Umbætur eru ekki nóg. Við þurfum byltingu

Bókakápa Why women are poorer than men

Árið 1971 hélt bandaríska jafnréttisbaráttukonan Gloria Steinem ræðu í tilefni af stofnun grasrótarsamtaka á sviði jafnréttismála þar í landi. Hún talaði um hvernig kyn og kynþættir hafi lengi verið notaðir sem ástæða til stéttaskiptingar og afsökun til að flokka fólk í æðri og óæðri hópa. Nú væri nóg komið. “Þetta eru ekki einfaldar umbætur. Þetta er í raun bylting,” er ein þekktasta tilvísunin úr ræðunni sem kallast Address to the Women of America sem sumir hafa skilgreint sem eina af bestu ræðum 20. aldarinnar.

Þessari tilvitnun skaut ítrekað upp í kolli mínum við lestur bókarinnar Why Women Are Poorer than Men. Hún er fyrsta bók bresku blaðakonunnar Annabelle Williams sem hefur sérhæft sig í fjármálum, hagfræði og neytendamálum og ætti því að vera málefninu vel kunnug.

Höfundur ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur en hér gerir hún fínustu atlögu að því að kryfja til mergjar hvers vegna konur eru fátækari en karlmenn í öllum löndum heimsins og býður fram nokkrar tillögur að lausnum. Í bókinni er farið um víðan völl, enda ekki vanþörf á, því eins og höfundur segir þá eru konur verr settar “á öllum þeim sviðum lífsins sem hafa eitthvað með peninga að gera”.

Hið undarlega afkvæmi nýfrjálshyggju og jafnréttisbaráttu

Bókin er kaflaskipt út frá helstu málaflokkum sem ýta undir fjárhagslegt ójafnrétti kynjanna, eins og bleiki skatturinn, umönnunarhlutverkin, launaójafnrétti og staðalímyndir. Áður en höfundur fjallar um einstaka málaflokka byrjar hún á að tala almennt um fjárhagslega stöðu kvenna eins og hún er í dag og hvernig hún varð til. Sú staðreynd að konur eru verr staddar fjárhagslega en karlmenn allsstaðar í heiminum er veruleiki sem er mótaður af samfélaginu en ekki óbreytanlegur hluti af tilveru mannsins. Sá veruleiki á rætur sínar að rekja aldir aftur í tímann þegar konur voru eignir mannanna sinna og því með álíka mikil réttindi og húsgögn. Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan, allavega í hinum vestræna heimi, og kvenréttindabaráttan gengið í gegnum nokkrar bylgjur.

Sú nýjasta er það sem höfundur kallar “nýfrjálshyggju femínisma” sem varð að umtalsefni árið 2013 eftir útgáfu bókarinnar Lean In eftir Sheryl Sandberg. Höfundur talar af ástríðu um þetta undarlega afkvæmi nýfrjálshyggju og jafnréttisbaráttu, sem gengur út á að hvetja konur til að berjast á móti ójafnrétti upp á eigin spýtur án þess að krefjast kerfisbreytinga. Lykilskilaboðin eru að konur eiga að verða betri í að spila með í leiknum, frekar en að breyta leikreglunum. Sem er að mati höfundar “ein ástæða þess að það mun taka konur 257 ár að ná fjárhagslegu jafnrétti á við karla.” Þessi kafli var ofboðslega skemmtilegur aflestrar og löngun höfundar til að taka U-beygju frá nýfrjálshyggju femínisma skín svo skýrt í gegn að það er ekki hægt annað en að hrífast með henni.

Sheryl Sandberg Lean In bókakápa

Samfélagsleg viðhorf, markaðshyggja og hugrænar skynvillur

Fjármál er málaflokkur sem er konum óhagstæður frá vöggu til grafar ef marka má þær rannsóknir og tölfræðilegu gögn sem höfundur vitnar í. Vegna bleika skattsins eru leikföng ætluð fyrir stúlkur dýrari en þau sem ætluð eru fyrir drengi, tíðavörur hafa verið undarlega verðlagðar, konur bera meginábyrgð á getnaðarvörnum og vörur sem eldri borgarar nýta við daglega iðju eru dýrari fyrir konur. Rótgróin samfélagsleg viðhorf, markaðshyggja og hugrænar skynvillur eru nokkrar lykilástæður þess að konur eru fátækari en karlmenn. Dæmi um samfélagslegu viðhorfin er að þriðja vaktin, eða hugræna byrðin, fellur oft ómeðvitað á herðar kvenna. Nú í ágúst ákvað ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning á rannsókn á annarri og þriðju vaktinni, m.a. til að “fanga kynjaðan raunveruleika.” Þessu framtaki ber að fagna.

Dæmi um hugræna skynvillu sem viðheldur launaójafnrétti er þegar hvítir karlmenn fá hærri byrjunarlaun en konur eða fólk af öðrum kynþætti út frá ferilskrám, jafnvel þó þær séu nákvæmlega eins. Ég hefði viljað sjá nánari umfjöllun um slíkar skynvillur en það er bara vegna þess að mér þykja þær áhugaverðar. Ísland ber á góma í bókinni en það var gaman að sjá talað um Vigdísi Finnbogadóttur, Höllu Tómasdóttur, Möggu Pálu og Hjallastefnuna. Hér er vert að benda á umfjöllun Lestrarklefans um bókina Ósýnilegar konur sem var þýdd af Sæunni Gísladóttur.

Við þurfum að reikna dæmið upp á nýtt

Eina skiptið sem mér fannst höfundur daðra við nýfrjálshyggju feminísma var þegar hún ræddi dagvistunarmál. Að hennar mati ætti dagvistun að vera í boði fyrir foreldra frá því mjög snemma á morgnana þangað til seint á kvöldin. Svo mæðurnar geti farið að vinna. Höfundur nefnir ekki sérstaklega frá hvaða aldri dagvistun ætti að vera í boði eða hversu langt fæðingarorlofið ætti að vera. Það mikilvæga væri að gera konum kleift að fara að vinna þegar þær kjósa.

Hér á landi er umræðan komin lengra og farin að snúa meira að velferð barna. Sérfræðingar í þroska barna hafa bent á mikilvægi þess grundvallar sem er lagður með samvistum foreldra og barns fyrstu tvö æviárin fyrir framtíðar velsæld barnanna. Eins og Sæunn Kjartans ritaði í Fréttablaðið: “Við þurfum að reikna dæmið upp á nýtt”. Þetta er stórt hagsmunamál og engar konkret lausnir komnar eins og sést á því hvernig leikskólavandinn er kominn í hnút.

Eru raunverulegir sigurvegarar í óréttlátu kerfi?

Ekki er hægt að horfa framhjá því að höfundur er breskur og skrifar aðallega um breskan veruleika þó að margt í bókinni snerti flest lönd heims. En einhversstaðar þarf að afmarka viðfangsefnið. Ég efast ekki um að höfundur hefði farið létt með að skrifa yfir þúsund blaðsíðna bók með svo víðfeðman efnivið í höndunum.

Eftir lesturinn var ég hugsi yfir því hvort það væru einhverjir raunverulegir sigurvegarar í svo óréttlátu kerfi. Sem samfélag höfum við líka brugðist karlmönnum eins og sést t.d. á tölum yfir sjálfsmorðstíðni. Það hefði verið áhugavert að sjá nánari umfjöllun um að svo óréttlátt kerfi bitnar á öllum, ekki bara konum.

Þessi bók er of mikilvæg til að láta það hjá líða að þýða hana. Og mögulega bæta við sér aukakafla um stöðuna á Íslandi.

Mér fannst ég skynja einhvern byltingartón í orðum höfundar, eins og í ræðu Gloriu Steinem sem vitnað var í hér í byrjun. Hún færir sannfærandi rök fyrir því að það sé ekki einstaklinganna sjálfra að breyta hlutunum hver í sínu horni. Vandamálið er svo rótgróið að það verður ekki tæklað á einni nóttu með myllumerki eða undirskriftarlistum. Þó það geti verið ágætis byrjun. Fjárhagslegt ójafnrétti er vandamál sem krefst sameiginlegs átaks alls samfélagsins. Til að lyfta grettistaki þarf tíma, þolinmæði og styrk. Einhversstaðar þarf að byrja. Skyldulesning þessarar bókar gæti verið fyrsta skrefið.

Lestu þetta næst

Eins konar dans

Eins konar dans

Moldin heit er önnur skáldsaga Birgittu Bjargar Guðmarsdóttur en fyrir hana hlaut hún...