Það er kominn miður desember og þeir sem á annað borð hafa áhuga á bókum tala ekki um neitt annað en jólabækurnar, nýju bækurnar. Allir vilja fá að vita hvaða bók sé skemmtileg, hvaða bók eigi þann heiður skilinn að sitja með manni á náttfötunum í jólafríinu, í slagtogi við annað jólagott eins og mandarínur, konfekt og afgangamat. Svo ekki sé minnst á alla rithöfundana, nýja jafnt sem þaulreynda, sem þyrstir í einhvers konar umfjöllun, hvað sem er. Því mér er sagt að þetta séu svo mikið sem sterkustu bókajól í heil tólf ár! Og þó að það sé frábært og gaman að vera lesandi akkúrat núna, þá er það víst óhjákvæmilegt að margar góðar bækur munu týnast í flóðinu og ekki rata til sinna. Þess vegna líður mér eins og ég sé hálfvegis að svíkja lit með því að setjast niður og skrifa um bók sem er, guð hjálpi þér, frá því í fyrra. Svo gott sem eldgömul. En, eins og Katrín hefur áður bent á hér á síðunni, þá er það skemmtilega við leshringi að þeir fá mann til að lesa bækur sem annars hefðu ekki dottið í hendurnar á manni.
Leshringurinn sem ég er í er starfræktur í félagsmiðstöð í Reykjavík. Þegar hann var upphaflega stofnaður fyrir allnokkrum árum, þá var fyrirkomulagið þannig að nemar úr bókmenntafræði mættu og leiddu umræður, til að dýpka þær og auðga. En svo liðu árin og einhvern veginn æxlaðist það svo að vesalings leshringurinn dagaði uppi með mig. Ég reyni yfirleitt að breiða yfir grunnt bókmenntalegt innsæi mitt með uppskrúfuðu orðfæri og nokkrum fimmaurabröndurum. Yfirleitt veljum við eldri bækur svo allir geti náð í þær á bókasafni og nú síðast lásum við sögulegu skáldsöguna Í skugga drottins eftir Bjarna Harðarson. Og það skal ég sko segja ykkur að þessi bók er sjóðheit á öllum bókasöfnum höfuðborgarsvæðisins, og það þó víðar væri leitað. Ég neyddist á endanum til að kaupa hana og las á allra síðustu stundu, til að bæta ekki algerri vanþekkingu ofan á hið grunna bókmenntalega innsæi sem ég er vön að bjóða upp á. Einungis fimm mættu, þar af hafði einni (í leshringnum eru einungis konur) ekki tekist að ná í bókina. Þrjár höfðu fengið bókina svo seint að þær náðu varla að byrja á henni, og þó hafði lestrinum verið frestað um tvær vikur vegna þess hve erfitt reyndist að útvega verkið. Sú eina sem náði að klára hefur aðgang að hljóðbókum blindrabókasafnsins, sem eru víst nokkuð óþrjótandi. Hvað veldur þessum miklu vinsældum, kunnið þið að spyrja? Jú, Bjarni var að gefa út sjálfstætt framhald. Svo þegar allt kemur til alls, þá er þetta blogg kannski að einhverju leyti ekki með öllu ótengt jólabókaflóðinu.
Í skugga drottins er sem fyrr segir söguleg skáldsaga. Hún gerist á 18. öld (einnig þekkt sem sautjánhundruðogsúrkál) og segir frá leiguliðum biskupssetursins í Skálholti. Fátæku fólki. Aðalsöguhetjan er María, ung stúlka af Álftanesi sem sjálf kemur úr sárri fátækt. Hún er nýflutt í nágrenni Skálholts í upphafi bókar, hafði fallið fyrir svo fallegum manni sem kom á Álftanes í árstíðabundinn róður. Henni til mikillar undrunar efnir maðurinn fögur loforð sín og giftist henni. Þar með er hún orðin húsfreyja á kotbýli í Biskupstungum, sem íbúar uppnefna sjálfir Sultartungur. Ekki hafði Maríu grunað hversu erfitt það væri að leigja jörð af útsendurum drottins, sem leggja harðar kvaðir á leiguliðana. Í bókinni er sagt frá lífi Maríu með hléum næstu tíu árin. Alltaf þegar gæfa þeirra hjóna er sem mest þá gerist eitthvað hræðilegt, og öfugt, svo lesandinn þorir aldrei annað en að búast við hinu versta. Þetta er átakamikil saga og sorgleg og ég var nokkuð niðurdregin og leið eftir að hafa lesið hana. Ekki að það sé slæmt, bókin náði að hreyfa við mér og vel það.
Ég er hrifin af bókum með óvenjulegt sögusvið, og mér finnst að Skálholt á 18. öld teljist sem slíkt. Auðvitað er hægt að fjalla um efnið á mjög fyrirsjáanlegan hátt og til að byrja með var ég efins um að Bjarna tækist að brjótast út úr gildrum klisjunnar. Það hafa jú verið sagðar ófáar sögur af erfiðu lífi sárafátækra Íslendinga fyrr á öldum. Þetta tímabil kallar líka óhjákvæmilega á samanburð við Halldór Laxness, ekki síst Íslandsklukkuna. Við í leshringnum vorum nú sammála um það að sá samanburður væri Bjarna augljóslega ekki í vil. Orðalag í bókinni er til dæmis víða mjög fornt og tyrfið. Oft skildi ég bara ekki fínni blæbrigði í söguþræði eða samræðum út af því. Leshringurinn tók undir þetta og ég vil taka fram að sumir meðlimir eru á níræðisaldri, svona áður en einhver fer að fussa yfir slæmri máltilfinningu ungra Íslendinga. Það er líka eins og Bjarni sjálfur valdi ekki alveg þessum forna tón og stundum kemur nútímalegra orðalag, eða í það minnsta nútímalegri hugsun, í gegn. Við veltum því líka fyrir okkur hversu sagnfræðilega áreiðanlegt sumt í bókinni væri. Á einum stað gengur María til skrifta, rétt eins og hún væri kaþólsk, svo eitthvað sé nefnt. Ég er ekki fróð um þetta tímabil og vel getur verið að mikil heimildavinna liggi að baki sögunni, eða þá að hún hafi verið vandlega lesin yfir af sérfróðu fólki, en höfundur hefði mátt greina betur frá þeim vinkli í formála sínum.
Annar stór galli á bókinni er gnægð sögupersóna. Það er hin og þessi vinnukona og hinn og þessi bóndi, á þessum og þessum bæ, og svo eru oft notaðir mismunandi titlar yfir embættismenn, svo persónur virðast jafnvel fleiri en þær eru. Á saurblöðum bókarinnar er fallegt kort af svæðinu sem er einmitt frá 18. öld. Að því er mikil prýði en það hjálpar nákvæmlega ekki neitt, og er álíka ruglingslegt og textinn. Það hefði bæði mátt hjálpa lesandanum með einfaldara korti og heimilismannatali, en svo hefði líka alveg mátt einfalda sjálfan textann og frásagnarmátann. Það er oft flakkað á milli sögumanna, stundum jafnvel innan sama kafla, og þetta verður of mikið af því góða. Lesandinn fær nákvæmar upplýsingar um allskonar fólk sem hverfur svo tímabundið eða alveg úr sögunni auk þess sem höfundur byrjar á þráðum sem síðan liggja ekkert. Gott dæmi um þetta er nykurinn sem er áberandi í fyrstu köflunum. Ýmislegt dularfullt er gefið í skyn um hann, en svo er eins og hann hálfgleymist, í stað þess að andi hans svífi yfir allri frásögninni eins og ég hélt fyrst að væri ætlunin. Afleiðingin af öllu þessu margvíslega hringli er sú að það verður erfiðara að tengjast aðalsöguhetjunni Maríu, sem annars er áhugaverður karakter.
Sagan vinnur þó á eftir því sem á líður, og þessi eini leshringsmeðlimur sem náði að klára söguna var mér sammála um það að seinni helmingurinn væri betri. Ég verð líka að segja það að ég tek ofan af fyrir Bjarna fyrir val sitt á aðalsöguhetju. Mér finnst gaman að hann skuli ákveða að segja sögu þessa tímabils í gegnum unga stúlku en ekki einhvern Bjart í Sumarhúsum-týpu. Hlutskipti fátækra kvenna og yfirgangur og ofbeldi valdamikilla karla í þeirra garð er eins og rauður þráður í gegnum bókina. Aðalsögupersónan í framhaldsbókinni Í Gullhreppum er líka áhugaverð, hinn samkynhneigði og sérvitri prestur Þórður á Reykjavöllum, en hann er aukapersóna í Í skugga drottins. Jafnvel þó lífið leiki Maríu og fjölskyldu hennar grátt og bókin endi sorglega, þá var María engu að síður allt annað en buguð við lok bókarinnar. Miklu frekar myndi ég segja að hún hafi verið reið og mér þykir forvitnilegt hvort hún nái aftur vopnum sínum. Ég segi ekki að ég ætli að láta það í einhvern forgang að lesa næstu bók, því það er margt í jólabókaflóðinu sem höfðar meira til mín. En ég hefði samt ekkert á móti því að athuga hvernig séra Þórði gengur að lifa lífinu, eða hvort henni Maríu bregði aftur fyrir og þá hvernig henni gangi.