Að sjá hið ósýnilega

Nýverið var ég að leita mér að einhverju til að lesa í sólarlandafríinu mínu þegar ég rakst á nýútgefnu bókina Invisible Women: Exposing Data Bias in a World Designed for Men eftir Caroline Criado Perez. Þetta var ekki í líkingu við þær bækur sem mér hugnaðist helst að lesa við sundlaugarbakkann en staðreyndirnar úr bókinni sem komu fram á Amazon náðu mér strax: hitastig á hefðbundinni skrifstofu er að meðaltali fimm gráðum of kalt fyrir konur (mér er alltaf kalt í vinnunni), og meðalsnjallsími er 5,5 tommum of stór fyrir hendur kvenna (eitthvað sem ég tengi mikið við þar sem ég missi mjög oft símann úr hendinni). Áður en ég vissi af var ég búin að panta bókina og eyddi ég síðustu dögum límd við hana í þrjátíu stiga hita.

Bókin, eins og titillinn gefur til kynna, snýst um hinar fjölmörgu holur sem þarf enn að fylla upp í í gagnasöfnum heimsins með tilliti til kvenna. Hún hefur vakið mikla athygli enda sýnir hún svart á hvítu hvernig heimurinn sem konur og karlar lifa í jöfnu hlutfalli í hefur verið hannaður með karla sem mælistiku fyrir almenning. Höfundurinn telur kvenfyrirlitningu ekki rót núverandi ástands, heldur frekar hve stór hluti heimsins hefur verið hannaður án tillits til ólíkra þarfa kvenna og karla, oft án þess að konum hafi verið boðið sæti við ákvarðanaborðið. Oft standi konur frammi fyrir vandamálum í daglegu og opinberu lífi sem kynjaskipt gögn gætu varpað ljósi á.

Bókin hefur hlotið mikið lof og mælti Nicola Sturgeoun fyrsti ráðherra Skotlands sérstaklega með henni fyrir fólk sem vinnur við að setja stefnur eða við ákvarðanatöku út um allan heim. Invisible Women byggir á gríðarlegri rannsóknarvinnu og skipar heimildaskráin rúmlega fjórðung lengdar hennar.

Invisible Women sýnir að kynjuð gögn vantar á öllum sviðum í lífi fólks út um allan heim. Bókinni er skipt upp eftir því í kafla um daglegt líf, vinnustaði, hönnun, heilbrigðiskerfi, opinbert líf og hamfarir. Hún sýnir að holótt gögn geti haft mjög alvarlegar afleiðingar; sér í lagi þegar kemur að heilbrigðiskerfinu, þar sem konur deyja vegna skorts á upplýsingum um áhrif sjúkdóma og lyfja á þær.

Snjómokstur getur verið karllægur

Fyrsti kaflinn sem snýr að snjómokstri í Svíþjóð sýnir strax mikilvægi þess að setja upp kynjuð gleraugu: það getur bætt líf kvenna sem og skilað ábót í ríkiskassann. Árið 2011 fór fram kynjajafnréttis verkefni í bænum Karlskoga í Svíþjóð sem leiddi til þess að bæjarstjórnin þurfti að rýna í allar sínar stefnur með kynjuðu sjónarmiði. Einn í bæjarstjórnin taldi að snjómokstur væri nú það allra síðasta sem þyrfti að endurskoða í verkefninu, en viti menn? Hefðbundna snjómokstursleiðin hófst á stærstu umferðaræðum og lauk með mokstri á gangstéttum og hjólastígum. Þetta var hlutlaust talin besta leiðin, en hún átti að auðvelda samgöngur til og frá vinnu. En þetta þurfti einmitt að endurskoða; konur út um allan heim eru líklegri en karlar til að ganga og nota almenningssamgöngur, auk þess eru konur mun líklegri til að fylgja börnum í skólann o.s.frv. Þessi „hlutlausa“ mokstursleið reyndist því alls ekki hlutlaus því hún forgangsraðaði þörfum karla á einkabílum. Þar sem því bar enginn aukakostnaður var því ákveðið að breyta mokstursleiðinni þannig að hún skildi hefjast með rýmingu fyrir fótgangandi vegfarendur og notendur almenningssamgangna. Það kom í ljós að þetta framtak bætti ekki einungis lífsgæði kvenna á ferðinni, heldur dró úr kostnaði vegna spítalaheimsókna af hálfu vegfarenda (meirihluta þeirra voru konur) sem höfðu dottið í hálku og snjó og slasast áður en búið var að rýma ferðaleið þeirra.

Hægt er að lesa bókina í einum rykk, eða velja sér kafla til að glugga í að hverju sinni. Hvert umfjöllunarefni er líklegt til að ná mismikið til fólks eftir áhugasviði lesenda. Mér þóttu kaflarnir um vinnu sérstaklega athyglisverðir, en sá fyrsti hófst einmitt á umfjöllun um Kvennafrídaginn á Íslandi árið 1975. Kaflinn snéri bæði að launaðri og hinni ósýnilegu ólaunuðu vinnu kvenna sem felur meðal annars í sér barnagæslu, umönnun aldraðra og þrif svo eitthvað sé nefnt. Sum tölfræðin úr þessum kafla kom verulega á óvart; í Bandaríkjunum, þar sem fjölskylduvænar stefnur eru fyrirferðalitlar, hefur til dæmis atvinnuþátttaka kvenna farið minnkandi síðustu árin, sem er ólíkt því sem er að gerast í öðrum þróuðum ríkjum. Einnig var sláandi að sökum þess hve erfitt er að samtvinna vinnu og fjölskyldulíf í Bretlandi vinna 42% kvenna hlutastarf, samanborið við 11% karla, og um helmingur millistéttarkvenna í Bretlandi telja það fjárhagslega óhagstætt að snúa aftur til vinnu eftir barnsburð. Rithöfundurinn fer mjög langt í gagnrýni sinni á nútíma vinnustöðum og stefnum þeirra. Hún segir nútímavinnustaðinn ekki virka fyrir konur hvort sem um er að ræða staðsetningu hans, vinnutíma eða regluverk; vinnustaðurinn hafi verið hannaður í grunninn út frá þörfum karla og standist ekki kröfur samtímans. Vinnustaðurinn þurfi á endurhönnun að halda á öllum þessum sviðum, sem og vinnustaðamenningu, og að tölfræði um líkama kvenna og lífshlaup þurfi að vera í brennidepli við þessa endurhönnun. Launuð og ólaunuð vinna kvenna sé hornsteinn í samfélagi okkar sem og í hagkerfinu og að það sé kominn tími til að meta hana að verðleikum.

Einkennisbúningar ekki hannaðir fyrir konur

Það eru ekki óalgeng viðbrögð við bókinni að finna fyrir reiði, sjálf fann ég fyrir henni þegar ég las kaflann um „Henry Higgins Effect.“ Sá kafli rýnir í heilsufarsáhrif atvinnu á konur og hversu illa það hefur verið rannsakað, oft með skelfilegum afleiðingum. Kaflinn fjarllar einnig um hversu karllæg hönnun á búnaði sem nýttur er í störfum hefur verið fyrir mörg störf frá bændum til flugmanna. Í verstu tilfellum hafa konur látið lífið í starfi þar sem einkennisbúningurinn sem hannaður var útfrá líkama karla dugði þeim ekki. Inntak kaflans er sérstaklega viðeigandi í ljósi þess að í síðasta mánuði var fyrstu geimgöngunni með einungis konum aflýst þar sem ekki voru til nógu margir geimfarabúningar í stærðunum sem þurfti. Um var að ræða einungis tvær konur! Á endanum fékk önnur þeirra að fara í gönguna, en karlmaður þurfti að koma með henni.

Þó að Caroline Criado Perez dragi fram gögn sem geta reitt lesendur til reiði og valdið uppnámi með því að benda á hve oft er ekki hugað að konum í rannsóknum og þar af leiðandi í búnaði sem konur þurfa að nýta, lyfjunum sem þær taka og á vinnustaðnum þeirra, er þó ekki að finna uppgjafartón í lok bókarinnar. Rithöfundurinn er dugleg að benda á hvaða aðgerðir hafa virkað til þess að gera heiminn aðgengilegri fyrir bæði konur og karla. Hún nefnir rannsóknir til að hvetja konur til að sækja um störf sem sýndu fram á að notkun ákveðinna lýsingarorða í starfslýsingu gætu skipt sköpum til að hafa áhrif á að konur sóttu um. Einnig nefndi hún aðgerðir til að minnka kynjaðan launamun með því að halda skrá um ástæður launahækkana í hvert sinn og að hafa dómnefnd sem samþykki hverja hækkun, svo dæmi séu nefnd. Lokaorðin í bókinni taka svo saman megininntak bókarinnar og vandamálin sem hefur verið lýst í henni og hvernig megi breyta hlutunum. Niðurstaða Caroline Criado Perez er einföld: að það þurfi að auka hlut kvenna á öllum vígsstöðum, sérstaklega þar sem áhrifaríkar ákvarðanir eru teknar, því þær vita best hvernig megi hanna heiminn með tilliti til kvenna. Fjölmörg dæmi í bókinni eru þessu máli til stuðnings: til dæmis nefndi Sheryl Sandberg, þá óléttur fjármálastjóri Google, það við yfirmenn sína að það væri sniðugt að setja upp sér bílastæði fyrir óléttar konur; körlunum hjá Google fannst það frábær hugmynd, þeim hafði bara aldrei getað dottið þetta í hug sjálfum, enda myndu þeir sjálfir aldrei vera í þessum aðstæðum!

 

Lestu þetta næst

Ráðgátugleraugun

Ráðgátugleraugun

Í Ljósaseríunni koma út bækur sem henta börnum á yngsta og miðstigi í grunnskóla. Bækurnar eru...

Ógöngurnar í göngunum

Ógöngurnar í göngunum

Í byrjun febrúar frumsýndi leikhópurinn Verkfræðingarnir leikverkið Vaðlaheiðargöng á Nýja sviði...