Barnabók sem fjallar um dauðann

Mjög líklega hefur síðasti kaflinn í Langelstur-bókum Bergrúnar Írisar verið skráður með Langelstur að eilífu. Bækurnar hafa heillað lesendur, unga sem aldna síðustu ár og ævintýri Eyju og Rögnvaldar skemmt mörgum. Ég kveð Rögnvald og Eyju með söknuði.

Í Langelstur að eilífu finnur Rögnvaldur, sem er 97 ára gamall, að það styttist í annan endann hjá honum. Eyju líkar ekki vel við tilhugsunina um að missa besta vin sinn og á erfitt með að takast á við allar tilfinningarnar sem koma eins og alda yfir hana. Saman búa Eyja og Rögnvaldur til lokalista fyrir Rögnvald svo hann geti klárað allt sem hann átti eftir að gera í lífinu. Á listann rata atriði eins og bíóferð, að hoppa á trampólíni, renna sér í “vatnrennibraut”, fara í fallhlífastökk og fara í sveitaferð. Sérstaklega þótti okkur mæðginum spaugilegt þegar Eyja og Rögnvaldur fóru saman í vatnsrennibrautina!

Tilfinningarússíbaninn

Fjölmörg atriði á listanum leiða til spaugilegra uppákoma og húmorinn er aldrei langt undan. En grínið er ekki aðalatriðið í þessari næmu og fallegu bók, heldur dauðinn og tilfinningar sem hver og einn upplifir í kringum hann. Eyja er kvíðin, hrædd, leið, glöð og sorgmædd. Bergrún nálgast þetta erfiða viðfangsefni af næmni, hreinskilni og  virðingu fyrir lesendum sínum.

Það er ekki auðvelt að missa einhvern sér nákominn. En það gerist og dauðinn er eins eðlilegur í lífi hvers og eins, rétt eins og það að maður hafi fæðst. Bergrún tekur á öllum lífshringnum í Langelstur að eilífu, gleðinni og sorginni sem við upplifum öll á lífsleiðinni. Og hún gerir það á hlýjan og nærgætinn hátt.

Flest börn taka sennilega ekki eftir skilaboðunum í bókinni, ekki eins og fullorðinn lesandi myndi skilja bókina. Og það er nokkuð sem Bergrún er góð í að gera, setja falleg skilaboð í bækurnar sem krakkarnir taka kannski með sér í undirmeðvitundinni.

Lestu þetta næst

Litskrúðug gleðisprengja

Litskrúðug gleðisprengja

Söngleikurinn Fíasól gefst aldrei upp var frumsýndur laugardaginn 2 desember í Borgarleikhúsinu....

Köld slóð

Köld slóð

Eva Björg Ægisdóttir sigraði Svartfuglinn með glæpasögu sinni Marrið í stiganum árið 2018 og hefur...