Morðið í brúðkaupinu

17. desember 2025

Allt sem við hefðum getað orðið

Sleggjudómur er þriðja glæpasaga Ragnheiðar Jónsdóttur. Hún sigraði glæpasagnasamkeppnina Svartfuglinn með frumraun sinni Blóðmjólk árið 2023 og fylgdi henni eftir með Svikaslóð á síðasta ári.

Að þessu sinni finnst rannsóknarblaðamaðurinn Erna Emilsdóttir myrt daginn eftir brúðkaup Maríönnu, samstarfskonu hennar á fréttastofunni. Erna sér um fréttaskýringaþættina Málavexti ásamt Friðriku og Daníel. Allir eru jafn hissa á morðinu á Ernu enda er hún talin afbragðsgóð manneskja sem öllum líkaði vel vel. Hins vegar kemur í ljós í gegnum bókina að alls konar fólk gæti viljað henni mein. 

Margir grunsamlegir í brúðkaupi

Líkt og í fyrri bókum Ragnheiðar er ekki um lögreglukrimma að ræða. Sagan er sögð í fyrstu persónu og skipt er á milli sjónarhorna Ernu, Friðriku og Daníels fyrir og eftir brúðkaupið. Inn á milli koma kaflar úr lífi Ólafs Ólafssonar sem var ungur á sjöunda áratug síðustu aldar en ekki kemur í ljós fyrr en seint í bókinni hvernig hann tengist hinni látnu.

Það gengur hægt hjá vinum Ernu að átta sig á hvers vegna hún var myrt og ekki hjálpar til að stór hluti kvöldsins er í þoku hjá Friðriku sökum fyllerís. Brúðkaup úti á landi er sniðugt sögusvið fyrir morð, þar er takmarkaður hópur grunaðra, en jafnframt tengist fólk brúðhjónunum úr alls kyns áttum. Þannig er fólk í brúðkaupsveislunni sem tengist málum sem Erna var að rannsaka fyrir Málavexti, gamall yfirmaður sem olli henni skaða og vinafólk hennar sem hefur leyndarmál að fela. Eins og í mörgum öðrum glæpasögum þar sem blaðamenn koma við sögu er varpað ljósi á að rannsóknarblaðamennska er alls ekki áhættulaus fyrir blaðamenn.

Lesandinn afvegaleiddur 

Sleggjudómur er fínasta glæpasaga sem fer með lesandann um víðan völl áður en ljóst er hver myrti Ernu og hvers vegna. Það var gaman að giska hver hinn seki gæti verið og lesandinn er afvegaleiddur nokkrum sinnum í ferlinu. Ragnheiður hefur gott vald á flókinni fléttu og eins og í besta krimma er lesandanum svo sannarlega ekki gert auðvelt fyrir að leysa málið meðan á lestrinum stendur. Mín helsta gagnrýni var kannski full mikið útskýrt í lok bókarinnar og hefði alveg mátt stytta þann kafla. 

Ragnheiður hefur stimplað sig rækilega inn sem glæpasagnahöfundur sem vert er að fylgjast með og ég hlakka til að lesa hvað hún býður okkur upp á næst! 

 

 

Lestu þetta næst