Það var í september síðastliðnum sem ég varð vör við það á samfélagsmiðlum að Kristín Svava væri að gefa út bók nú fyrir jólin sem væri ævisaga Jóhönnu Knudsen og héti því áhugaverða nafni, Fröken Dúlla. Áhugaverður titill á ævisögu konu sem var og er mjög umdeild og seint þekkt fyrir að vera „dúlla“. Hafi man eitthvað kynnt sér sögu ástandsins á Íslandi og hvernig komið var fram við konur á þeim tíma þá hefur maður heyrt nafn Jóhönnu Knudsen. Ef man hefur svo áhuga á að lesa íslenskar ævisögur eða fræðibækur þá er líklegt að man hafi heyrt um eða lesið bók eftir Kristínu Svövu. Hún skrifaði m.a bókina Farsótt og einnig bókina Duna: saga kvikmyndagerðarkonu með Elsu Bragadóttur. Þær bækur hef ég lesið og settu þær Kristínu í hóp þeirra höfunda hjá mér sem skrifar um fólk og málefni liðinna tíma á áhugaverðan og aðgengilegan hátt án þess að draga úr gildi þeirra. Þarna var því komið áhugavert efni sem ég vildi kynna mér betur og var viss um að Kristín væri manneskjan til að kynna mig betur fyrir henni Dúllu.
Íslenskt samfélag og ástandið
Síðari heimsstyrjöldin (1939-1945) umbreytti Íslandi á örfáum dögum árið 1940 þegar Bretar og síðar Bandaríkjamenn komu með þúsundir hermanna hingað til lands. Hernum fylgdu ný tækifæri, peningar, bættir innviðir og atvinna. Á sama tíma var þjóðin að stíga síðustu skref sín í átt að sjálfstæði en því fylgdi að allt sem þótti íslenskt var sett á stall. Íslenska konan var gerð að tákni þjóðarinnar og bar þannig ábyrgð á framtíðinni, bókstaflega. Hernum fylgdu freistingar fyrir alla en það voru konurnar, íslenskar ungar stúlkur undir lögaldri, sem fylgst var með, þær skammaðar og dæmdar.
Á tímum þessa íslenska samfélags varð Jóhanna Knudsen að lögreglukonunni sem fylgdist með íslenskum stúlkum og samskiptum þeirra við hermennina. Hún stundaði viðamiklar persónunjósnir þar sem hún skráði ítarlega í dagbækur sínar athafnir þeirra og hegðun. Það kom mér virkilega á óvart hversu langt hún og hennar kollegar gengu í njósnunum en Kristín varpar ljósi á það í bókinni. Konur voru ekki einu sinni óhultar heima hjá sér því það var njósnað um þær inn um glugga. En konurnar sem Jóhanna fylgdist með voru bæði unglingsstelpur og fullorðnar, sjálfráða konur en þrátt fyrir það var talað um þær eins og þær væru eign þjóðarinnar. Það má þó ekki gleymast að hún starfaði ekki ein. Eins og áður sagði þá naut hún aðstoðar annarra lögreglumanna og almennings við eftirlitið með konunum en hún naut líka stuðnings embættismanna, ráðherra og annarra valdamanna sem óttuðust um ímynd íslensku konunnar og þá um leið ímynd þjóðarinnar. Stúlkurnar voru skráðar í dagbækurnar hennar Jóhönnu, yfirheyrðar og oft dæmdar af sérstökum ungmennadómstól sem dæmdi þær til vistunar á sérstöku stúlknaheimili á Kleppjárnsreykjum. Heimili sem var sérstaklega sett á fót til að forða íslenskum stúlkum frá þessum „sjúkdómi“ sem þær sem áttu samskipti við herliðið voru haldnar að mati Jóhönnu og annarra. Rannsókn Kristínar á dagbókum Jóhönnu leiðir í ljós að stúlkurnar sögðu ekki bara frá afskiptum sínum við hermenn, þær sögðu líka frá ofbeldi og misnotkun af hálfu karla en þær frásagnir hurfu í tómið. Allri ábyrgðinni var slengt á stúlkurnar en íslensku karlarnir og hermennirnir sluppu undan henni.
Rannsakandinn og lesandinn í ‘essu saman
Kristín Svava skiptir bók sinni upp í sjö kafla og eru tveir þeirra, sá fyrsti og síðasti, nokkurs konar inngangur og samantekt. Hinir fimm kaflarnir eru tileinkaðir æviskeiðum Jóhönnu frá upphafi til enda. Frá barnæsku og mótunarárum til starfa hennar sem hjúkrunarkonu, svo lögreglukonu og síðan síðustu árin eftir ástandsárin. Með þessari uppbyggingu tekst Kristínu að gera lesturinn að ferðalagi þar sem hún sjálf er sýnileg sem rannsakandi, hugsandi og veltandi fyrir sér heimildunum sem hún hefur og þá mynd sem þær gefa af Jóhönnu og hennar störfum. Það er ekki sjálfgefið að höfundurinn leyfi lesandanum að vera með sér í rannsóknarferlinu en það er einmitt það sem Kristín gerir sem svo skapar nándina og dýptina við bæði vinnu höfundar og Jóhönnu sjálfa. Lesandinn upplifir frá upphafi til enda lesturs að hann sé með í þessu ferli Kristínar að komast að meiru um Jóhönnu og það er það sem hún gerir. Kristín dregur upp flóknari mynd af Jóhönnu en þá sem sagan hefur geymt hingað til. Hún spyr hvað mótaði hana, hvaða trúarafstaða, ábyrgðar- og réttlætiskennd eða trú á yfirvöld lá að baki. Eða lá ekkert af því að baki? Var hún sannfærð um að hún væri að verja þjóðina með verkum sínum, að framtíð þjóðarinnar væri sannarlega í hættu eða var hún eitthvað verkfæri sem aðrir nýttu sér?
Það sem svo gerir Fröken Dúllu að einstakri lestrarupplifun er ekki aðeins það að hún er saga umdeildrar konu heldur líka saga um samfélagið sem skapaði hana, studdi hana og síðar fjarlægði sig frá henni. Kristínu tekst að sýna hvernig sagan er skrifuð, hverjir ákveða frásögnina og hverjir hurfu úr henni en á sama tíma heldur hún í mannlega næmni sem er ekki sjálfsagt í bók sem byggir á heimildum. Man finnur líka sem lesandi að ástandið er ekki jafn fjarlægt okkur og við viljum. Mögulega má segja að þær kröfur og reglur og það ábyrgðarhlutverk sem við setjum á konur sé ekki alveg horfið heldur hefur einfaldlega tekið nýtt form. Það sem svo heillaði mig mest er þessi hæfileiki Kristínar til að skrifa þannig að man upplifi sig með henni við rannsóknina. Mér leið eins og við sæjum heimildirnar saman, héldum á gögnum og spáðum og spekúleruðum hlið við hlið. Það er magnað þegar bók tekst að hrífa man þannig með sér, sérstaklega þegar efnið er sársaukafullt, flókið, pólitískt og ennþá undirliggjandi í sögu þjóðarinnar.
Fröken Dúlla er bók sem kveikir umræður, eykur skilning og samkennd, vekur upp pirring og skilur mann eftir með löngun til að ræða þessa sögu, rifja upp og endurmeta með skýrari, gagnrýnni og mannlegri augum.






