlishús Birgis yngri. Þar fara fleiri klukkutímar í hönnunina en hafa nokkuð tímann farið í fjölbýlishúsin sem nú eru kölluð Árnahús. Hjónaband Árna er einnig að hruni komið, hann sneiðir framhjá fjölbýlishúsunum sem eru eignuð honum því hann skammast sín svo.

Ég var handlangari, ég færði gæði frá einum til annars. Ég tálgaði allt kjötið af blokkinni á sama tíma og fasteingaverð fór hækkandi og eftir stóð beinagrind. Það sem eftir var þegar alfadýrið, verktakinn og fjárfestirinn höfðu fengið að éta fylli sína. (bls. 113)

 

Jötunsteinn fjallar um hnignun samfélags, bókin er skæð ádeila á neyslumenningu og kapítalisma. Háðið er fyndið á köflum, líf Árna er grátbroslegt og rammi sögunnar er virkilega vel hugsaður. Lesandinn svífur þarna um í tímaleysi jötunsteinsins sem stefnir að rúðunni, sem minnir á Jorge Luis Borges, söguna Dulda kraftaverkið. Ég velti þó fyrir mér hvort verkið sé nógu sterkt til að standa svona eitt og sér. Sagan hefði sómað sér vel í smásagnasafni þar sem það vantar frekar mikið upp á orðafjöldann til að kalla megi verkið nóvellu.

Lestu þetta næst

Gæsahúð í óperunni

Gæsahúð í óperunni

  Stuttu eftir að ég kvaddi rauðglóandi París í Borgarleikhúsinu er ég aftur komin til...