Fræðibókin Kvíðakynslóðin eftir Jonathan Haidt er nauðsynleg innsýn og íhugun fyrir flest okkar. Í það minnsta myndi ég segja að allir sem eru foreldrar, allir sem eru í sveitastjórnum og ríkisstjórn og allir skólastjórnendur ættu og jafnvel þurfa að lesa þessa bók. Jonathan Haidt er félagssálfræðingur en hann hefur rannsakað geðheilsu barna og ungmenna með tillti til félagslegra þarfa þeirra og þroska. Í þessari bók sinni setur hann vangaveltur og athuganir um samfélagsmiðla og tækninotkun í samhengi við fyrri tíma, rannsóknir og tölfræði síðustu ára. Í þeim athugunum sér hann og sýnir lesendum aukningu á kvíðaröskunum og þunglyndis meðal barna og ungmenna.
„Hér er á ferðinni ekkert léttvægt efni, en höfundurinn nær samt sem áður að segja frá á mjög auðskildan og lifandi hátt. Það gerir hann með ýmsum dæmisögum meðal annars. Lesturinn er þó þungur á þann hátt að niðurstöðurnar eru frekar sláandi og það er mikill þungi heimsins sem fellur á mann við lesturinn. En auðvitað er mikilvægt fyrir okkur öll að vinna saman að bættu samfélagi og félagslegri velsæld fyrir öll og þá sérstaklega börnin okkar, sem munu jú erfa samfélagið.
Of sár raunveruleiki til að horfast í augu við hann?
Ég veit ekki hvort þetta sé of mikil svartsýni hjá honum, í raun segir öll tölfræði sem hann bendir á að það sé eitthvað þarna sem þurfi í það minnsta að íhuga og skoða. Það sem mér finnst svo frábært hjá honum er að hann kemur sjálfur með öll möguleg og ómöguleg mótrök sem hafa poppað upp í gegnum tíðina og svarar þeim með mjög skynsamlegum hætti. Það er því vert að lesa þessa bók og jú mögulega er hægt að rökræða við hana reglulega á meðan á lestrinum stendur en ég get ekki séð annað en að það sé hollt fyrir hvern mann.
Kvíðakynslóðin fer inn á geðheilsu ungmenna og barna og sérstaklega þeirra sem eru af kynslóð sem að ólst upp í óvaktaðri og ómeðvitaðri samfélagsmiðlanotkun þegar að samfélagsmiðlar á borð við Instagram og Tiktok voru að ryðja sér til rúms, og hvernig sú kynslóð hefur séð þróun á hrakandi geðheilsu sinni og aukningu á kvíða, einmanaleika og þunglyndi. Höfundur talar mikið um þróun frá árinu 2015. Bókin fer einnig inn á þá þróun sem hefur orðið í því hvernig foreldrar hafa farið í það að ofvernda börn sín í raunheimum en vanvernda í sýndarheimum og hvaða áhrif það hefur á heilaþroska barna.
Fleiri nálganir – en þessi bók mikilvæg í flóruna
Það eru auðvitað til fleiri nálganir en Haidt kynnir í bók sinni á þetta málefni sem samfélagsmiðlanotkun ungmenna og barna er. Það er líka til einhver nálgun sem kallast Gullbráar-kenningin eða Goldilock-theory sem er notuð við ýmsar umræður tengdar líkamlegri og andlegri heilsu. Í þeirri kenningu er meðalhófið talið besti kosturinn og í raun sagt að allar öfgar séu slæmar. Ef hún er sett í samhengi við samfélagsmiðlanotkun barna að þá í raun segir hún að það sé ekki endilega best að taka alla samfélagsmiðlanotkun af börnum og frekar þurfi eitthvert gullið meðalhóf.
Skýr skilaboð – skýr rök
Ég er kannski komin í einhvern Jonathan Haidt bergmálshelli en við lesturinn á Kvíðakynslóðinni þá sé ég ekki endilega hvernig hægt er að kenna börnum meðalhóf þegar við kunnum það oft og tíðum varla sjálf. Hvernig er hægt að vera í meðalhófi ef allt okkar líf og allt félagslífið er orðið innlimað og greypt inn í samfélagsmiðlanotkun? Hvernig er hægt að láta börnmeð ómótaðan framheila berjast gegn þeim áhrifum sem að samfélagsmiðlar hafa í för með sér? Jonathan listar niður þá mikilvægu þætti sem þarf að hrinda í framkvæmd til þess að breyta þessari þróun sem hefur orðið í þessum hraða tæknivexti. Þeir þættir eru:
1. Engir snjallsímar fyrr en á unglingastigi grunnskóla.
2. Engir samfélagsmiðlar fyrir 16 ára aldur.
3. Símalausir skólar.
4. Miklu meiri eftirlitslaus leikur og sjálfstæði í barnæsku.
Hann fer nánar inn á alla þessa þætti í gegnum bókina og sérstaklega þótti mér áhugavert að lesa um kaflann sem fjallar um eftirlitslausan leik í raunheimum. Ég fann það sjálf að ofverndunartilfinning mín sem móðir er orðin rosaleg, og ég hugsaði reglulega með lestrinum aftur til baka til eigin barnæsku og þess frelsis sem ég naut þá. Hann svarar einnig þeim algengu mótrökum sem snúa að því að samfélagsmiðlanotkun ungmenna í dag geti nú ekki verið slæm þar sem að aldamótakynslóðin frá 1990-1999 hafi sömuleiðis verið iðin við heimilistölvuna, oft löngum stundum eftir skóla á spjallþráðum, misgáfulegum heimasíðum og í tölvuleikjum. Rökin hans eru þau að það hafi í grunninn ekki verið sama áreiti fyrir hugann og félagslíf þar sem að sú kynslóð var þó allavega frjáls undan símiðlun og tölvum á meðan á skóladeginum stóð og í tómstundaiðkun og útiveru.
Býður upp á lausnir
En Jonathan er ekki einungis með bölsýni í þessari bók sinni heldur býður hann upp á lausnir og hann er meðal annars með sérstaka kafla fyrir foreldra og sérstakan kafla fyrir skólastjórnendur. Í kaflanum fyrir foreldra skiptir hann ráðunum meira segja eftir aldri barnanna. Þannig að í raun það eina sem við þurfum er sameiningarkraftur, sannfæring um að of mikil samfélagsmiðlanotkun geti verið skaðleg andlegri heilsu, trú á eigin getu og sjálfsöryggi í að fylgja eftir eigin sannfæringu. Ég get allavega sagt að lestur bókarinnar gaf mér aukið sjálfsöryggi og verkfæri til að styðjast við. Við verðum að vinna saman í þessu, hvort sem við reynum að vinna að meðalhófinu eða förum alla leið að ráðum hans Haidt. Auðvitað er það erfitt þegar efasemdarraddir heyrast í sífellu – efasemdaraddir á borð við að það þýði ekkert að hafa símalausa skóla því krakkarnir fari „þá bara af skólalóðinni eða heim og að félagsmiðstöðvarnar standi þá tómar“. Þetta mun auðvitað taka tíma að aðlaga og auðvitað aðlagast þau ekki ef við, hin fullorðnu, stöndum ekki föst á að breyta hlutunum. Haidt fer einmitt inn á þann þátt líka! Og ef það er meðalhófið sem við viljum frekar þá sé ég ekki afhverju símabann í skólum sé ekki ráðlegast til að byrja með svo að börn fái allavega að upplifa báða heima, fái frið einhvern hluta dagsins. Börn og ungmenni eru auðvitað þannig gerð að þau sækjast í samþykki jafningja sinna og ef það eru einhver sem eiga foreldra sem vilja enga samfélagsmiðlanotkun fyrir 16 ára aldur að þá getur það reynst þeim börnum erfitt ef allir jafningjar þeirra eru stöðugt með athyglina á skjánum.
Horfum í eigin barm og vinnum saman
Þarna skiptir einnig máli að horfa í eigin barm og ég tala allavega fyrir mig að ég er alveg sannfærð um boðskap bókarinnar því að ég sjálf finn að andleg heilsa mín hrakar ef ég eyði of miklum tíma í símanum. Er það ekki þannig hjá okkur flestum? Hvernig ætli það sé hjá þá ó-fullmótuðum heila? Það er líka bara ótrúlega rökrétt þegar maður les það að athygli foreldra er minna á börnum þegar foreldrið er stöðugt að skoða símaskjá – og lesa svo í kjölfarið að slík aftenging við umhverfið og við barnið sjálft er ekki endilega gott fyrir barnið eða samband barns við foreldrið. Þetta er meðal annars eitt af því sem Kvíðakynslóðin fer inn á.
Ég nefni líka aftur öll mótrökin sem Haidt fer inn á en mér finnst hann ná mjög góðri yfirferð yfir þetta allt saman. Það hafa komið upp alls kyns vangaveltur þegar talið berst að minni samfélagsmiðlanotkun barna. Meðal annars velta margir fyrir sér hvort að samfélagsmiðlar séu ekki góðir fyrir jaðarsetta hópa vegna þess að miðlarnir geta aukið við fyrirmyndir og birtingamyndir – en eins og ég segi, hann er með nánast svar við öllum vangaveltum og mótrökum. Haidt er í raun að líta á heildarmyndina – hann er ekki að segja að allt inni á samfélagsmiðlum sé slæmt heldur frekar að kjarnavirkni þeirra og svo of mikil notkun á þeim hefur og mun hafa ýmsar afleiðingar í för með sér.
Ég segi því, ekki láta nægja að lesa mínar vangaveltur út frá þessum lestri mínum á bókinni, farið öll og lesið Kvíðakynslóðina og myndið ykkur sjálf skoðun eftir það. Ég eiginlega mæli sterklega með því. Haidt er alveg mun betri í að útskýra þetta heldur en ég get nokkurn tímann gert og hann gerir það með mjög skilmerkilegum og auðlesnum hætti.

