Nýlega sendi Kvistur bókaútgáfa frá sér tvær bækur eftir höfundinn Chris Naylor-Ballesteros. Ferðataskan var fyrst gefin út í Bretlandi árið 2019 en Refur og Björn í feluleik kom út árið 2022. Báðar bækurnar koma út í íslenskri þýðingu Ástu Halldóru Ólafsdóttur.
Ferðataskan
Bókin fjallar um skrítið blátt dýr sem dregur ferðatösku á eftir sér. Ekki er tekið fram hvaða tegund af dýri þetta er en á ferð sinni hittir það héra, fugl og ref. Dýrin velta fyrir sér og forvitnast um hvað sé í ferðatöskunni. Bláa dýrið segir að í henni sé heimili sitt. Hin dýrin trúa ekki né treysta þessari nýju ókunnugu veru sem er svo ólík þeim sjálfum. Þau opna ferðatöskuna í leyfisleysi til þess eins að sjá að ferðalangurinn sagði satt. Dýrin skammast sín og enda á að byggja nýtt heimili fyrir það.
Bókin er tileinkuð öllum sem hafa byrjað nýtt líf langt í burtu. Lesandi finnur til með bláa dýrinu sem hefur einhverra hluta vegna hrakist frá heimaslóðum sínum. Bókin fjallar á einfaldan hátt um fordóma og vantraust gangvart því sem við þekkjum ekki. Hún kemur inn á mikilvægi þess að sýna öðrum kærleik og skilning jafnvel þótt þau séu ólík okkur sjálfum.
Refur og Björn í feluleik
Bókin fjallar um tvo vini sem fara í feluleik. Björn er ekki góður í að fela sig og Refur finnur hann alltaf strax. Birni langar ótrúlega að vinna einu sinni svo Refur ákveður að telja upp á hundrað til að gefa honum lengri tíma. Björn finnur frábæran stað til að fela sig á en í byrjun festist trefill hans í grein og raknar upp á meðan hann gengur. Refur getur því fylgt þræðinum og fundið Björn auðveldlega. Í staðinn fyrir að finna vin sinn þykist Refur gefast upp svo Björn geti unnið leikinn.
Bókin fjallar um fallega vináttu sem eflaust margir tengja við. Ég las báðar bækurnar með fjögurra ára syni mínum og honum fannst bókin um Ref og Björn skemmtilegri enda er mikill húmor í henni.
Látlaus stíll
Myndhöfundur beggja bókarinna er Chris Naylor-Ballesteros. Stíllinn yfir myndunum er svipaður í báðum bókum en þótt myndirnar séu einfaldar þá hittu þær í mark hjá fjögurra ára drengnum mínum.
Báðar bækurnar eru ljúfar og fallega myndlýstar. Það er ekki mikill texti í bókunum svo þær henta vel fyrir yngstu lesendurna. Í bókinni Ferðataskan er fallegur borðskaður með alvarlegan undirtón en í Refur og Björn fara í feluleik er andrúmsloftið léttara en boðskapurinn er að engu að síður góður.







