Í Ragnarökum undir jökli, nýjust skáldsögu Skúla Sigurðssonar og sjálfstæðu framhaldi af Stóra bróður, er boðið upp á glænýja og ferska hugmynd, margar áhugaverðar persónur og spennandi fléttu í hasarmyndastíl. Ragnarrök undir jökli kemur út hjá Drápu, og er víst að aðdáendur höfundar, sem og aðrir þeir sem aðhyllast spennu og drama verða ekki sviknir.
Einherjar á Iðavöllum
Aðalpersónan, Magnea Ísaksdóttir, er blaðakona hjá Kroníkunni og nýbökuð tveggja barna móðir. Henni og Yngvari, blaðamanni Morgundagsins, býðst ótrúlegt tækifæri, það að vera fyrsta og eina fjölmiðlafólkið sem fær aðgengi að Iðavöllum. En hvað eru þessir Iðavellir? Jú, það er virki sem byggt var sem samastaður fyrir Einherja, söfnuð ásatrúarmanna sem leiddir eru af Óðni Jónssyni allsherjargoða. Óðinn þessi er eftirlýstur maður, en hann er einnig heillandi og töfrandi, vel að máli farinn og gáfaður og sagan segir að hann geti talað fólk til þess að gera hvað sem er, jafn vel taka eigið líf. Magnea lætur ekki segja sér tvisvar að fá að gægjast inn á heimili þessa óháða og sérstæða safnaðar, en hvað ef þetta gullna tækifæri var í raun lífshættuleg gildra?
Myndavél eða sögumannsrödd?
Sögumaður er alvitur og flakkar á milli þeirra persóna sem honum hentar. Mest er fylgst með hugsunum Magneu, Óðins sjálfs og Stefáns lögreglustjóra á Suðurnesjum. Venjulega færi í taugarnar á mér hvernig flakkað er á milli án þess að hafa skýr skil milli kafla eða síðna, en höfundi ferst þetta vel úr hendi svo lesandi fær alltaf að vita aðeins meira en allar persónurnar og vel er haldið utan um hver veit hvað og hvers vegna. Þannig er þriðju persónu frásögnin svolítið eins og að horfa á bíómynd fremur en að lesa hefðbundna bók, þar sem „myndavélin“ fylgir hasarnum hverju sinni fremur en aðeins einu sjónarhorni. Með þessum stíl tekst höfundi að sleppa við málalengingar sem stundum verða glæpasagnahöfundum fjötur um fót þegar rammanum er fylgt eftir bókinni, og á hann lof skilið fyrir.
Persónusköpun og smá nöldur
Óðinn er sannfærandi á sinn hátt í hlutverki leiðtoga sértrúarsafnaðar, hann hefur persónutöfra og hæfileika og hrífur alla með sér, hvort sem þeir vita betur eða ekki, og finnst mér það skemmtilegt. Þá er ljóst að höfundur hefur kynnt sér Jonestown, Waco og fleiri raunverulega sértrúarsöfnuði og lögregluaðgerðir gegn þeim og nýtir það vel í sögunni. Aðalpersónan okkar, hún Magnea, er ekki einhliða, ekki hetja eða ræfill, heldur virkar hún mjög raunsönn. Þegar kemur að aukapersónum er persónusköpunin kannski ekki að fara að fá verðlaun fyrir frumleika, þó eru persónur eins og Hildur mjög vel skrifaðar og vel gerðar, og höfundur er duglegur að falla ekki í augljósar gildrur eins og að gefa fólki persónuleika og útlit í stíl. Þór er sannfærandi í sínu hlutverki, sem maður sem hafði glatað öllu og svo látið glepjast af költhugmyndafræði, og lögreglufólkið marglaga. Mér fannst Yngvar, samblaðamaður Magneu alveg óþolandi, og ég er meðvituð um að hann er skrifaður til þess að vera óþolandi, en má aumingja maðurinn ekki hafa einn kost? Bara einn lítinn? Nei, hann þarf að vera illa lyktandi, illa klæddur, illa greiddur og með skelfilegan persónuleika. Sem er svo sem allt í lagi, það er kannski bara ekki meira en guð gaf, en þarf ættarnafnið hans að vera Renfield í þokkabót? Slökum aðeins á.
Annað sem truflar mig eru gervinöfn á raunverulegum hlutum, eins og dagblaðið Morgundagurinn en ekki Morgunblaðið og fleiri svoleiðis smábreytingar. Það er samt ekki hægt að kalla það galla, það er bara stílbragð, og það vill svo til að mér finnst það persónulega pirrandi, og fremur flækja fyrir en greiða um framgang.
Hvar er tilnefningin?
Þrátt fyrir þetta smákvart má segja með sanni að bókin beri af í hópi íslenskra spennusagna. Nálgunin er ný og fersk, framvindan hröð en þó er að engu farið óðslega, spennan magnast mjög jafnt upp og engar lægðir eru í frásögninni. Það að láta atburðarásina gerast á stuttum tíma er gott stílbragð og vel nýtt, og það að sleppa einræðum og innri mónólógum greiðir mjög fyrir framgangi en tekur ekki frá innlifuninni. Ég er eiginlega hissa að bókin hafi ekki hlotið tilnefningu til Blóðdropans í ár þar sem hún er virkilega vel skrifuð og vel unnin, metnaðarfull og hlaðin frásagnargleði, byggð á rannsóknarvinnu og mjög góð afþreying.
Ég er samt mjög sár að í bók með ásatrúarkölt þar sem allir taka upp goðanöfn sé ENGIN Sjöfn. Þvílík vanvirðing við annars gott og gilt nafn úr heiðnum sið.






