Allt er svart í myrkrinu er fyrsta skáldsaga Elísabetar Thoroddsen. Bókin hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 2022 í flokki barna- og ungmennabóka.
Bókin er unglingabók og segir frá hinni 14 ára Tinnu sem er á leið í vetrarfrí með foreldrum sínum. Á leiðinni í bústaðinn lendir fjölskyldan í bílslysi á dimmum sveitavegi. Foreldrum hennar er flogið í aðgerð til Reykjavíkur en Tinna verður innlyksa á spítalanum á svæðinu, þar sem hún kynnist Dóru, dóttur yfirlæknisins á staðnum og undarlegu hjúkrunarkonunni Sólveigu. Með Tinnu og Dóru tekst strax djúpur og innilegur vinskapur sem þróast yfir í ást. Dóra þekkir hvern krók og kima sjúkrahússins. Þegar þær setjast við andaglas fara svo uggvænlegir atburðir að gerast og líf þeirra gæti verið í hættu.
Jarðbundið en samt annars heims
Sagan af Tinnu og Dóru gerist á tveimur dögum. Lífi unglingsstúlku er lýst á nokkuð raunsannann hátt í sögunni. Hún er ekkert of ánægð með að vera á leið í sumarbústað með foreldrum sínum, þegar ALLT er að gerast í Reykjavík. Síðar verður hún líkari litlu barni sem er dauðhrætt um foreldra sína. Það togast á í henni löngunin til að vera fullorðin og barnið sem býr í henni.
Í forgrunni bókarinnar er saga Tinnu og Dóru og hvernig þær vekja upp eitthvað sem hefði betur sofið. Fyrir miðja bók prófa stelpurnar fyrir sér í andaglasi og út frá því, í skugga mikils snjóstorms, komast þær í kynni við drauginn á spítalanum. Sem vill LEIKA! Það er eitthvað hrollvekjandi við það.
Hinsegin ástir
Tinna og Dóra dragast saman og það er spenna á milli þeirra. Skotið þeirra á milli er þó alls ekki í brennipunkti, þótt því sé mjög fallega og vel lýst hvernig það er að vera stelpa skotin í annarri stelpu og vita ekki hvort tilfinningin er endurgoldin. Er hin stelpan yfir höfuð fyrir stelpur? Elísabet kemur öllum þessum tilfinningum mjög vel til skila.
Ég hefði viljað sjá meiri uppbyggingu á umhverfi og aðstæðum Tinnu á sjúkrahúsinu. Sagan er mjög stutt og hröð og möguleikarnir til að byggja upp andrúmsloft innan bókarinnar tapast svolítið. Söguþráðurinn er einhliða og sjónarhornið þröngt. Úti geysar illvægur stormur sem heldur Tinnu frá stórslösuðum foreldrum sínum. Lítið er talað um storminn eða foreldra hennar, hvorki af persónum né höfundinum. Einnig er sambandsleysi foreldra Tinnu og afa hennar hrópandi. Unglingsstúlka hefur verið skilin eftir í miklu áfalli á smásjúkrahúsi úti á landi, langt frá öllum sem geta veitt henni sáluhjálp og enginn hefur samband? Aðeins einu sinni fær lesandi ávæning af því að hún ræði við afa sinn. Þetta þótti mér mjög ótrúverðugt. Höfundur hefði getað byggt upp mikla spennu með storminum sem geysar, en því miður þá gerir hún það ekki. Rafmagnsleysi, ljósaflökt, brotnar rúður. Allt hefði þetta getað bætt í frásögnina.
Grípandi saga
Það er gleðilegt að sjá nýjan unglingabókahöfund stíga fram. Skortur á unglingabókum hefur verið áþreifanlegur í mörg ár. Þessi bók hentar vel þeim sem vilja ekki leggja í lengri bækur. Lengdin ætti ekki að fæla frá og söguþráðurinn er mjög grípandi
Í heildina er Allt er svart í myrkrinu spennandi og grípandi saga, tilfinningaþrungin og á köflum hrollvekjandi. Sagan er stutt og hnitmiðuð og í lok bókarinnar nær spennan hámarki þegar Tinna og Dóra þurfa að kljást við öfl sem eru þeim ofviða.