Langelstur í leikhúsinu

Barnaleikritið Langelstur að eilífu var frumsýnt í lok febrúar og sýningar standa fram í maí. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar. Leikritið er byggt á verðlaunabókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur, Langelstur í bekknum, Langelstur í leynifélaginu og Langelstur að eilífu, en síðastnefnda bókin hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka árið 2019. Björk Jakobsdóttir sá um leikgerðina og Lestrarklefinn sendi henni nokkrar spurningar til að forvitnast um það hvernig hefði gengið að aðlaga bækurnar að sviði og hvaða áskorunum hún stóð frammi fyrir.

„BESTI! Dagur í heimi“

Bergrún Íris Sævarsdóttir, höfundur bókanna, Björk Jakobsdóttir, höfundur leikgerðar og leikstjóri og Máni Svavarsson, höfundur tónlistar.

Sagan sem sögð er í bókunum þremur er ansi mikil og djúp. Þar glímir Eyja við miklar áhyggjur og það skiptast á skin og skúrir og þar er meira að segja sögð saga lífs og dauða. Það hlýtur því að hafa verið ákveðin áskorun að koma þremur bókum með mikilli sögu fyrir í einu leikverki? „Ég ákvað að vinna með fyrstu bókina fyrir hlé til að kynna vinskapinn til sögunnar og vinna svo með þriðju bók eftir hlé,“ segir Björk. Önnur bókin kemur því lítið við sögu í sýningunni. Björk viðurkennir þó að það hafi verið svolítil áskorun að koma öllu fyrir í sýningunni. „Það þarf að ná að kynna vinskapinn og svo ferðalagið sem þau tvö fara í saman áður en að kemur að lokum… við förum ekkert nánar út í það hér. Þar spila lögin góða rullu og hjálpa okkur með framvindu og sögu.“ Undirrituð hefur séð sýninguna og getur vottað að lögin drífa söguna áfram og eru miklir eyrnaormar. Má þar nefna lagið „Besti dagur í heimi“ sem hefur verið sönglað mikið eftir sýninguna.

Tónlistin leikur því stórt hlutverk í sýningunni. Lögin eru skemmtileg og grípandi. „Í fyrstu leikgerð skrifa ég leikgerð eins og bækurnar blása mér í brjóst og set inn möguleika á lögum þar sem ég heyri þau fyrir mér og íhuga hvaða sögu við segjum í lögunum. Lagatextarnir koma svo aðeins seinna,“ segir Björk. „Næst réði ég Mána Svavars tónlistarhöfund og við byrjuðum að kasta á milli okkar hugmyndum.“ Leikgerðin hélt svo áfram að þróast eftir að leikarar voru komnir í hlutverkin. „Þá byrjuðum við að vinna með leikgerðina út á gólfi með leikurum. Í því ferli þróaðist leikgerðin og þroskaðist með leikhóp og listrænum aðstandendum. Það er gríðarlega mikilvægt að leyfa nýjum leikgerðum að þróast á æfingaferlinu og við styttum, breyttum og bættum alveg fram að frumsýningu.“

Börn, áskoranir og nýir atvinnuleikarar

Sýninginn fór ekki varhluta af heimsfaraldrinum og þurfti leikarahópurinn að glíma við það sem Björk kallar „Covid-vesen“, sem við þekkjum öll of vel. Frumsýningin var svo á fyrsta degi eftir fulla afléttingu samkomutakmarkana og það mátti finna á andrúmsloftinu þegar komið var á frumsýninguna. Æfingar gengu ævinlega vel fyrir sig, þrátt fyrir að sýningin væri þróuð í gegnum samkomutakmarkanir. „Það hefur alveg tekið á að kenna tólf ungum börnum að leika, syngja og dansa, en guð hvað ég er ánægð með þau öll í dag. Fullorðnu leikararnir Siggi Sigurjóns, Júlíana Sara og Ásgrímur Geir hafa verið ómetanleg aðstoð í þessu ferli og svo var ég með besta aðstoðarleikstjóra í heimi, hana Diljá mína, með mér.“ Siggi Sigurjóns leikur Rögnvald og á undirrituð erfitt með að sjá nokkurn annan leikara fyrir sér í hlutverki hans núna. „Það var mesti happdrættisvinningur þessarar sýningar að fá Sigga til að leika Rögnvald. Ekki bara er hann einn besta leikari þjóðarinnar á þessum aldri með djúpa einlægni og gott næmi fyrir kómík. Hann er líka bara svo yndislegur í samstarfi. Hann var ótrúlegur í samleik með börnunum og sýndi sanna ástríðu fyrir verkefninu frá fyrsta degi.“

Aðspurð um hvernig það sé að leikstýra tólf börnum, þótt aðeins standi sex á sviði í hvert sinn, segir Björk það vera krefjandi en geggjað. „Ég hef unnið töluvert með börnum og ungmennum og mín reynsla er sú að þau geta oft miklu meira en við höldum.“ Það að setja kröfur á börn sé ekki slæmt. „Ég finn að börn og unmenni vilja fá kröfur og vaxa ótrúlega og þroskast ef maður treystir þeim. Þau finna svo sannarlega muninn á því að sannarlega standa sig eða fá endalaust innihaldslaust hrós.“ Í sýningunni myndast einstakt vinasamband milli Rögnvaldar og Eyju, en það má þó sjá glitta í raunverulega vináttu og tengsl milli leikaranna sjálfra. Náin samvinna leiðir oftar en ekki til vináttu. Björk segir að allir sem standa að sýningunni gangi frá henni með eitthvað gott. „Það sem stendur upp úr hjá mér eru nýju fósturbörnin mín tólf og hvað þau stóðu sig frábærlega og að fá að fylgjast með þeim ná tökum á leiklistinni. Það var dásamlegt að fylgjast með þeim mynda vinskap fyrir lífstíð, styðja hvert annað og hvetja.“ Hún hafi horft á krakkana blómstra á sviðinu. „Það hefur verið magnað að sjá þessi litlu kríli negla orku, hlustun og fókus á sviði. Nú eru þau orðin eins og litlir atvinnumenn. Þau spinna og koma með tilboð í leik, syngja og dansa og eru sko óhrædd að leiðrétta fullorðnu leikarana þegar að þau eru að gera einhverjar „B-vítamíns vitleysur“.“

Lestrarklefinn mælir heilshugar með sýningunni sem er sýnd í Gaflaraleikhúsinu.

 

Höfundur tónlistar og tónlistarstjórn: Máni Svavarsson

Ljós og Leikmynd: Friðþjófur Þorsteinsson,

Bergrún Íris Sævarsdóttir og Björk Jakobsdóttir

Söngtextar: Bergrún Íris Sævarsdóttir, Björk Jakobsdóttir

og Máni Svavarsson

Grafík: Bergrún Íris Sævarsdóttir

Danshöfundur og sviðshreyfingar: Chantelle Carey

Söngstjóri: Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir

Leikarar:

Siggi Sigurjóns,

Júlíana Sara Gunnarsdóttir, Ásgrímur Geir Logason

Nína Sólrún Tamimi – Iðunn Eldey Stefánsdóttir

Hildur María Reynisdóttir – Rafney Birna Guðmundsdóttir

Árni Magnússon – Stormur Björnsson

Rebecca Liv Biraghi – Helga Karen Aðalsteinsdóttir

Kolbrún Helga Friðriksdóttir – Oktavía Gunnarsdóttir

Steinar Thor Stefánsson – Tómas Bjartur Skúliníusson

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...