Skotheld höfundarrödd

7. janúar 2026

Það er alltaf spennandi að lesa fyrstu skáldsögu nýs höfundar. Ester Hilmarsdóttir gaf út bókina Sjáandi rétt fyrir jól en áður hefur hún gefið út ljóðabókina Fegurðin í flæðinu sem hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Bókin er einstaklega fallega hönnuð, sveigðar línur á kápunni, sem vísa til árinnar mikilvægu sem kemur fyrir í bókinni, eru gylltar og grípa augað. Enda fékk kápan Bóksalaverðlaunin fyrir bestu bókarkápuna árið 2025. Myndin hér til hliðar gerir henni alls ekki nógu góð skil.

Skondið sveitalíf

Sagan er sögð í þriðju persónu, ræður alvitur sögumaður ríkjum og flakkar á milli sjónarhorna. Það er þó drengurinn Dofri sem gegnir hlutverki meginsögumanns í gegnum verkið. Það er skondið að fylgjast með lífinu í sveitinni í gegnum saklaus og ung augu hans en hann er uppfullur af lífi, þráir að baka kökur frekar en að streða á túnum úti og nýtur sín þegar kerlingarnar í sveitinni sitja og slúðra við eldhúsborðið. Hinn töfrandi sjáandi Gyða er svo önnur meginpersóna, það falla nánast allir fyrir persónutöfrum hennar og góðvild. Húsbóndinn á sveitabænum er Valtýr og konan hans Gerður. Á bænum eru einnig Langa-Lína, heimasætan Krúsa og vinnumennirnir Lommi og Haukur. Svo er það nágrannakona þeirra, Valgerður, sem kemur töluvert við sögu en hún er á barmi taugaáfalls við að sjá um átta stykki af börnum. 

Hæðni og harmur

Helsti kostur sögunnar er stíllinn, rödd textans. Ester er með skothelda höfundarrödd þrátt fyrir að þetta sé hennar fyrsta bók. Hún er launfyndin og hæðin en harmurinn og sársaukinn eru skammt undan og er þessu öllu svo blandað saman á mjög fínlegan hátt. Það er leikur í textanum, orðagleði og ferskleiki. Svo verð ég að nefna persónugalleríið, það var alveg yndislegt. Öll eru þau breysk og flest kjaftfor og kraftmikil. Það eru margar litlar örlagasögur sem dvelja í þessari skáldsögu, saga hverrar persónu og misvel heppnuð samskipti þeirra. Stóra sagan er þó uppreisn bændanna gagnvart auðvaldinu sem vill byggja virkjun í friðsæla dalnum þeirra og rústa ánni fallegu sem þeim öllum finnst þau eiga hlut í. Það er skondið að fylgjast með þessu öllu en manni svíður í hjartað við sumar uppákomur sem ég fer ekki að tíunda hér. Það er margt sem kemur á lesandanum á óvart, það er ekki allt sem sýnist í fyrstu, þannig lesendur geta verið spenntir fyrir frásögninni.

 

Ég var einstaklega ánægð með þessa skáldsögu, ég var sérstaklega hrifin af þeim Dofra og Gyðu, en ég fann einstaklega til með nágrannakonunni Þorgerði líka. Ester skrifar af færni þrátt fyrir að vera ný á ritvellinum og er hæfileikaríkur sögumaður. Ég verð að falla í gildru klisjunnar og segja að ég sé mjög spennt fyrir næstu bók höfundar. Þetta upphaf á ritferlinum lofar virkilega góðu.

Lestu þetta næst

Fortíðin sækir á

Fortíðin sækir á

Nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur, Syndafall, er sjálfstæð spennusaga. Bókin er styttri en margar...