Bókin Mzungu, sem skrifuð er af Þórunni Rakel Gyfadóttur og Simon Okoth Aora, kom út á dögunum hjá útgefandanum Angustúru. Bókin er sögð vera byggð á sönnum atburðum, en hún segir af hinni íslensku Huldu sem skellir sér til Kenía til að láta gott af sér leiða. Með sér í för hefur hún son vinahjóna sinna og aðra konu, hana Ástu, en þau eru öll í leið á barnaheimili sem rekið er af íslenskum manni í Kenía. Í bókinni kynnist lesandi, auk Huldu, hinum keníska Ochala, sem er að ljúka BS námi og vinnur sem bókari á barnaheimilinu og Caroline sem er fátæk, einstæð tveggja barna móðir sem segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum við þau sem reka heimilið sem Hulda sækir heim.
Mzungu: Sá eða sú sem ráfar stefnulaust um, upphaflega notað í Austur-Afríku til að lýsa landkönnuðum á 18. öld. Í dag er þetta hugtak aðallega notað um Vesturlandabúa. (Aftan á bókarkápu)
Eftir komuna til Kenía fara fljótlega að renna tvær grímur á Huldu sem sér að ekki er allt með feldu í rekstrinum. Skúli, formaður heimilisins, er greinilega ekki að reka heimilið af manngæsku, hann er hraðlyginn og margsaga um sig og sína hagi og lítur mikið niður á konur sem eignast börn utan hjónabands. Þegar á líður kemst Hulda að því að starfsfólkið sætir vinnuþrælkun og alls kyns mótlæti og þau Skúli og Eveline, kona hans, maka krókinn án þess að nýta styrktarféð sem þau fá frá Íslandi í að byggja upp starfsemina eins og þau segjast vera að gera. Hulda vill auðvitað reyna að láta gott af sér leiða og reynir að hjálpa Caroline og öðrum vinnukonum á heimilinu, en að stökkva inn í aðstæður í ólíkum menningarheimi reynist mun hægara sagt en gert.
Menningarmunur og máttleysi
Hulda reynir vanmáttug að hjálpa starfsfólki heimilisins án þess að hafa hugsað fyrir góðri lausn fyrir fólkið sem hún vill frelsa og er ítrekað sagt að hún skilji bara ekki menninguna og að svona séu hlutirnir bara í Kenýa. Það sem bókin gerir vel er að hún stimplar Huldu ekki sem góðmenni á móti illmennunum Skúla og Eveline, heldur passar hún upp á að sýna að Hulda er marglaga persóna sem vissulega er komin full langt út í djúpu laugina og veit ekki hvernig er best að hjálpa til. Það er sannfærandi lýsing á því marga vestræna fólki sem fer til Austur-Afríku og ætlar sér að hjálpa heimafólki án þess endilega að vera með góða áætlun um hvernig ætti að standa að því. Þó góður vilji sé fyrir hendi er það ekki endilega nóg, en það þýðir samt ekki að maður ætti ekki að reyna að hjálpa, eða hvað?
Dansað á mörkum sannleikans
Hvað er satt og hvað er skáldað er látið liggja á milli hluta, en formaður heimilisins, Skúli í bókinni, er sagður byggður á Ólafi nokkrum Halldórssyni, sem, rétt eins og Skúli, stofnaði barnaheimili í Kenía fyrir hlut af sanngirnisbótum sem hann hlaut frá íslenska ríkinu. Í bókinni er Skúli mikið illmenni sem stjórnar barnaheimilinu með harðri hendi ásamt eiginkonu sinni, sem er undirförul og illgjörn. Nú veit ég ekki hvað er satt og hvað ekki, en samkvæmt heimildum dvaldi Þórunn Rakel á barnaheimili Ólafs í Kenía, og voru farir þeirra ekki sléttar. Ólafur er ófeiminn við að benda á að hann sé sá sem Skúli er byggður á og mótmæla því að nokkuð sé satt sem Þórunn skrifar. Þá hefur Þórunn aðeins sagst tala um bókina sem skáldverk eins og stendur. Þetta er sem sagt ágætis drama til að skoða af hliðarlínunni, en hvað er satt og hvað ekki er ómögulegt að segja. Svo við skulum halda okkur við skáldskapinn. Ég held að bókin í heild hefði þurft að ákveða hvort hún væri afhjúpun á barnaheimili Ólafs Halldórssonar eða skáldsaga. Það hefði kannski verið betra að skrifa bara take down um þetta barnaheimili og skrifa svo skáldsögu sem fer aðeins fjær sannleikanum og býður upp á meira spennandi vendingar.
Endaslepptur lokasprettur
Fyrri partur bókarinnar er betri en sá seinni. Lesandi kynnist Huldu og fólkinu í Kenía, höfundur reynir að gera lífinu í Kenía ágæt skil og er það vissulega sennilega hjálplegt að hún er með kenískan meðhöfund sem blæs lífi í alla vega eina af kenísku persónunum, og má gera ráð fyrir að hafi veitt innsýn í einhverja hluta af lífinu þar í landi. Þegar líður á seinni hluta sögunnar fara málin hins vegar aðeins að renna út í sandinn. Við tekur mikil upptalning á atburðum, það er mjög mikið af „og svo og svo“ frásögnum, hlaupið er um óspennandi atburðarrás bjúrókrasíu og lögreglusamskipta sem virka mjög raunsönn, ef við erum að leita að sannleikanum, en æsilegur lestur er það ekki.
Mér finnst bókin líða smá fyrir að vera óviss um hvort hún ætli að segja alla söguna af því sem gerðist á þessu barnaheimili og í ferðalagi höfundar en markaðsetja sig samt sem skáldskap. Þessi frásagnarstíll gengur vel upp ef lesandinn er að lesa sanna sögu, en ef þetta er sett fram sem skáldskapur þá er hann hreinlega ekki nógu spennandi. Fátt gerist, mál eru eiginlega ekki leyst né þeim bjargað, sem er vissulega nokkuð sem gerist oft í raunveruleikanum en maður biður skáldskapinn um meira.
Persónusköpunin raunsönn
Persónur eru marglaga og raunsannar, við kynnumst þeim misvel en það sem stendur upp úr er sennilega að enginn er sérstaklega góður eða vondur, nema auðvitað skrímslin Eveline og Skúli sem eru svo svakaleg að ég er hissa á að þeim séu ekki látin vaxa horn. Persóna Caroline er áhugaverð og sterk, og samband hennar við fjölskyldu sína sýnir til að mynda vel þessi marglaga mannlegu tengsl þar sem fólk reynir að gera sitt besta án þess endilega að láta gott af sér leiða.
Mér finnst skiptingin á milli persóna sem sögumanna ekki nægilega vel sett upp, hlutar Caroline eru vel afmarkaðir en hlutar Ochala og Huldu blæða á milli og eru þau oft að segja lesendum sama hlutinn en frá tveimur sjónarhornum. Allt sem Hulda lýsir er helst til litað augum hvíts heimsækjanda, Hulda er þó meðvituð um hversu illa hún er í stakk búin til að hjálpa fólki og nefnir hvítan bjargvættarisma sjálf og veit hversu varhugaverður hann er, þó hún falli aðeins í grifjur hans sjálfs.
Það sem ég kann að meta við bókina er að Hulda er engin hetja, hún er breysk eins og við öll og er að reyna eitthvað sem hún ræður engan vegin við þó hún sé með hjartað á réttum stað. Svo mæli ég með að Kveikur kíki við á barnaheimilið í Kenía og tékki hvort það sé allt í góðu þarna.






