Fyrir rétt rúmu ári síðan gaf bókaútgáfan Sæmundur út bókina Hylurinn eftir Gróu Finnsdóttur sem er jafnframt hennar fyrsta skáldsaga.

Hylurinn er sögð vera dramatísk og spennandi saga af heillandi mannlífi, andlegum þroska, ástum og fallegri vináttu en einnig megi finna í henni myrkustu hliðar mannlífsins. Þessi umsögn aftan á bókinni gefur svo sannarlega rétta hugmynd um efni bókarinnar.

Óvenjuleg skáldsaga

Bókin skiptist í tvær sögur ef svo má segja og flakkar einnig um í tíma. Annars vegar fylgjumst við með lífi sögumannsins Snorra sem býr yfir miðilsgáfum og segir okkur frá lífi sínu í fortíð og nútíð þar sem við kynnumst hans vinum og öðrum lífsförunautum. Af þeim vinum má nefna Stefán sem er fyrrum bankamaður, núverandi hippi og svo Kolfinnu, nuddara og samstarfsfélaga Snorra. Síðan er það sagan af systkinunum Sólrúnu og Kára sem gerist að miklu leyti í fortíðinni framan af, fortíð sem sýnir æsku þeirra sem bauð uppá grimmd, sársauka og sorg.

Náttúran og hið yfirnáttúrulega

Hylurinn er óvenjuleg skáldsaga að því leyti að jú, hún fjallar um líf og örlög persónanna og er jafnframt spennusaga en það gerist ekki oft að lesin sé íslensk skáldsaga sem tvinnar inn í slíka sögu yfirnáttúruleg fyrirbæri, mikilvægi þess að tengjast náttúrunni og það að sjá jafnvel eitthvað sem ekki allir sjá. Í það minnsta ekki á þann hátt sem höfundur Hylsins gerir það. Oft er það þannig að slíkt er tvinnað inn í söguna í einhverjum æsingi og grófleika þar sem fúlir lögreglumenn koma við sögu en Snorri er íhugull, eldri maður sem segir okkur sögu sína og annarra og tvinnar þessi yfirnáttúrulegu fyrirbæri inn á svo áreynslulausan hátt. Það er allt svo eðlilegt við það sem hann upplifir og gerir. Hann fer með okkur í gegnum þau áföll sem hann og aðrar sögupersónur hafa upplifað og hann degur okkur inn  í heimspekilegar pælingar um leið. Bókin vekur með okkur samkennd með sögupersónunum ásamt forvitni yfir örlögum þeirra.

Gróa skrifar hér meðal annars um erfið málefni en hún gerir það á glimrandi hátt. Áföllum og sorgum sögupersóna lýsir hún á raunsæan hátt án þess að detta í einhverjar klisjur. Hylurinn er bók sem lesandinn má gera ráð fyrir að lesa í einum rykk og vera svolítið lúinn á sálinni eftir lesturinn, þó á góðan hátt.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...