Skólinn í skrímslabæ er ný barnabók eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur sem þarf vart að kynna. Hún hefur skrifað ógrynni sagna fyrir börn og unglinga og hittir alltaf í mark! Með henni í liði er myndhöfundurinn Tindur Lilja sem blæs skemmtilegu lífi í persónur bókarinnar.
Bókin fjallar um mannabarnið Evu Brá sem ákveður að ganga í Skrímslaskóla, þótt hún sé í raun ekkert skrímsli. Eins og má búast við finnst skrímslunum nærvera hennar frekar furðuleg, í skólanum má finna allar tegundir hræðilegra skrímsla, vampírur, nornir, seiðskratta, drauga og svo lengi má telja. En Eva Brá er gædd þeirri gáfu að vera ekkert hrædd við þessi skrímsli. Hún er komin til að læra og vill vera tekin jafn alvarlega og öllum hinum skrímslunum.
Falleg þroskasaga
Herbergisfélagi hennar, draugurinn Aró, gegnir einnig mikilvægu hlutverki. Aró verður fyrsti vinur Evu Brár og Eva dregur Áró úr skelinni sinni sem hán hefur haldið sig lengi í. Aró er mikið til baka og vill helst vera ósýnilegt í tímum í skólanum og lætur lítið í sér heyra. Það er falleg þroskasaga sem á sér stað bæði hjá Aró og Evu Brá.
Margt spennandi og hræðilegt á sér stað í bókinni, ég byrjaði að lesa söguna fyrir fjögurra ára snáðann minn og hann var nokkuð hress með þetta. Hrekkjavakan var það eina sem hann talaði um í margar vikur og því held ég að hræðilega skemmtilegt innihald bókarinnar eigi eftir að slá í gegn hjá hrekkjavökusjúkum börnum. Skrímsli eru svo ógnvekjandi en heillandi í leiðinni!
Drungi og litadýrð
Tindur Lilja myndlýsir bókinni af stakri snilld, sérstaklega finnst mér teikningarnar af Kolfinnu kolkrabba einstaklega skemmtilegar, svipurinn á henni er alltaf spot on. Myndirnar eru í svarthvítar og í lit til skiptis sem gengur nokkuð vel upp, sumar drungalegri en aðrar fyrir vikið.
Ég tel að Skólinn í Skrímslabæ sé tilvalinn lestur fyrir yngstu lestrarhestana okkar, hún er stutt með þægilegu og rúmu letri svo hún hentar bæði vel til upplesturs foreldra eða í heimalestur. Innihaldið ætti svo sannarlega að halda börnunum við efnið. Það er alltaf eitthvað nýtt og skemmtilegt (svolítið hræðilegt) að gerast á hverri blaðsíðu. Það má nefna að bókin er einnig fyndin og hjartnæm og snúningurinn í lokin er virkilega skemmtilegur (læt ekki meira uppi um það!).






