Kapítóla: 19. aldar feminískur fjörkálfur

Fjörkálfurinn Kapítóla fetar ótroðnar feminískar slóðir á vegferð sinni um lífið.

Sagan Kapítóla eftir Emmu D.E.N. Southworth byrjar í Fellibyljahöll þar sem Ira Warfield Major, eða Fellibylur gamli eins og hann er jafnan kallaður, situr við arineldinn og skammar Wool, þjóninn sinn, og lætur öllum illum látum. Geðillskan er hreinlega að fara með manninn og lesanda er strax gert ljóst að það er engin tilviljun að maðurinn gengur undir nafninu Fellibylur. Úti geisar hryllilegt veður. Síðan er bankað á hurðina. Betri verður byrjun á bók varla verð ég að segja fyrir minn smekk og naut ég hverrar blaðsíðu af Kapítólu.

Bókin var fyrst gefin út árið 1859 og þá sem framhaldssaga undir nafninu The Hidden Hand: Capitola The Madcap. Sagan varð feykilega vinsæl og ekki er nokkurn að undra enda er hún spennandi frá fyrstu blaðsíðu. Forlagið endurútgaf síðan bókina í ár og sá Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntarýnir, um útgáfuna. Í viðtali við Fréttablaðið lýsir Silja því hvernig hún kom að útgáfunni og ákvað að bæta við íslensku þýðingu Eggerts Jóhannssonar nokkrum ómissandi hlutum sem hún sá að vantaði í upprunalegu þýðingu verksins enda sú þýðing orðin meira en 100 ára.

Götudrengurinn Kapítóla

Sagan fjallar að megninu til um stúlkuna Kapítólu sem neitar að falla inn í hið heftandi kvenform 19. aldar. Hún brýtur allar reglur og brúkar kjaft við hvern þann sem dirfist að standa í vegi hennar og markmiða hennar. Barátta hins góða og illa er í forgrunni en jafnvel hinir verstu sýna fram á það að skilin milli góðs og ills eru ekki alltaf svarthvít. Í sögunni sjáum við líka skemmtilegt samband hennar við Fellibyl gamla sem tekur Kapítólu inn á heimili sitt eftir að hafa leitað hana uppi í New York þar sem hún hafði dulbúið sig sem götudreng til að verjast kjafti og klóm borgarbúa. Gerir hann Kapítólu að einkaerfingja sínum og reynir hvað hann getur að ala hana upp eins og sannri dömu sæmir.

Saga Kapítólu er margslungin og vindur upp á sig í hverjum kafla. Alltaf þegar lesandi telur sig vera kominn með á hreint hvaða konu Kapítóla hefur að geyma þá snýr hún sér í þrefaldan hring og brýtur enn fleiri múra feðraveldisins. Persónan er ákaflega feminísk og í rauninni ein af þeim fyrstu sem konur gátu litið upp til í þeim efnum. Þess má geta að vinsældir bókarinnar voru slíkar að nafnið Kapítóla varð vinsælt nafn hér á landi sem og víðar.

Raunsæ með ævintýralegum blæ

Bókin er ekki bara gífurlega spennandi heldur falleg og raunsæ þótt að persónusköpunin sé ævintýraleg. Hún lýsir margbreytileika samfélags sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, ekki svo ólíkt okkar eigin. Fólkið er breyskt og mennskan er áþreifanleg. Hjá þeim öllum. Persónusköpunin er sannfærandi og lýsingarnar eru nákvæmar. Bókin er fremur löng aflestrar en samt sem áður færist lesandinn eins og í leiðslu í gegnum blaðsíðurnar og fyrr en varir er lesandinn kominn að síðustu efnisgreininni. Ég mun lesa sögu Kapítólu aftur í náinni framtíð enda er hún góð fyrirmynd og sýnir manni að ef viljinn er fyrir hendi, þá getur ekkert stoppað mann.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...