Snörp og áhrifamikil bók

24. nóvember 2025

Ungmennabókin Sólgos eftir Arndísi Þórarinsdóttur er mögulega með flottustu kápu jólabókaflóðsins. Hún er allavega sú sem glansar best á, sérstaklega seinni partinn þegar sólin er að setjast.

Arndís fær hér frábæra hugmynd, hvað myndi gerast á Íslandi ef sólgos myndi slá út öllu rafmagni og allar samskiptaleiðir myndu eyðast út? Ég viðurkenni að ég hafði aldrei heyrt um sólgos og yrði bara ánægð ef ég heyrði ekki aftur á það minnst eftir lestur þessarar bókar.

 Dystópískar hörmungar

Unnur er í 10. bekk og er að gera sig til fyrir ball þegar rafmagninu slær út. Í fyrstu virðist þetta sakleysislegt en svo líður tíminn og það kemur í ljós að engin leið er að slá því aftur inn. Þá hefst dystópísk frásögn af tilraun Unnar og fjölskyldu hennar að lifa höfmungarnar af. Því þetta eru svo sannarlega hörmungar. Móðir Unnar er stödd í Eistlandi og engin leið er fyrir hana að komast aftur heim, hvað þá að láta vita af sér. Faðir söguhetjunnar fer strax í varnargír og prísar sig sælan að eiga byssur í læstum skáp í bílskúrnum. Nú skiptir allt í einu máli vera sem best settur, hafa bestu vistirnar, klæðnaðinn og lyfin.

Fólk tekur þessu misalvarlega, sumir halda að rafmagnsleysinu ljúki innan skamms og skipta á hlýjum klæðnaði og mat fyrir Apple tölvur, síma og seðla. Sem eru auðvitað vita gangslausir hlutir í þessu ástandi.

 

 Bárátta, ást og ómögulegur veruleiki

Arndís segir söguna blátt áfram, skafar ekki af neinu. Hugsanir Unnar eru í fyrirrúmi, stundum eru þær snarpar og fara úr einu í annað þar sem hún er að reyna að botna í ástandinu. Það sést að ritstíllinn hefur verið sniðinn að hugsunum unglingsins, það eru engar óþarfa lýsingar eða málalengingar. Í fyrstu kom mér þetta á óvart þar sem ég hef líklega lesið hverja einustu bók eftir Arndísi og fannst ég hér sjá nýjan brag yfir skrifunum.

Bókin er vel uppsett, kaflarnir fylgja dögunum sem líða og stundum líða nokkrir mánuðir á milli kafla sem er nokkuð sjokkerandi fyrir lesandann þar sem þá veit hann að ástandið hefur ekkert breyst. Rafmagnsleysið er varanlegt. Innan í báráttusögunni er falleg ástarsaga milli Unnar og Tönju, stelpu sem hún kynnist við veiðar. Það fær lesandinn að sjá stritið frá sjónarhorni annarrar persónu en Tanja og móðir hennar eru ekki jafn vel settar og Unnur og fjölskylda hennar. Eins er meginþráður verksins vangaveltur um hvað er rétt og rangt og hversu langt maður má ganga til að halda fjölskyldu sinni á lífi.

Unnur er föst í hræðilegum aðstæðum en sýnir kjark og hugrekki, hún ber hag annarra fyrir brjósti og þráir ást og umhyggju sem hún fær ekki heima hjá sér. Margt sem faðir hennar gerir gengur gegn hennar gildum og er hún í stöðugri báráttu í gegnum bókina að sætta sig við ómögulegan veruleikann.

 

Sólgos er snörp og áhrifamikil bók sem ég geri ráð fyrir að hitti í mark hjá ungu kynslóðinni. Frásögnin er sláandi og situr eftir í manni. Persónulega hefði ég viljað lengra verk en geri mér grein fyrir því að ég er ekki markhópurinn, ég hefði jafnvel geta lesið 300-400 blaðsíðna bók um Unni og þennan dystópíska veruleika þar sem kafað væri enn dýpra ofan í hugarástand persónanna.

Lestu þetta næst

Sú besta hingað til

Sú besta hingað til

Bókaútgáfan Bókabeitan hefur verið hvað duglegust að veita fantasíuunnendum lesefni. Síðustu ár...

Glóandi hættulestur

Glóandi hættulestur

Blaka er nýjasta bók Ránar Flygenring rithöfundar og myndhöfundar. Í fyrra tefldi hún fram líklega...